Kona er látin eftir skotárásina á Blönduósi í morgun. Eiginmaður hennar liggur særður á sjúkrahúsi og er sagður í lífshættu.
Meinti árásarmaðurinn, karlmaður á fertugsaldri, fannst látinn á vettvangi. Samkvæmt frétt Mannlífs réðst maðurinn inn á heimili hjónanna, en hann er sagður hafa talið sig eiga eitthvað óuppgert við heimilisföðurinn. Mun meinti árásarmaðurinn hafa starfað fyrir heimilisföðurinn um hríð og verið ósáttur með starfslokin.
Eins og áður hefur komið fram herma heimildir að maðurinn hafi áður haft í hótunum við heimilisfólk í húsinu þar sem ódæðið átti sér stað og verið handtekinn með skotvopn í fórum sínum.
Maðurinn var sagður hafa hegðað sér undarlega um nokkurt skeið og verið vistaður á geðdeild fyrir skömmu.
Sjá einnig: Árásarmaðurinn handtekinn í sumar og vistaður á geðdeild – Keppnismaður í skotfimi sem hafði haft í hótunum
Tveir eru í haldi lögreglu vegna málsins, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er annar aðilinn talinn kunna að hafa átt þátt í dauða árásarmannsins. En Fréttablaðið segist ekki vera kunnugt um banamein árásarmannsins að öðru leyti en að hann lést ekki af skotsárum.
Fréttablaðið greinir jafnframt frá því að að heimildir hermi að tveggja mánaða gamalt barn hafi verið á heimilinu þegar byssumaðurinn lagði til atlögu – en barnið meiddist ekki.
Mbl.is hefur eftir Birgi Jónassyni, lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra, að verið sé að rannsaka hvernig andlát árásarmannsins vildi til. Þegar lögreglan hafði afskipti af manninum fyrir þremur vikum hafi skotvopn sem hann hafði undir höndum og var skráður fyrir verið tekin í vörslu lögreglu. Því liggi ekki fyrir á þessu stigi hvaða skotvopni var beitt í morgun.
Fréttin birtist áður í annari útgáfu en var tekin úr birtingu eftir að Fréttablaðið tók út þá frétt sem áður var vísað til hér að ofan í kjölfar athugasemda og eindreginna óska frá aðstandendum þolenda árásarmannsins. Hefur þessi frétt verið uppfærð í samræmi við það.