Erkifjendurnir Arsenal og Tottenham mættust í ensku úrvalsdeildinni í gær. Leiknum lauk með 2-1 sigri Arsenal en leikið var á heimavelli liðsins, Emirates Stadium. Það var hins vegar Tottenham sem átti fyrsta höggið í leiknum. Erik Lamela kom Tottenham yfir með stórkostlegu marki á 33. mínútu eftir stoðsendingu frá Lucas Moura.
Þannig stóðu leikar allt þar til á 44. mínútu þegar að Norðmaðurinn Martin Ödegaard, jafnaði metin fyrir Arsenal með marki eftir stoðsendingu frá Kieran Tierney.
Arsenal fékk vítaspyrnu á 64. mínútu. Alexandre Lacazette tók spyrnuna og tryggði Arsenal 2-1 sigur.
Pierre-Emerick Aubameyang fyrirliði Arsenal var settur á bekkinn eftir að hafa mætt of seint í leikinn, þetta var ekki í fyrsta sinn sem fyrirliði Arsenal mætir of seint til leiks.
Aubameyang var fastur í umferð á leið í leikinn en hann hefur verið gagnrýndur fyrir að leggja ekki fyrr af stað, hann á að vita að umferðin er mikil í London.
AÐ leik loknum var Aubameyang svo fyrstur út úr klefanum, 25 mínútum eftir að leiknum lauk brunaði hann í burtu á Ferrari bílnum sínum. Aðrir leikmenn Arsenal voru enn úti á velli, varamenn tóku þá stutta æfingu og þeir sem byrjuðu leikinn voru að hlaupa sig niður. Ekki er vitað hvort Aubameyang hafi fengið leyfi til að fara fyrr en aðrir.