Berglind Guðmundsdóttir er hjúkrunarfræðingur, móðir, ástríðukokkur og athafnakona. Hún venti sínu kvæði í kross fyrir nokkrum árum, sagði upp dagvinnunni og setti alla sína orku í að gera ástríðuverkefnið að fullu starfi, en í dag er Berglind með eitt vinsælasta matarblogg landsins og á kafi í alls konar spennandi áskorunum. Hún hvetur konur til að treysta sjálfum sér, skapa sér sín eigin tækifæri og halda áfram þótt á móti blási.
Tók sénsinn
„Ég byrjaði með uppskriftasíðuna Gulur, rauður, grænn og salt árið 2012. Ég er hjúkrunarfræðingur að mennt og var á þessum tíma að vinna á BUGL. Um tíma var ég að vinna að blogginu samhliða vinnunni en ákvað svo að taka áhættuna og einbeita mér alveg að síðunni, það var orðið mjög mikið að gera.
Ég hef unnið að henni jafnt og þétt frá stofnun og þetta hefur verið virkilega gaman. Ég er svolítið týpan sem byrjar á einhverju en hætti svo. Þannig að ég kom sjálfri mér á óvart með hvernig ég hef enst í þessu og hvað mér þykir þetta endalaust gaman. Ég hef ástríðu fyrir þessu og verkefnin eru skemmtileg, fólkið sem maður kynnist er æðislegt og svo hef ég fengið tækifæri til að vinna að alls konar spennandi verkefnum tengdum þessu, eins og að halda fyrirlestra og að skrifa bækur.
Það skemmtilegasta við þetta er að ég get í rauninni gert það sem ég vil – ég er bara að leika mér. Er ég ekki að selja þér þetta?“ spyr Berglind og hlær dátt.
Hætti í dagvinnunni
„Eftir að ég vann hjá BUGL fór ég að vinna hjá SÓL sálfræði- og læknisþjónustu og var þar í ár og hætti svo þar og fór að einbeita mér að síðunni. Hjá SÓL fannst mér starfið vera orðið meira eins og hliðarstarf. Starfið var skemmtilegt og samstarfsfólkið líka, en ég fann að hjartað mitt var ekki alveg í þessu.
Ég var alltaf að skjótast eitthvert, ljósmyndarar voru að koma til mín, ég að dröslast um með kökur. Ég var alltaf eitthvað að stússast og hugur minn var í þessu sem ég er að gera núna en ekki hjá SÓL. Þá fannst mér bara gott að horfast í augu við það. Svo ég hætti.“
Alltaf hjúkrunarfræðingur
Berglind hefur ekki litið til baka eftir að hún tók stökkið og óttaðist lítið að áhættan myndi ekki borga sig.
„Ég bý yfir þeim eiginleika að kunna ekki að hugsa fram í tímann. Það var kannski ógnvekjandi að hafa hætt í dagvinnunni þegar kom að því að greiða reikninga á tímabili en ég fór aldrei í það að ímynda mér hvað það versta væri sem gæti gerst – þá hefði ég kannski aldrei gert þetta.“
Að elska það sem maður gerir er að mati Berglindar afar mikilvægt
„Ef maður er ekki spenntur fyrir vinnudeginum, spenntur fyrir að tækla verkefnin sín – þá er líklega kominn tími til að gera eitthvað annað. Ég er samt alltaf hjúkrunarfræðingur svo ég get farið aftur að vinna við það. En ég elska bara svo mikið það sem ég er að gera í dag að ég vona að það bara gangi, og gott betur en það.“
Eldar í flýti
Það mætti ætla að dugnaðarforkur á borð við Berglindi hefði aðeins fleiri klukkustundir í sólarhringnum en við hin. Í það minnsta á blaðamaður afar bágt með að töfra fram dýrindis máltíðir á tímanum milli vinnu og háttatíma.
„Mér finnst felst hvíld í því að elda – það er, ef ég hef tíma. Ég er bara eins og aðrir að stundum hefur maður bara tímann milli fimm og sjö og þá eldar maður í flýti – meira bara til að drífa þetta af. Það er líka þannig hjá mér. Þá er gott að geta gripið í eitthvað einfalt og fljótlegt og ég hef reynt að miða að því á síðunni og hafa uppskriftir ekki of flóknar og ekki með of mörg hráefni.“
Ákvað að slá í gegn
Berglind ákvað strax að ná að gera bloggið vinsælt og vann að því hörðum höndum að koma sér á framfæri.
„Ég einsetti mér það strax að bloggið yrði vinsælt þegar ég byrjaði. Við konur ákveðum oft að gera eitthvað, að taka stökkið en tölum okkur sjálfar svo niður, tölum um þetta sem áhugamál, eða eitthvað sem við gerum bara fyrir okkur sjálfar.
