fbpx
Þriðjudagur 20.maí 2025
Pressan

Sakamál: Gaf ólögráða barnapíu giftingarhring eiginkonunnar stuttu eftir að hafa myrt hana

Jón Þór Stefánsson
Laugardaginn 2. október 2021 20:30

Nancy Riggins

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hin 37 ára gamla Nancy Riggins virtist lifa góðu og hamingjusömu lífi. Hún hafði verið gift í tíu ár, átti unga dóttur, var ánægð í vinnunni sinni, bjó í friðsæla bænum Elkridge í Maryland-fylki Bandaríkjanna og heimilið virtist vera til fyrirmyndar. En ekki var allt sem sýndist. Fyrsta júlí árið 1996 hvarf Nancy.

Eiginmaður hennar Stephen Riggins gerði lögreglunni viðvart um hvarfið þremur dögum síðar. Hann var á næturvakt og þegar hann kom heim um morguninn sagði hann að Nancy hafi verið hvergi sjáanleg.

Stephen, sem var einnig kallaður Steve, beið þó í 48 klukkutíma með það að láta lögregluna vita, þar sem hann hélt að það væri skylda í Maryland-fylki.

Hann sagðist hafa komið heim um morguninn, séð að bíllinn hennar væri í innkeyrslunni og útidyrnar ólæstar. Nancy var hvergi að finna, en fimm ára gömul dóttir þeirra, Amanda, var ein í svefnherberginu sínu. Þá sagðist hann hafa fundið giftingarhring hennar á kommóðu, líkt og hann hefði verið skilinn eftir.

Framhjáhald með barnapíunni

Steve viðurkenndi við lögreglu að hann og Nancy hefðu átt í hjónabandsvandræðum og það vegna framhjáhalds hans. Þriggja daga rannsókn lögreglu leiddi meðal annars í ljós að Steve hefði haldið við barnapíu hjónanna, sem var átján ára gömul. Síðan hefur komið fram að samband hans og barnapíunnar hófst þegar hún var einungis fjórtán ára.

Samkvæmt vinnufélögum Nancy ætlaði hún að skilja við manninn sinn vegna þessa.

Barnapían var yfirheyrð og sagði að Nancy hefði spurt hana út í samband hennar og Steve og hótað að segja móður hennar frá því. Í kjölfarið hafi stúlkan sagt honum frá því en hann sagt henni að hafa ekki áhyggjur, hann myndi „leysa málið“.

Gaf henni giftingarhring stuttu eftir morðið

Eftir að hafa talað við barnapíuna áttaði lögreglan sig á því að líklega væri ekki um hefðbundið mannhvarfsmál að ræða, heldur mögulega væri það morðmál.

Sá grunur jókst fjórum dögum eftir hvarfið, þegar hann bauð barnapíunni að flytja inn til sín, og gaf henni giftingarhring Nancy.

Þau lágu bæði undir grun og voru boðuð í frekari skýrslutöku, þar sem þau voru látin taka lygapróf. Hún stóðst sitt með prýði, en ekki var hægt að segja það sama um niðurstöðurnar hjá Steve. Það varð til þess að rannsakendur einblíndu á hann og leituðu sannana.

Þau komust að því að hann hefði getað skroppið frá vinnunni sinni án þess að nokkur tæki eftir. Í vinnunni hafði hann síðan sagt vinnufélögum sínum frá því að hann vildi drepa Nancy. Auk þess spurði hann út í notkun skotvopna og velti því fyrir sér hvernig best væri að fela lík.

Ekkert gekk hjá lögreglu

Ekkert af ofantöldu var þó fullnægjandi sönnun. Lögreglan gerði húsleit á heimili Steve, en þar fannst ekkert. Þá var barnapían fengin til að hitta hann með falinn upptökubúnað á sér Það skilaði engu. Lögreglan reyndi það aftur, en þá með því að setja upptökubúnaðinn á náinn vin Steve, en aftur gekk það ekki.

Þrátt fyrir að lögreglan væri sannfærð um sekt hans, þá voru hreinlega ekki nægilegar sannanir fyrir hendi. Enda var ekki vitað um neitt lík eða önnur sönnunargögn. Því var málið lagt til hliðar.

Örlagaríkar samræður í fangaklefa

Hann var þó ekki saklaus af öllum sökum. Árið 1997 var hann handtekinn fyrir að kynferðisbrot gegn einstaklingi undir lögaldri, það er að segja barnapíunni. Hann játaði sök í því máli og fékk átján mánaða dóm.

Á meðan hann sat í steininum átti hann örlagaríkar samræður, en hann játaði fyrir öðrum fanga að hann hefði myrt eiginkonu sína. Hann sagðist hafa komið úr vinnunni um miðja nótt og kyrkt Nancy til dauða. Samfanginn sem heyrði þetta gerði lögreglu viðvart um málið árið 2000.

Hann var handtekinn stuttu seinna. Málið var erfitt fyrir saksóknara þar sem ekkert lík eða morðvopn lá fyrir. Þrátt fyrir það var Steve fundinn sekur og fékk lífstíðardóm, með möguleika á reynslulausn eftir fimmtán ár.

Benti á líkið

Rannsakendur voru ánægðir með niðurstöðu dómsins, en hefðu viljað finna líkið. Árið 2007 kíktu tveir þeirra í heimsókn til Steve í fangelsið. Þeir sögðu honum að hann ætti betri möguleika á reynslulausn myndi hann gefa upp hvar líkið væri falið.

Tveimur vikum seinna fór hann ásamt rannsóknarlögreglumönnum í skóglendi stutt frá heimili hans. Hann benti á ákveðinn stað og sagði „Þarna er hún,“ og viti menn, þar fannst líkið af Nancy Riggins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Drama við Grænland – Áhöfn rússneskrar snekkju skaut að grænlenskum sjómönnum

Drama við Grænland – Áhöfn rússneskrar snekkju skaut að grænlenskum sjómönnum
Pressan
Í gær

Leyniskjöl frá CIA afhjúpa að þriðja heimsstyrjöldin hafi nærri hafist af völdum fljúgandi furðuhluta

Leyniskjöl frá CIA afhjúpa að þriðja heimsstyrjöldin hafi nærri hafist af völdum fljúgandi furðuhluta
Pressan
Fyrir 3 dögum

„Hann trúði virkilega að það væri engin leið út ef þessar myndir yrðu birtar”

„Hann trúði virkilega að það væri engin leið út ef þessar myndir yrðu birtar”
Pressan
Fyrir 3 dögum

Dældi skilaboðum yfir konu og hvatti hana til að fyrirfara sér svo hann gæti fylgst með

Dældi skilaboðum yfir konu og hvatti hana til að fyrirfara sér svo hann gæti fylgst með