Tómas Þóroddsson, stjórnarmaður KSÍ, hélt upp á fimmtugsafmæli sitt þann 20. ágúst síðastliðinn. Það vekur athygli að tónlistarmaðurinn Ingólfur Þórarinsson, sem yfirleitt er kallaður Ingó Veðurguð, hafi verið fenginn til að spila í afmælinu skömmu eftir að ásökunum um kynferðislegt ofbeldi rigndi yfir hann. Vísir greindi fyrst frá.
Stjórn KSÍ gaf út yfirlýsingu í gær þar sem fram kom að stjórnin standi með þolendum ofbeldis. Sem stjórnarmaður skrifaði Tómas undir þá yfirlýsingu.
Tómas er veitingamaður og er yfirleitt kenndur við Kaffi Krús á Selfossi. Hann rekur einnig veitingastaðinn Vor á Selfossi og Messann í Reykjavík.
Knattspyrnusérfræðingurinn Kristján Óli Sigurðsson deildi myndbandi af Ingó að spila í veislu Tómasar á Twitter-síðu sinni og vakti það myndband mikla athygli. „Aðeins það besta hjá Tomma á Kaffi Krús,“ skrifar Kristján með færslunni.