fbpx
Sunnudagur 17.ágúst 2025
Fréttir

Bankarnir þögulir um veð vegna olíuútrásar

Íslandsbanki og Arion svara ekki hvort Havila Shipping hafi veðsett eignir sem tryggingu fyrir milljarðalánum

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 12. janúar 2016 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arion banki og Íslandsbanki gefa ekki upp hvort fyrirtækin hafi farið fram á að floti eða aðrar eignir norska skipafélagsins Havila Shipping ASA, sem á í miklum rekstrarerfiðleikum, yrðu veðsettar vegna lánveitinga sem nema jafnvirði 6,3 milljarða íslenskra króna. Prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík segir með ólíkindum að íslenskir bankar hafi lánað í „erlendan áhætturekstur“.

Hlutabréfin hrunið í verði

Íslandsbanki, sem verður senn að fullu í eigu íslenska ríkisins, tók í árslok 2013, ásamt Sparebank1 SMN í Noregi, þátt í sambankaláni til Havila Shipping upp á 475 milljónir norskra króna eða rétt tæpa sjö milljarða króna miðað við núverandi gengi. Hlutur bankans nam samkvæmt fréttum á þeim tíma 130 milljónum norskra króna eða 1,9 milljörðum króna. Lánið fór í endurfjármögnun fjögurra olíuþjónustuskipa félagsins í Noregi en velta þess á fyrstu þremur ársfjórðungum 2013 nam jafnvirði 21,5 milljarða íslenskra króna.

Lánaði Landsbankinn einnig?

Lánaði Landsbankinn einnig?

Ketill Sigurjónsson hefur einnig fullyrt að Landsbankinn eigi töluverðra hagsmuna að gæta vegna lánveitinga til færeyska skipafélagsins Skansi Offshore. Félagið rekur skipaflota í þjónustu við olíuiðnaðinn. DV leitaði staðfestingar hjá Landsbankanum á fullyrðingum Ketils en í svari fyrirtækisins segir að bankinn tjái sig ekki um viðskipti við einstaka viðskiptavini.

Á þeim rúmu tveimur árum sem liðin eru síðan lánið var veitt hefur verð á tunnu af Norðursjávarolíu (e. Brent crude) fallið um 70%. Tunnan kostaði við lokun markaða í gær 32,7 Bandaríkjadali en 110 dali þegar lánveiting Íslandsbanka fór í gegn. Hlutabréf Havila, sem hefur eins og önnur fyrirtæki sem þjónusta olíuiðnaðinn þurft að draga saman seglin og leggja hluta skipaflota síns, hafa fallið í verði um 88% á einu ári en þau eru skráð í Kauphöllinni í Ósló. Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum og eigandi Orkubloggsins, vakti nýverið athygli á stöðu fyrirtækisins og nýlegum samningum þess við lánardrottna um fjárhagslega endurskipulagningu sem felur meðal annars í sér að lengt er í lánum og afborgunum seinkað. Hefur Ketill sagt líklegt að Íslandsbanki hafi tapað háum fjárhæðum. Bankinn svaraði fyrirspurn DV um lánveitinguna á þann veg að hann tjái sig ekki um einstaka viðskiptavini eða hvort eignir norska félagsins hafi verið veðsettar sem trygging fyrir endurgreiðslu lánsins.

Lánaði 4,4 milljarða

Arion banki lánaði Havila alls 300 milljónir norskra króna, 4,4 milljarða króna, í júlí 2014. Tunna af Norðursjávarolíu kostaði þá um 105 dali. Í tilkynningu Arion um lánveitinguna kom fram að stærstur hluti flota skipafélagsins væri leigður út til langs tíma til olíufélaga. Skipafloti þess, sem telur 28 fley, væri að meðaltali nýlegur en 88% af flotanum væru yngri en frá árinu 2007. Eignarhlutur íslenska ríkisins í Arion banka nemur 13%.

Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, skilur ekki af hverju íslenskir bankar lánuðu norska skipafélaginu.
Hissa Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, skilur ekki af hverju íslenskir bankar lánuðu norska skipafélaginu.

„Mér finnst merkilegt að norskt fyrirtæki hafi leitað til íslenskra banka sem voru með 300–400 punkta álag á millibankavexti, sem er mjög hátt miðað við til dæmis banka í Noregi á þeim tíma, með þeim kjörum sem það hlýtur að hafa falið í sér,“ segir Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, í samtali við DV. Friðrik tekur fram að hann hafi ekki allar forsendur til að leggja mat á umræddar lánveitingar.

„Ég geri hins vegar ráð fyrir að þessi láni hafi ekki verið veitt með minna álagi og í hagfræðinni er það vel þekkt að svona lagað leiðir til svokallaðs hrakvals. Það á sér stað þegar áhættusamir lántakendur, sem eiga erfitt með aðgang að fjármagni heima hjá sér, taka lán á þeim kjörum sem þetta hlýtur að fela í sér. Þess vegna á ég erfitt með að skilja hvernig stendur á þessum lánveitingum og finnst skrýtið að norskt fyrirtæki í olíuiðnaði, sem er bransi sem norskir bankar þekkja út og inn, skuli þurfa að fjármagna sig hjá íslenskum bönkum sem þekkja þennan iðnað ekkert sérstaklega vel og þurfa sjálfir að fjármagna sig á frekar óhagstæðum kjörum,“ segir Friðrik.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Vekur athygli á hvimleiðum ósóma ferðamanna – „Þessari áráttu að ferðast og skilja eftir sig subbuskap“

Vekur athygli á hvimleiðum ósóma ferðamanna – „Þessari áráttu að ferðast og skilja eftir sig subbuskap“
Fréttir
Í gær

Hillary Clinton ætlar að tilnefna Trump til friðarverðlauna Nóbels að uppfylltum ákveðnum skilyrðum

Hillary Clinton ætlar að tilnefna Trump til friðarverðlauna Nóbels að uppfylltum ákveðnum skilyrðum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr tjáir sig um kynferðisbrotamálið á Múlaborg – Á barnabörn á deildinni og furðar sig á viðbragðaleysi borgarinnar

Jón Gnarr tjáir sig um kynferðisbrotamálið á Múlaborg – Á barnabörn á deildinni og furðar sig á viðbragðaleysi borgarinnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar á Þórshöfn kvarta sáran undan hávaða og mengun – „Ég get ekki sætt mig við það að þetta sé komið til að vera svona í framtíðinni“

Íbúar á Þórshöfn kvarta sáran undan hávaða og mengun – „Ég get ekki sætt mig við það að þetta sé komið til að vera svona í framtíðinni“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Borgar þrisvar sinnum meira rafmagn en nágranninn – „Gæti verið grasið sem þú ert að rækta“

Borgar þrisvar sinnum meira rafmagn en nágranninn – „Gæti verið grasið sem þú ert að rækta“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Haraldur rifjar upp ótrúlega atburðarás frá Twitter-tímanum – „Lausnin var mjög gölluð og takmörkuð“

Haraldur rifjar upp ótrúlega atburðarás frá Twitter-tímanum – „Lausnin var mjög gölluð og takmörkuð“