fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Pressan

Lögreglumönnunum brá mikið þegar þeir opnuðu kassann – „Eitt það klikkaðasta sem ég hef upplifað“

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 16. janúar 2022 07:00

Kassinn sem lögreglan fékk sendan. Mynd:Lögreglan

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vikum saman hafði Beverly McGowan, 34 ára, leita að meðleigjanda en hún bjó í Pompano Beach í Flórída. Hún starfaði í banka og launin voru ekki neitt til að hrópa húrra yfir. Hún þurfti því að finna sér meðleigjanda til að létta aðeins á greiðslubyrðinni. Kvöld eitt hringdi kona, sem kynnti sig sem Alice, og sagðist hafa séð auglýsinguna frá henni. „Ég vil gjarnan flytja inn,“ sagði hún með breskum hreim. Hún sagðist vera frá Bretlandi og starfaði hjá IBM. Hún sagðist vera áreiðanlegur leigjandi og stæði skil á sínum greiðslum. Þær sammæltust því um að hittast daginn eftir.

Alice kom akandi í lúxusbifreið til fundar þeirra og var íklædd dýrum fatnaði frá þekktum hönnuðum. Beverly leist strax vel á hana. „Ég er hrifin af smá dulúð og elska talnaspeki,“ sagði Alice þegar hún kynnti sig. Síðan sagði hún svolítið sem hefði átt að fá viðvörunarbjöllurnar til að hringja hjá Beverly: „Ef þú lætur mig fá númerið á vegabréfinu þínu, ökuskírteininu og kennitöluna þína þá get ég spáð fyrir um framtíð þína.“

Beverly. Mynd:Lögreglan

Beverly var efins en vildi gjarnan sýna að hún treysti Alice og sagði henni allar þessar tölur. Þetta voru mistök sem urðu henni að bana.

„Þú munt finna hina einu sönnu ást og verða rík en maður og kona sem standa þér nærri munu svíkja þig og særa,“ sagði Alice út frá tölunum sem Beverly hafði sagt henni.

Hvarfið

Beverly var ekki í neinum vafa um að Alice væri fullkominn meðleigjandi og sagði henni að hún gæti flutt inn um leið og henni hentaði.  Daginn eftir sagði hún vinnufélögum sínum frá Alice og að þær ættu svo margt sameiginlegt.

En 17. júlí 1990, nokkrum dögum eftir að Alice flutti inn var eins og Beverly hefði gufað upp. Hún var í daglegu sambandi við bróður sinn og systur en skyndilega heyrðist ekkert frá henni. Bróðir hennar, Steve McGowan, fór heim til hennar til að kanna hvort allt væri í lagi. Bílinn hennar var ekki við húsið og búið var að rífa símann úr sambandi. Náttkjóllinn hennar lá samanvafinn við rúmið. Það var eins og Beverly hefði bara skotist út en það var eitthvað sem gerði Steve órólegan.

Kettirnir hennar voru horfnir sem og heimilisfangabókin hennar og vegabréf. Hann fór í bankann þar sem hún vann en þar hafði enginn séð hana í tvo daga. Yfirmaðurinn sagði honum að Beverly hefði hringt og tilkynnt veikindi. Steve hnaut um þetta því hann vissi að Beverly var ánægði í vinnunni og hafði aldrei misst úr dag.

Konan sem sagðist heita Alice. Mynd:Lögreglan

Tveimur dögum síðar barst honum bréf. Það var skrifað með rithönd Beverly en það var eins og einhver annar hefði samið textann: „Ég vildi bara segja þér og börnunum að ég er að gera það rétta. Þetta er það sem ég þarf að gera í lífinu. Þú mátt ekki hafa áhyggjur af mér. Þegar ég kem aftur verð ég glaðari og betri manneskja.“

Steve hnaut um að Beverly hafði skrifað „good by“ í lokin í staðinn fyrir „good bye“ og það þótti honum mjög undarlegt því hún var mjög upptekin af réttritun. Hann taldi að hún væri með þessu að gefa til kynna að hún væri í hættu.

