Joe Jonas er 34 ára tónlistarmaður, þekktastur fyrir að vera einn af þremur bræðrum í vinsælu strákasveitinni Jonas Brothers. Sophie Turner er 27 ára leikkona og sló í gegn sem Sansa Stark í Game of Thrones þáttunum.
Fyrr í vikunni greindu slúðurmiðlar vestanhafs frá því að skilnaður þeirra væri yfirvofandi en hvorugt þeirra tjáði sig um málið. Þau hafa nú bæði rofið þögnina og birt sameiginlega yfirlýsingu á samfélagsmiðlum.
Sjá einnig: Hollywood nötrar og netheimar loga vegna nýjustu skilnaðartíðinda
View this post on Instagram
„Eftir fjögur yndisleg ár höfum við tekið sameiginlega ákvörðun um að skilja. Það eru margar kenningar á sveimi um af hverju, en þetta er í alvöru sameiginleg ákvörðun og við vonum það innilega að þið munið virða óskir okkar og veita okkur og börnunum okkar næði,“ kemur fram í yfirlýsingunni.
Stjörnurnar trúlofuðust árið 2017, giftust 2019 og eiga tvö börn saman, fædd 2020 og 2022.