

Hún hefur verið þingmaður demókrata í fulltrúadeildinni síðan 2019 fyrir Nýju-Mexíkó. Haaland, sem er sextug, er af ætt Laguna Pueblo sem er ein ætt frumbyggja Bandaríkjanna. Hún mun nú stýra innanríkisráðuneytinu og rúmlega 70.000 starfsmönnum þess.
Öldungadeildin samþykkti tilnefningu hennar eftir viðburðaríka yfirheyrslu yfir henni hjá orku- og náttúruauðlindanefnd deildarinnar. Þar spurðu þingmenn Repúblikana hana út í hennar þátt í mótmælunum gegn Keystone XL olíuleiðslunni sem átti að flytja olíu til Bandaríkjanna frá Kanada. Repúblikanar voru einnig áhugasamir um stuðning hennar við nýju bandarísku loftslagsáætlunina.
Þegar upp var staðið fékk Haaland 51 atkvæði af 100 í öldungadeildinni. 40 greiddu atkvæði á móti tilnefningu hennar. Repúblikanarnir Lindsey Graham, Lisa Murkowski og Susan Collins studdu hana í embættið.
Í færslu á Twitter þakkaði Haaland öldungadeildinni fyrir að hafa staðfest tilnefninguna: „Ég þakka öldungadeildinni fyrir atkvæðagreiðsluna í dag. Sem innanríkisráðherra hlakka ég til að starfa með deildinni. Ég er til þjónustu reiðubúin,“ skrifaði hún.