Hann fór því á næstu lögreglustöð með bréfið. Síðar sagði hann að það hafi verið svo órökrétt að hún hafi horfið og skilið allt eftir.

Lögreglan á Pompano Beach sagði að ekki væri hægt að skrá mál Beverly sem mannshvarf því hún hafi sjálf skrifað bréfið og yfirgefið heimili sitt af fúsum og frjálsum vilja.

Nora Pfeiffer, sem var aðalrannsakandi saksóknaraembættisins á Pompano Beach, segir að þetta hafi verið gríðarlega stór mistök af hálfu lögreglunnar. Hún er sannfærð um að það hafi verið Alice sem fékk Beverly til að skrifa bréfið.

Líkið

Daginn sem Steve fór til lögreglunnar, sem var 19. júlí 1990, fann veiðimaður það sem hann taldi vera fullan ruslapoka í St. Lucie River en hún er í um tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá heimili Beverly.

Ruslapokinn lá hálfur úti í ána. Veiðimaðurinn gekk að pokanum til að kanna hvað væri í honum. Sjónin sem mætti honum fékk hann til að hlaupa á harðaspretti í bíl sinn og hringja í lögregluna.

St. Lucie River. Mynd:Wikimedia Commons

Hann hafði fundið blóðugt lík sem var höfuðlaust og auk þess vantaði hendurnar á það. Líkið var alklætt og rennandi blautt og margir djúpir skurðir voru á því. Stórt stykki af húð hafði verið fjarlægt af maga þess.

„Ég hef verið lögreglustjóri í 21 ár og ég hef aldrei séð lík sem hefur verið misþyrmt svona skelfilega áður,“ sagði Dave Brooks lögreglustjóri.

Húðflúrið á ökklanum. Mynd:Lögreglan

Morðinginn hafði gert þetta til að leyna því af hverjum líkið var. Húðin á maganum var húðflúr af kanínu sem Beverly hafði fengið sér. En morðinginn hafði gert ein stór mistök. Beverly var enn með húðflúr af blómi á ökklanum. Ættingjar hennar staðfestu að hún hefði verið með gult blóm húðflúraða á hægri ökklann. Réttarmeinafræðingar gátu því borið kennsl á líkið út frá þessum upplýsingum.

Alice

Alice lá strax undir grun og lögreglan fór nákvæmlega yfir íbúð Beverly. En þar fundust hvorki fingraför eða annað sem var hægt að tengja við Alice. „Hún er ein af þeim bestu sem ég hef átt við. Þetta segir mér að hún sé snjöll, nákvæm og banvæn,“ sagði George Miller sem vann við rannsókn málsins.

Þegar rannsóknin var nýhafin barst lögreglunni tilkynning um að kreditkort Beverly hefði verið notað í verslunarmiðstöð á Miami Beach. Lögreglumenn fóru strax á vettvang og fengu að vita að „aðlaðandi ljóshærð kona með breskan hreim“ hefði notað kortið til að kaupa bækur og fatnað. Kortið var einnig notað til að taka 2.000 dollara út úr hraðbanka.

Lögreglan var þess fullviss að Alice hefði notað kortið og að hún væri á meðvitaðan hátt að leika sér að lögreglunni.

Þetta gerðist allt 1990 og fæstir þekktu til Internetsins og það tók langa tíma að afla nauðsynlegra upplýsinga um þau rafrænu spor sem fólk skildi eftir sig. Lögreglan hafði því enga hugmynd um hvar hún átti að leita að Alice og taldi víst að hún væri komin langt frá Miami Beach.

Alice. Mynd:Lögreglan

Í lok júlí lét banki Beverly lögregluna vita að kortið hefði verið notað til að kaupa flugmiða til Lundúna. Á Heathrowflugvellinu var reynt að nota það til að leigja bíl hjá Avis en því var hafnað því Steve hafði látið loka því. Starfsfólk Avis sagðist hafa tekið eftir því að konan, sem var með greiðslukortið, hafi verið með ódýra hárkollu og stór gleraugu. Það hafði ekki hugmynd um að með þessu hafði Alice verið að líkja eftir útliti Beverly. Hún varð hissa þegar greiðslukortinu var hafnað og greiddi þá með reiðufé og fékk lyklana afhenta.

