Stereo.is gerðist nýlega umboðsaðili fyrir Rega á Íslandi. Rega er hljómtækjaframleiðandi frá Englandi sem hefur í um fjóra áratugi verið leiðandi í þróun og framleiðslu plötuspilara og annarra hljómtækja. Rega hefur verið ófáánlegt á Íslandi í mörg ár, en núna er loksins kominn umboðsaðili aftur.
Rega hefur löngum verið eitt þekktasta vörumerkið í hljómtækjaheiminum, en fyrirtækið hannar og setur saman allar framleiðsluvörur sínar í verksmiðju sinni í Essex í Englandi. Stofnandinn, Roy Gandy, er ennþá eigandi og aðaldriffjöður fyrirtækisins. Markmið Rega Research er að koma tónlistinni til skila í eyru hlustandans án þess að hljómtækin séu fyrir. Allar vörur fyrirtækisins eru hannaðar með það að markmiði að skila góðum hljómi, líta vel út, endast og vera á viðráðanlegu verði.
Flestir þekkja Rega Planar plötuspilarana sem hafa í gegnum áratugina sópað að sér verðlaunum og notið gríðarlegra vinsælda. Nálgun Rega á hönnun plötuspilara er með öðru sniði en gengur og gerist hjá flestum öðrum framleiðendum. Að sögn Roys Gandy eru plötuspilarar ekkert annað en tæki, tæki sem mæla titring. Hönnun, efnisval og samsetning miðar allt að einu og sama markmiðinu: Að framleiða tæki sem kemur tónlistinni á hljómplötunni til skila með því að hafa sem minnst áhrif á útkomuna, þ.e. mæla það sem hljómplatan geymir.
Eftir heimsókn forsvarsmanna Stereo.is í höfuðstöðvar og verksmiðju Rega á Englandi þótti þeim ekkert annað koma til greina en að gera allt sem mögulegt væri til að koma Rega til Íslands. Aðra eins nákvæmni í framleiðslu, áráttu í gæðastjórnun og gagnsæi í rekstri höfðu fulltrúar Stereo.is ekki áður séð. Tryggð starfsfólks við hugsjónir fyrirtækisins veittu Stereo.is innblástur sem þeir vona að smitist til hljómtækjaáhugamanna á Íslandi.
Verðið sem Stereo.is getur boðið viðskiptavinum á Íslandi upp á er vel samanburðarhæft við nágrannalöndin og gerir Rega að vörumerki sem erfitt verður að keppa við hérlendis. En þegar öllu er á botninn hvolft er það hljómurinn sem segir mest.
Sjá nánar á stereo.is
Heimasíða Rega er rega.co.uk