Snorri Másson, fráfarandi stjörnublaðamaður hjá Sýn, gagnrýnir viðbrögð Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors emeritus, við ummælum Heiðars Guðjónssonar fjárfestis um stöðu íslenskrar tungu, í hlaðvarpinu Skoðanabræður. Mbl.is greinir frá. Snorri segir ummæli Eiríks um viðtalið lýsa óheiðarleika.
Í sama hlaðvarpi, Skoðanabræðrum, lýsti Heiðar þungum áhyggjum af áhrifum síaukins fjölda erlendra íbúa á tungu og menningu samfélagsins. Varaði hann við óafturkræfum áhrifum á samfélagið. Heiðar sagði meðal annars (í endursögn mbl.is):
„Það þarf að skoða þetta núna vegna þess að íslensk menning og íslensk tunga er ástæða þess að ég er hérna. Það er það sem bindur mig við mína fjölskyldu og mína heimahaga og annað þvíumlíkt. Þannig að ef því sleppir og ég verð einhvern veginn gestur í eigin landi þar sem allir tala bara ensku eða einhver önnur tungumál, þá myndi ég ekki búa hér. Þannig að ef við ætlum að leyfa þessari fólksfjölgun að eiga sér stað á þessum forsendum, að íslenska og íslensk menning sé ekki samnefnari heldur bara að þetta sé einhvern veginn alls konar, þá er útséð með íslenska þjóð. Ég er ekki að tala um Ísland fyrir Íslendinga, en bara þennan menningarheim sem við höfum búið í hérna í 1200 ár.“
Eiríkur gagnrýndi orð Heiðars og sagði hann ala á útlendingaandúð undir formerkjum málverndar. Þetta telur Snorri lýsa óheiðarleika af hálfu Eiríks:
„Ef þú lest það sem Heiðar segir og enn fremur ef þú hlustar á það þá raunverulega, og ég er ekki að þykjast vera heimskur, þá finn ég ekki hvar útlendingaandúðin er. Hann er bara að velta þessu upp. Þetta eru breytingar sem eru að verða. Hvað finnst okkur um það, er hann að segja,“ segir Snorri í endursögn mbl.is á hlaðvarpsþættinum.
Hann segir ennfremur:
„Ég veit að Eiríkur er mjög menntaður maður og mjög vanur því að lesa texta. Þannig að ég hugsa bara: Er þetta heiðarlegt mat hans að það sé útlendingaandúð í því að benda á þetta? Vegna þess að Heiðar talar aldrei um útlendingana. Hann er ekkert að tala um þá, þeirra eiginleika eða þeirra menningu eða neitt þannig. Mér finnst þetta bara óheiðarlegt.“
Snorri segir að Eiríkur hafi mjög sterkar hugmyndir um hvernig beri að nálgast málvernd: „Hann er mikið að passa tóninn hjá öðrum. Hann er kannski efnislega sammála fólki en mikið að passa tóninn. En hann hefur unnið mikið starf við að vekja athygli á þessu málefni.“ – Hann segir ennfremur: „Það er ekki lengur töluð íslenska í búðum og ef þú hringir á pítsustað eða eitthvað slíkt, þá er rosalegur hluti íslensks samfélags núna kominn á ensku. Ég er ekki ánægður með það og það eru margir sem eru ekki ánægðir með það.“ – Segir hann að Heiðar hafi fullan rétt á að tala um þessa þróun sem blasi við.
Eiríkur brást við þessari gagnrýni í gærkvöld með nokkuð löngum pistli á Facebook-síðu sinni. Segir hann ásökun Snorra í sinn garð vera óheiðarlega:
„Með því að tala um „útlendingaandúð undir formerkjum málverndar“ var ég að lýsa þeirri tilfinningu sem ég fékk við lestur viðtalsins og byggði á ýmsum atriðum í orðalagi og framsetningu. Af viðbrögðum við færslu minni að dæma var ég ekki einn um þá tilfinningu, en vissulega kom líka fram að ýmsum fannst þetta ekki rétt. Ég geri enga athugasemd við það – það er ekkert óeðlilegt við að fólk túlki texta á mismunandi hátt og ég geri enga kröfu til þess að mín túlkun sé talin réttari en aðrar, og það má alveg reyna að sannfæra mig um að ég hafi rangt fyrir mér. Ég ætlast hins vegar til þess að því sé trúað að það sem ég segi sé einlæg tilfinning mín en ekki sett fram gegn betri vitund af einhverjum annarlegum hvötum. Það finnst mér óheiðarleg ásökun.“
Hann segir það hins vegar vera rétt hjá Snorra að hann hafi ákveðnar hugmyndir um hvernig hann telji best að vinna að málverndun:
„Ég hef ákveðnar hugmyndir um hvernig eigi að berjast fyrir íslenskunni. Þær felast í því að það skuli gert með jákvæðni, umburðarlyndi og virðingu fyrir fólki að leiðarljósi, en ekki með leiðréttingum, umvöndunum, yfirlæti og þjóðrembu. Það má ekki gerast að eðlileg umhyggja fyrir íslenskunni, og áhyggjur af stöðu hennar, snúist upp í andúð gegn útlendingum og ég hef iðulega lagt áherslu á það. Ef þetta er það sem átt er við þegar sagt er að ég sé „að passa tóninn“ skammast ég mín ekkert fyrir það.“