fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Fréttir

Stór jarðskjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu – Margir skjálftar um og yfir 5 á Richter

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 24. febrúar 2021 10:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stór jarðskjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu nú laust fyrir klukkan 10. Ljóst er að margir fundu fyrir jarðskjálftanum þar sem vefsíðan vedur.is lá niðri skömmu eftir skjálftann. Þegar síðan komst aftur í loftið má sjá að upptök jarðskjálftans voru á Krýsuvíkursvæðinu samkvæmt óyfirförnum mælingum Veðurstofunnar. Skjálftinn var af stærðinni 5,4.

Skjálftinn fannst út um allt höfuðborgarsvæðið miðað við frásagnir Íslendinga á Twitter. Fólk í Hafnarfirði, Grafarvogi, Árbæ, Kópavogi og víðar hefur greint frá því að hafa fundið fyrir skjálftanum.

„Allar hurðarnar fóru á fleygiferð og kötturinn hljóp undir rúm,“ segir til að mynda einn íbúi sem DV ræddi við sem staðsettur er á Reykjanesinu.

Jarðskjálftanum fylgdu einnig sterkir eftirskjálftar sem fundist hafa á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesinu samkvæmt fólki sem DV hefur rætt við.

Í október var síðast stór skjálfti sem fannst vel víða um land en mældist sá stærsti þá 4,9

Uppfært 10:21 
Tveir minni skjálftar hafa mælst.

 10:27
Veðurstofa hefur endurmetið skjálftann upp á 5,7 á Richterskvarðann. Á heimasíðu Veðurstofu segir: Jarðskjálfti varð kl. 10:05 að stærð M5,7 um 3 km SSV af Keili. Unnið er að nánari yfirferð á skjálftavirkninni.

10:31
Annar stærri skjálfti fannst vel rétt í þessu.

10:36
Búið að virkja samskiptastöð Almannavarna. Hjördís Guðmundsdóttir samskiptafulltrúi Almannavarna segist ekki geta svarað fyrir slys á fólki að svo stöddu. „Það er verið að kanna þetta allt saman“ Er björgunarsveitin komin í málið? „Ekki enn, það er bara verið að fara yfir málið.“

10:46 
25 skjálftar hafa mælst yfir 3 á Richterskvarðann.

10:50
Engar tilkynningar hafa borist um meiðsli á fólki eða tjón á mannvirkjum samkvæmt tilkynningu frá Almannavörnum.

 

Skjáskot Vedur.is 10:36
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt