„Mér finnst þetta til háborinnar skammar og það getur ekki verið leyfilegt að gera svona á landareign annarra. Þetta er yfirgangur og frekja og veitir engum ánægju nema þeim sem framkvæmir skemmdarverkið,“ segir Gunnar Arngrímur Birgisson leiðsögumaður en hann hefur birt myndir af veggjaspreyji á eyðibýlum í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar. Hefur hann orðið var við slík ummerki á fimm ólíkum stöðum undanfarið og aðrir vitna um fleiri dæmi.
Ávallt er um að ræða samskonar tákn og sjá má á meðfylgjandi mynd og eru þau ýmist bleik eða blá. Gunnar hefur ekki hugmynd um hverjir eru þarna að verki. „Ég vil ekki kalla þetta listamenn og ég veit ekki hver eru þarna að verki en mér er tjáð að það þetta séu ekki þekktir íslenskri götulistamenn. Ég held að þetta séu pottþétt sömu aðilarnir að verki á öllum stöðunum,“ segir Gunnar í samtali við DV. Alls staðar þar sem um ræðir hefur samskonar tákn verið spreyjað á eyðibýlin og því virðist vera um sömu aðila að ræða í öllum tilvikum.
Meðal staða þar sem þessi ummerki hafa fundist á eyðibýlum eru Ísafjarðardjúp, Laxárdalur, Hunkubakkar og við afleggjarann að Dyrhólaey.
„Ég veit svo sem ekki hvaða viðurlög eru við svona uppátækjum en þetta getur ekki verið löglegt. Flest allir leiðsögumenn sem ég hef rætt við fordæma þetta,“ segir Gunnar.