Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, greindi frá því í gær að hann hefði farið fram á að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kæmi fyrir Stjórnskipunar – og eftirlitsnefnd til að útskýra afskipti ráðuneytisins af ráðningu Þorvaldar Gylfasonar, hagfræðiprófessors sem ritstjóra norræns fræðitímarits.
Kjarninn greindi fyrst frá málinu, en Þorvaldur taldi sig hafa hlotið starfið. Embættismaður fjármálaráðuneytisins gat hins vegar ekki mælt með honum þar sem hann þætti of pólitískur, en sú skoðun var byggð á röngum upplýsingum á Wikipedia síðu um Þorvald, þar sem hann var enn sagður formaður Lýðræðisvaktarinnar, þó svo Þorvaldur hefði hætt þeim afskiptum árið 2013.
Samkvæmt svari frá fjármálaráðuneytinu til Kjarnans, eru engar reglur þar á bæ um hvort stjórnmálaþátttaka fræðimanna eigi að hafa áhrif á ráðningu þeirra í fræðistörf, virða beri akademískt frelsi þeirra.
Þá kemur einnig fram að málið hafi ekki verið borið undir Bjarna Benediktsson, né aðra starfsmenn á skrifstofu yfirstjórnar.
Þá var því ekki svarað hver bæri ábyrgð á ákvörðuninni, starfsmaður ráðuneytisins, eða einhver annar.
Guðmundur skrifar stöðuuppfærslu um málið í dag einnig, þar sem hann blandar Samherjamálinu og völdum Sjálfstæðisflokksins saman við málið:
„Fregnir af Samherjamáli – eða öllu heldur fréttaleysi af rannsókn þess máls – og svo fregnir af framgöngu Fjármálaráðuneytis við að hafa starf og æru af Þorvaldi Gylfasyni á norrænum vettvangi – þetta veldur almennri reiði og hneykslan – en líka vonleysi hjá sumum. Sumt fólk dæsir, hristir hausinn yfir því hvernig þetta sé alltaf hjá okkur, segir kannski eitthvað andskotans djöfulsins helvítis og heldur svo áfram eins og þessi meðferð valds sé eins og hver önnur rigning. En þetta þarf ekki að vera svona. Völd Sjálfstæðisflokksins eru ekkert náttúrulögmál.“