Ég var „hinn öfginn“. Ég ákvað strax að ef ég léti verða af þessu þá yrði þetta fyrirtæki, yrði almennilegt og yrði hörku vinna. Svona hugsaði ég strax í byrjun og þar birtist í mér einbeitt keppnisskap og einbeittur vilji til að gera þetta að einhverju stærra.“
Berglind kynnti síðuna sína með því að leita til fyrirtækja og fjölmiðla og segist hafa fengið góðar viðtökur, en engu að síður fengið um milljón nei á móti fjórum já-um.
„Síðan með tímanum fer vinnan að skila sér, þá kemur uppskeran eftir svona tvö til þrjú ár og þá fara viðbrögðin að vera jákvæðari og fólk er farið að þekkja til síðunnar.“
Óvissan verst
Það hlýtur að vera nokkuð ógnvekjandi að segja upp öruggu starfi með traustum tekjum til að fara að starfa sjálfstætt.
„Óvissan er erfiðust. Þarna er ég búin að taka ákveðið stökk og veit ekkert hvort þetta muni ganga upp eða ekki og það eru líka sveiflur í þessum bransa – stundum gengur vel og stundum gengur verr.
Peningaskorturinn getur hins vegar líka verið hvati. Ef þú átt ekki pening, getur ekki borgað reikninga, þá geta sprottið út frá því góðar hugmyndir. Ég hef til dæmis verið með fyrirlestra, matreiðslunámskeið og þetta hefur ýtt mér út í að gera hluti sem ég hefði annars ekkert endilega gert. Þannig að þetta er það erfiðasta en að sama skapi það besta.“
Það sem helst kom Berglindi á óvart í þessu ferli var velvilji þeirra sem hún leitaði til.
„Fólk reyndar alveg elskar mat svo það hefur líklega hjálpað. Svo náttúrulega kom mér á óvart hvað ég hef enst í þessu, orðin svona háöldruð,“ segir Berglind og aftur hlær hún við. „En líka þessi tækifæri sem koma sem ég gerði ekkert ráð fyrir í upphafi.“
Lenti á vegg
Þar sem Gulur, rauður, grænn og salt er uppskriftasíða þá var þægilegt að samræma það og heimilislífið.
„Við þurfum öll að elda. Það er bara svoleiðis. Ég bara elda og svo bið ég börnin um að bíða á meðan ég tek mynd, þau fá ekki að snerta matinn fyrr,“ segir Berglind og bætir við að börnin hafi reyndar haft litla þolinmæði fyrir matarmyndatökunum. Þó má gera ráð fyrir að þau séu orðin þaulvön í dag.
„Maður keyrði sig samt stundum gjörsamlega út og ég hef alveg lent á vegg og þurft að stoppa mig af. En í dag vil ég hafa jafnvægi á hlutunum. Þegar fólk spyr hvort það sé brjálað að gera svar ég: „Nei, því ég vil ekki hafa brjálað að gera.
Það geta komið stutt álagstímabil en það skiptir svo miklu máli að halda í gleðina og það getur maður ekki ef maður er þreyttur og útkeyrður,“ segir Berglind og bendir á að erfitt sé að sinna verkefnum nægilega vel í slíku ástandi. „Nú reyni ég að hafa jafnvægi í lífinu, enda er þá allt skemmtilegra.“
Þó á móti blási
Bestu ráð sem Berglind hefur fyrir þá sem hafa áhuga á að reyna fyrir sér í bloggheiminum er að þreyja þorrann.
„Ég myndi ráðleggja fólki að halda áfram. Það eru rosalega margir sem byrja og eru að gera ótrúlega flotta hluti – en þau hætta þegar það gengur ekki nógu vel. Þau í raun hafna sjálfum sér.
Ég held að það sé stærsta hindrunin. Fólk ákveður að aðrir séu að gera þetta betur og að „meika það“ og gefst þess vegna bara upp.
En hefðu þau harkað þetta af sér aðeins lengur, eða fengið aðeins fleiri nei, sent aðeins fleiri pósta – þá hefði þetta kannski gengið upp. Ef maður elskar þetta þá er það alltaf þess virði að halda áfram, þó að maður fái fullt af nei-um og ekkert virðist ganga. Á endanum gerist eitthvað.“
Í stuttu máli: Gefast ekki upp þó á móti blási.
Allir hafa eitthvað
„Það hafa allir eitthvað fram að færa. Þú þarft ekki að vera besti ljósmyndari í heimi ef þú getur gert góðan mat, eða einfaldan mat. Þú finnur bara þína sérhæfingu. Þú þarft ekki að vera með þetta allt. Sumir eru með frábæran persónuleika, sumir eru bestir í kökum, sumir eru með frábær sparnaðarráð. Maður finnur það sem maður er góður í og tekur með sér í þessa vegferð.
