Tónlistarmaðurinn Geirmundur Valtýsson er gestur í þættinum Með okkar augum sem sýndur er á RÚV í kvöld. Þar er hann meðal annars spurður út í útlandaferðir en Geirmundur hefur aldrei farið í slíka ferð. Hann segir það vera óþarfi að fara erlendis þar sem hann hefur séð nóg af útlöndum í sjónvarpinu.
Þrátt fyrir að hafa aldrei farið til útlanda þá hefur Geirmundur gert sér ferð til Hríseyjar, Grímseyjar og Vestmannaeyja, honum finnst það vera alveg nóg. „Ég er búinn að horfa á sjónvarp dálítið lengi, alla mína ævi, og er búinn að horfa á myndir frá útlöndum. Ég er bara búinn að sjá það sem mig langar að sjá.“
Í dag er Geirmundur sauðfjárbóndi en hann býr ásamt Mínervu Björnsdóttur eiginkonu sinni á Sauðárkróki. Hann bauð hópnum í Með okkar augum inn í fjárhúsið og svo á harmonikkuball í stofunni hjá sér.