fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Eyjan

Umbreyting bókabúðanna

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 24. nóvember 2017 10:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mynd/Sigtryggur Ari

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar:

Á liðnum árum hefur orðið sú vonda þróun að bókabúðir landsins eru farnar að minna æ meir á minjagripabúðir en bókabúðir. Alls kyns dót er þar orðið jafn áberandi og bækurnar. Stundum hvarflar að manni að bókabúðareigendur hafi hreinlega gefist upp við að halda bókum að viðskiptavinum og því kosið að fylla búðirnar af auðseljanlegri smávöru og minjagripum. Þetta er ansi dapurleg þróun.

Gleðileg umbreyting verður í nóvember og desember þegar búðarborðin svigna undan jólabókum. Þá er ekki hægt að kvarta undan því að viðskiptavinir láti ekki sjá sig. Þeir mæta áhugasamir og fletta bókunum, spá og spekúlera. Manna á milli er rætt um bækur, oftar en ekki glæpa- og spennusögurnar sem svo þægilegt er að gleyma sér yfir á þessum tíma. „Hvernig er Arnaldur?“, „Hvernig er nýja bókin hennar Yrsu?“ er spurt. Svo kemur hinn frábærlega ritfæri Jón Kalman og stillir sér upp við hlið þeirra á metsölulistum. Hinir fjölmörgu unnendur bóka hans er alveg jafn sannfærðir um ágæti síns manns og aðdáendur glæpasagnahöfundanna eru um snilli sinna höfunda. Gunnar Helgason, Ævar Þór Benediktsson og fleiri barnabókahöfundar slá svo rækilega í gegn hjá yngri kynslóðunum. Starf þeirra höfunda sem skrifa fyrir börn er gríðarlega mikilvægt, eins og þeir átta sig örugglega sjálfir á. Launaumslagið er kannski ekki þykkt og mikið en þakklæti ungra lesenda er ósvikið.

Kolbrún Bergþórsdóttir ritstjóri DV.

Blessunarlega er enn siður á Íslandi að gefa bækur í jólagjöf. Bók er þakklát gjöf á þessum árstíma. Þá er ekkert sem bendir til minnkandi bóklesturs og lítil ástæða virðist til að hafa áhyggjur af hnignun íslenskunnar. Þessi tími stendur reyndar alltof stutt. Nokkrum vikum eftir jól eru bókabúðirnar aftur farnar að minna á minjagripaverslanir.

Er ekki hægt að snúa þessari þróun við? Það ætti að vera hægt að auka bókaúrval í bókabúðum svo þær standi undir nafni. Þar eiga búðarborðin að svigna undan bókum allan ársins hring, ekki bara um jól. Bókabúð á að vera samkomustaður þar sem bókaunnendur geta mætt, rabbað við starfsfólk um bækur og unað sér þar lengi. Bókaunnendur eiga ekki að þurfa að skima eftir bókum innan um alls kyns dót heldur ganga fagnandi inn í verslun þar sem bækur blasa við hvert sem litið er.

Heyra má þær spár að tími eiginlegra bókabúða muni líða undir lok innan einhverra áratuga. Eigum við ekki að líta svo á að þar sé enn ein dómsdagsspáin sem ekki muni rætast? Alltaf á að vera pláss fyrir bækur. Helst ætti bókabúð að vera allan ársins hring jafn skemmtilegur og forvitnilegur staður og hún er í nóvember og desember.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands
Eyjan
Fyrir 1 viku

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður