Á morgun mun Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari A karla, tilkynna hóp liðsins fyrir leikina þrjá í mars. Arnar stýrir liðinu en aðstoðarmenn hans eru Eiður Smári Guðjohnsen og Lars Lagerback.
Þetta eru fyrstu leikir Íslands undir stjórn Arnars Þórs og eru þeir allir þrír liður í undankeppni HM 2022, en lokakeppnin fer fram í Katar. Ísland mætir fyrst Þýskalandi, síðan Armeníu og endar svo á leik gegn Liechtenstein, en allir leikirnir fara fram ytra. Þess má geta að leikurinn gegn Þýskalandi verður leikur númer 500 hjá A karla.
Margir bíða spenntir eftir fyrsta landsliðshópi Arnars en ljóst er að Alfons Sampsted og Arnór Sigurðsson eru í hópnum, þeir eru ekki í hópi U21 árs landsliðsins sem lak út á netið í dag.
Óskar Ófeigur Jónsson og Ingvi Þór Sæmundsson blaðamenn hjá Vísi skrifa langa og ítarlega grein um möguleika Arnars fyrir valið á hópnum. Eitt af því sem þeir rita um er framtíð Kolbeins Sigþórssonar í landsliðinu. Íslenski framherjinn hefur spilað síðustu leiki með IFK Gautaborg og virðist vera heill heilsu.
Kolbeinn jafnaði markamet íslenska landsliðsins árið 2019 og hefur skorað 26 mörk líkt og Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari liðsins í dag. „Eiður Smári hefur eitthvað um það að segja, sem aðstoðarmaður Arnars Þórs, hvort að Kolbeinn eigi eftir einhver frekari tækifæri með landsliðinu,“ skrifa Ingvi og Óskar Ófeigur um málið á Vísir.is.
Kolbeinn átti mögnuð ár með landsliðinu en eftir Evrópumótið 2016 hefur hann mikið misst út vegna meiðsla. „Kolbeinn var magnaður í tíð Lars Lagerbäck og síðan að hann kom aftur inn eftir langvinn meiðsli hafa menn verið að bíða eftir að uppskera fyrir að gefa honum frekari tækifæri. Sú bið hefur verið löng og ströng og við bíðum enn,“ er skrifað á Vísir.is.
„Það verður því athyglisvert að sjá hvort að Kolbeinn eigi enn inni einhver landsliðslíf og fái tækifæri til að taka metið af Eiði,“ skrifa Ingvi og Óskar Ófeigur um málið en greinina á Vísir.is má lesa í heild hérna.