Chelsea mætir Real Madrid á Spáni á morgun í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Chelsea sem áttu nokkuð slaka byrjun á tímabilinu hafa verið frábærir undir stjórn Tuchel og eru á góðu róli í deildinni, komnir í úrslitaleik FA bikarsins og undanúrslit Meistaradeildarinnar. Tuchel er spenntur fyrir leiknum á morgun og hefur fulla trú á sínum mönnum:
„Kannski er reynsluleysi í hópnum en við bætum upp fyrir það með hungri og áhuga,“ sagði Tuchel á blaðamannafundi fyrir leikinn.
„Ef við náum ekki að spila okkar besta leik þá leyfum við mótspilurum okkar að spila þeirra besta leik sem er slæmt og það má ekki gerast.
„Allir í liðinu eru nánir, ég finn það á strákunum. Þeir eru duglegir í leikjum og tilbúnir að vinna og þjást saman. Þegar það er nauðsynlegt að svara og berjast þá gera þeir það. Það er sjálfstraust í liðinu.“
„Við höfum átt erfiða og mikilvæga leiki undanfarið í ensku úrvalsdeildinni og FA bikarnum sem er mikilvægt. Þess vegna er þetta réttur tími til að spila leikinn. Við erum hungraðir.“
Tuchel er reyndur þjálfari í Meistaradeildinni en hann leiddi PSG til úrslita í fyrra og tók þátt í mörgum Evrópukvöldum þegar hann var hjá Dortmund.