Tveimur dögum síðar var Lundúnalögreglunni tilkynnt að bílaleigubíllinn hefði fundist skemmdur á hraðbraut nærri Lundúnum og að Alice hefði látið sig hverfa. Í bílnum fann lögreglan hárkollu og falskt yfirvaraskegg auk dagbókar sem var skrifuð á frönsku.

Beverly. Mynd:Lögreglan
Teikning af konunni sem kom í afgreiðslu Avis á Heathrow. Mynd:Lögreglan

Ekkert spurðist til Alice og lögreglan dró úr umfangi rannsóknarinnar en reiknaði með að Alice myndi snúa aftur til Bandaríkjanna.

Nora Pfeiffer var þó ekki reiðubúin til að leggja málið frá sér. Hún hellti sér út í að fara nákvæmlega yfir upplýsingar um alla þá farþega sem flugu með vélinni, sem Alice hafði líklega flogið með, frá Miami til Lundúna. Hún veitti einum farþega, Sylvia Ann Hodgkinson, sérstaka athygli. Rannsókn hennar leiddi í ljós að Sylvia bjó í Lundúnum, glímdi við ýmsa erfiðleika í lífinu og hafði aldrei átt vegabréf.

Falsað vegabréf í nafni Sylvia. Mynd:Lögreglan

Alríkislögreglan FBI fékk á svipuðum tíma ábendingu um að Alice gæti notað nafnið Elaine Parent eða Charlotte Cowan og að líklega tengdist hún sjö morðum til viðbótar.

Nora fór í gegnum skjalaskrá lögreglunnar og komst að því að Charlotte Cowan hafði verið handtekinn 1985 fyrir ölvunarakstur í Miami. Í bíl hennar fann lögreglan skilríki á nafni Charlotte Cowan, Elaine Parent og Sylvia Anne Hodgkinson.

Nú lá ljóst fyrir að Alice, ef það var hið rétta nafn hennar, notaði ýmis nöfn og hafði stolið fjölda persónuskilríkja.

Charlotte

Lögreglunni tókst að hafa uppi á hinni raunverulegu Charlotte Cowan sem bjó við vesturströnd Flórída. Henni var sýnd mynd af konunni sem var handtekin fyrir ölvunarakstur og varð hún mjög hrædd við það. Hún sagðist ekki geta gleymt þessari konu sem hún hafði hitt á bar í Orlando tíu árum áður. Hún sagðist heita Anne Dumont og daðraði mikið við Charlotte.

Charlotte sagði að konan hefði keypt drykk handa henni og síðan sagst vera heilluð af talnaspeki og gæti spáð fyrir um framtíð hennar.

Charlotte hafði kolfallið fyrir henni og sagði henni númerið á vegabréfinu sínu og fæðingardaginn. „Þú munt eiga frábæra framtíð,“ skrifaði konan á servíettu og bað um símanúmer Charlotte. Þær voru síðan í stopulu sambandi næstu þrjá mánuði en þá var skyndilega bankað á dyrnar hjá Charlotte um miðja nótt. Fyrir utan stóð konan og var með hárkollu. Hún var í stórri skyrtu og víðum gallabuxum.

Hún sagðist hafa stungið af frá sjúkrahúsi og þyrfti að fá nafnskírteini Charlotte til að komast úr bænum. Charlotte vildi ekki láta hana fá skírteinið og brást konan mjög illa við því. Að lokum lét Charlotte hana hafa það gegn loforði um að hún myndi skila því fljótlega.  Konan hvarf síðan út í myrkrið. Nokkrum dögum síðar fékk Charlotte nafnskírteinið sitt í pósti.

