fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Helgi Seljan bendir á fordóma í dómskerfinu – „Einungis einn er nafngreindur“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 4. desember 2021 15:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan bendir á þá staðreynd að í þeim þremur kynferðisbrotamálum sem Landsréttur hefur nýlega kveðið upp dóm sinn í og birt á vefsíðu sinni, sé aðeins einn gerenda nafngreindur. Sá gerandi sé af erlendum uppruna. Hann tísti um málið í gær. Í athugasemdum er hann spurður hvort hann sé að gefa til kynna að verið sé að mismuna sakamönnum af erlendum uppruna segir Helgi „auðvitað“.

„Landsréttur dæmdi þrjá menn fyrir nauðganir í þremur aðskildum málum. 
Einungis einn er nafngreindur. Nafn hans fengist seint staðfest af mannanafnanefndinni íslensku. 
Það er eflaust tilviljun? 
Enda kemur okkur ekkert við.“ 

Samkvæmt reglum dómstólasýslunnar um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðum dómstólanna skal gæta nafnleyndar gerenda í sakamálum ef þeir hafa ekki náð 18 ára aldri þegar brot var framið, ef birting getur verið andstæð hagsmunum brotaþola eða annars vitnis eða ef sérstök ástæða er til.

Í reynd er dómstólum veitt nokkuð víðtæk heimild til að hreinsa nöfn úr dómum og hefur verið nokkur umræða undanfarin ár um hvort að hætta eigi alfarið að birta nöfn brotamanna og jafnvel hvort hætta eigi að birta dóma yfirhöfuð sem varða viðkvæm málefni á borð við kynferðisbrot, umgengismál og annað og lagði Sigríður Á. Andersen fram frumvarp þess efnis þegar hún var í embætti dómsmálaráðherra.

Helgi Seljan vísar til þriggja dóma sem birtust á vef Landsréttar í gær og varða kynferðisbrot.

Þrír dómar ein nafngreining

Einn þeirra fjallar um brot stuðningsaðila gegn fötluðum skjólstæðingi sínum.

Annar varðar brot Jóns Páls Eyjólfssonar, fyrrverandi leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar frá árinu 2008 en hann nauðgaði konu á hótelherbergi erlendis með ofbeldisfullum hætti. Jón Páll er ekki nafngreindur í dóminum þó svo að hann hafi verið nafngreindur í fjölmiðlum þegar dómur féll fyrst í héraði. Jón Páll var dæmdur í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 2 milljónir í miskabætur, en það var lækkun frá dómi héraðsdóms sem dæmdi 2,5 milljónir í miskabætur.

Þriðji dómurinn og sá eini sem gerandi er nafngreindur í varðar nauðgun sem átti sér stað árið 2019. Gerandinn er af erlendum uppruna. Sá var dæmdur tveggja og hálfs árs óskilorðsbundið fangelsi og til að greiða brotaþola 1.8 milljónir í miskabætur.

Erlend nöfn og íslensk nöfn

DV ákvað fyrir forvitni sakir að fletta í gegnum birta dóma Landsréttar frá ársbyrjun 2020 sem varða kynferðisbrot með því að slá leitarorðinu kynferðisbrot inn í leitarvef dómstólsins.

Niðurstöðurnar sýndu 16 dóma þar sem gerandi er nafngreindur, en mun fleiri dómar féllu á þessum tíma þar sem gerandi er ekki nafngreindur. Tíu þeirra nafna eru íslensk en sex þeirra eru af erlendum uppruna. Af þessum málum varða þrjú brot blygðunarsemi og tvö kynferðislega áreitni. Af þeim ellefu sem varða brotin nauðgun eða kynferðisbrot gegn barni eru sex erlend nöfn og fimm íslensk.

Óljóst hvers vegna birt er í sumum tilvikum

Þrátt fyrir að dómstólar séu nú með nokkrar víðtækar heimildir til að afmá nöfn sakamanna úr birtum dómum virðist ekki vera fullkomið samræmi um hvenær þeim heimildum er beitt. Oft eru sakamenn í málum sem varða brot sem að jafnaði liggur ekki þung refsing við nafngreindir á meðan sakamenn í alvarlegri málum njóta nafnleyndar.

Dómstólar taka ekki ákvörðun um nafnbirtingu í dómsorðum heldur er ákvörðun tekin áður en dómur er birtur á vefsíðum dómstóla og því er erfitt að gera sér grein fyrir á hvaða grundvelli nafnleyndin var veitt, eða hvort það séu verjendur sem þurfi að fara fram á slíkt eða hvort dómurinn meti það í öllum tilvikum sjálfur.

Því má sjá dóma sem kannski varða ölvunarakstur, búðahnupl eða brot þar sem gerendur eru í jaðarsettum hópum á borð við vímuefnaneytendur eða einstaklingar með geðrænan vanda eru nafngreindir á meðan gerendur í alvarlegum ofbeldismálum eða alvarlegum fjársvikamálum njóta nafnleyndar.

Persónuvernd greindi frá því júní í kjölfar fréttaflutnings DV af þolanda kynferðisofbeldis sem var fyrir mistök nafngreind í birtum dómi, að fjöldi fyrirspurna berist stofnunni um nafngreiningar eða persónugreinanlegar upplýsingar í birtum dómum. Persónuvernd óskaði af því tilefni eftir formlegum skýringum frá dómstólum landsins hvernig birting tiltekinna dóma samrýmist ákvæðum persónuverndar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni
Fréttir
Í gær

Sverrir tjáir sig um handtökuna – „Hissa á þessu leikriti“

Sverrir tjáir sig um handtökuna – „Hissa á þessu leikriti“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“