Við fáum sjaldnast tækifærin upp í hendurnar á silfurfati. Við þurfum að hafa fyrir því að láta drauma okkar rætast. Ekki sitja heima og bíða eftir því að einhver hafi samband við þig, því líklega mun enginn hafa samband. Komdu hreyfingu á hlutina, láttu aðra vita hvað þú vilt og gerðu það sem þú getur til að láta það verða að veruleika.“
Matur fyrir sálina
Það eru spennandi nýjungar sem Berglind tekst á við í starfi um þessar mundir en hún byrjaði nýlega með hlaðvarpið Matur fyrir sálina
„Ég er búin að ganga með þessa hugmynd í tvö ár en gerði samt ekkert með hana fyrr en í byrjun árs en þá fann ég að rétti tíminn væri kominn svo ég kýldi á það. Síðasta árið hefur verið svo rosalega rólegt. Maður bara vann, kom svo heim og kláraði Netflix. Síðan aftur næsta dag. Það var mikið um hvíld en með nýju ári fékk ég aukinn kraft og ákvað að halda áfram að byggja mig upp og láta gott af mér leiða. Þarna fann ég líka útrás fyrir hjúkkuna í mér.“
Matur fyrir sálina byrjaði sem reglulegur liður á Instagram-síðu Berglindar þar sem hún fjallaði um andleg málefni. Nafnið þótti henni viðeigandi þar sem þetta var liður á síðu þar sem vanalega var fjallað um mat.
„Ég elska að spá í því hvað gerir okkur að betri manneskjum, hvað hamlar okkur og hvað hjálpar okkur. Þetta byrjaði ég svo að tala um á Instagram og kallaði það Mat fyrir sálina til að tengja við matarumfjöllunina á síðunni – eitthvað sem nærir okkur.“
Hlaðvarpið á að vera hvetjandi og einkum vonast Berglind til að ná eyrum kvenna sem hafa hikað við að láta ljós sitt skína.
„Ég hef tekið eftir því að konur eru stundum hræddar við að láta í sér heyra og mér finnst það ótrúlega mikil synd. Ótrúlega hæfileikaríkar konur hika við að láta ljós sitt skína vegna þess að þeim finnst þær aldrei tilbúnar. Þær þurfa alltaf að mennta sig meira, grenna sig, finna betri tíma, og svo framvegis. Það er alltaf einhver afsökun, og þær ætla alltaf að gera þetta seinna. En seinna kemur hins vegar aldrei.“
Berglind vildi því miðla þekkingu sinni á andlegum málefnum og reynslunni frá sinni vegferð til að hvetja kynsystur sínar til dáða.
Giftist sjálfri sér
Árið 2019 skellti Berglind sér ein í ferðalag til Sikileyjar á Ítalíu. Þar keypti hún sér brúðarkjól og hring og giftist sjálfri sér. En hvernig ætli hjónabandið gangi í dag?
„Þetta er bara svona blússandi lukka,“ segir Berglind kát. Ferðalagið skilaði þó meiru heldur en einkvænis hjónabandi því um páskana verða sýndir þættirnir Aldrei ein á Sikiley á Sjónvarpi Símans sem er frumraun Berglindar í sjónvarpi sem ekki er matartengd.
„Þetta eru ferða- og lífsstílsþættir þar sem ég flakka um eyjuna, hitti fólkið, fer á vínekrur, kíki á næturlífið, fer á matreiðslunámskeið og fleira. Ég býð fólki með mér í ferð til að sýna því hvað Sikiley er einstök.“
Hugmyndin að þáttunum vaknaði eftir brúðkaupsferðina, en Berglind vildi fá að sýna öðrum þá töfra sem hún upplifði á eyjunni.
„Það gerist eitthvað innra með manni, að minnsta kosti innra með mér, á Sikiley. Maður verður svo sáttur. Og þegar maður er sáttur. þá þarf maður reyndar ekki að giftast sjálfum sér, en þá finnst manni maður vera sjálfum sér nægur sem er frábær tilfinning. Ég upplifði þessa tilfinningu svo sterkt á Sikiley.“
Ekki sama manneskjan
Blaðamaður kemst þó ekki hjá því að spyrja hvað gerist ef Berglind finnur sér álitlegan maka. Þarf hún þá að skilja við sjálfa sig?
„Nei, eru ekki allir í opnu sambandi núna?“ segir Berglind hlæjandi. „Ég held svona án gríns að þegar maður elskar sjálfan sig þá fyrst sé maður tilbúinn að fara í samband.“
Berglind er þó sátt í bili. Hún skellir sér við og við á Tinder, en er ekki búin að finna draumaprinsinn ennþá. Á næsta ári verður blogg Berglindar tíu ára gamalt. Berglind segist ekki hafa getað ímyndað sér fyrir tíu árum hvar hún yrði í dag.
„Ekki hvað varðar öll þessi verkefni og öll þessi tækifæri sem ég hef fengið og búið mér til. Ég er svolítið ánægð með mig að hafa þorað að prófa þetta margt. Ég hef eflst við það. Ég er ekki sama manneskjan í dag heldur er ég er sterkari einstaklingur. Maður hefur lært svo mikið af „mistökunum“ á því að prufa sig áfram og þora að taka áhættu. Svo heldur maður áfram og reynir eitthvað annað næst. Þetta er besti skólinn – að taka bara stökkið.“