Pappakassi

Nora átti nú aðeins eftir að kanna eitt nafn betur: Elaine Parent. Hún kafaði ofan í skjalasöfn lögreglunnar og komst að því að nafnið tilheyrði fyrrum fasteignasala á Flórída sem hafði verið handtekinn vegna fíkniefnalagabrots á níunda áratugnum. Af þeim sökum höfðu fingraför verið tekin af henni. Þau reyndust passa við fingraförin sem voru tekin af konunni sem var handtekin fyrir ölvun við akstur og notaði nafn Charlotte. Nú var Nora komin nær því en áður að vita hver konan var. Hún hét Elaine Parent en vandamálið var að enginn vissi hvort hún notaði þetta nafn enn.

Þrátt fyrir að lögreglunni bærust mörg þúsund vísbendingar um hvar Elaine gæti verið tókst ekki að hafa uppi á henni.

Kassinn sem lögreglan fékk sendan. Mynd:Lögreglan

Þegar lögreglan var að undirbúa sig undir að hætta rannsókninni alveg barst henni pappakassi í pósti. Í honum var málverk af konu sem gat hæglega verið Elaine Parent á efri árum. Konan var í sundbol og á leið upp úr sundlaug. „Á bakhliðinni stóð „Kamelljónið þitt“ (lögreglan hafði nefnt hana það vegna hæfileika hennar til að dulbúast) og hafði kassinn verið sendur frá Bretlandi.

Málverkið. Mynd:Lögreglan
Skilaboðin sem fylgdu með málverkinu. Mynd:Lögreglan

Lögreglan hafði ekki hugmynd um hvort Elaine væri að gera grín að henni eða hvert markmiðið var með þessari sendingu. Eitt það klikkaðasta sem ég hef upplifað,“ sagði einn lögreglumannanna.

Nora var sannfærð um að Elaine hefði sent málverkið til að sýna lögreglunni að hún væri enn að.

Ábendingin

1998 var fjallað um Elaine í þættinum „America‘s Most Wanted“. Í kjölfarið rigndi ábendingum inn til lögreglunnar. Ein þeirra skar sig úr.

Kona ein sagði að kona, sem líktist konunni á myndinni sem var sýnd í þættinum hafi sest að í fjölbýlishúsi í Panama í Flórída. Hún sagði konuna vera greinda, kurteisa, vel til hafða og heillandi. Þetta var lýsing sem lögreglan kannaðist vel við.

Þann 6. mars 2002 fór lögreglan að fjölbýlishúsinu sem hafði verið nefnt í ábendingunni. Á meðan lögreglumenn voru að koma sér fyrir utan við íbúðina opnaði kona dyrnar og spurði hvað væri á seyði. Hún líktist Elaine Parent alls ekki en lögreglumennirnir vissu að hún var meistari í að breyta útliti sínu. „Þú verður að koma með okkur,“ sögðu þeir.

Konan brosti í uppgjöf og spurði hvort hún mætti skipta um föt fyrst. Hún fór síðan inn í svefnherbergið.

Skyndilega heyrðist hár hvellur. Lögreglumennirnir ruddust inn í svefnherbergið. Konan lá líflaus á gólfinu. Hún hafði skotið sig í hjartað og var látin.

Lögreglumennirnir voru sannfærðir um að Elaine hefði tekið öll leyndarmálin með sér í gröfina en við leit í íbúðinni fundu þeir mikið af sönnunargögnum sem vörpuðu ákveðnu ljósi á málið. Þar fundust til dæmis heimilisfangabækur, franskar orðabækur, skrá með kreditkortanúmerum og símanúmerum og bók full af kennitölum. Einnig fundust gerviskegg og gervi bartar, hattar og frakkar. Margt benti því til að Elaine hefði stundum dulbúist sem karlmaður.

Nora sagði síðar að það hafi verið versti dagurinn á starfsferli hennar þegar henni var tilkynnt að Elaine hefði svipt sig lífi. „Við erum svo mörg sem sitjum eftir með spurningar sem við fáum ekki svör við. Það eru 12 ár síðan Beverly var myrt og ég veit ekki enn af hverju hún var myrt,“ sagði hún.

Byggt á umfjöllun The Telegraph, The Irish Times, South Florida Sun Sentinel og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað