Hjúkrunarfræðingar samþykktu verkfall með miklum meirihluta í atkvæðagreiðslu sem fram fór undanfarna þrjá daga. 85,5% þeirra sem greiddu atkvæða kusu með verkfallinu. Takist ekki að semja fyrr, hefst verkfallið þann 22. júní kl 08:00 og verður ótímabundið. Þetta kemur fram í tilkynningu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
„Á grundvelli þessarar niðurstöðu tilkynnir stjórn Fíh hér með um að samþykkt hefur verið að boða til ótímabundins verkfalls félagsmanna Fíh sem starfa á kjarasamningi Fíh og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Það mun hefjast kl. 08:00 mánudaginn 22. júní 2020 og vara fram til þess tíma er samkomulag um kjarasamning hefur náðst milli aðila.“
Hjúkrunarfræðingar felldu kjarasamning í atkvæðagreiðslu í lok apríl og segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Fíh að mikið beri á milli aðila þegar kemur að launalið í samningaviðræðunum. Krafa hjúkrunarfræðinga sé skýr að mati Guðbjargar. Hækka þurfi grunnlaun stéttarinnar.
Samningaviðræðurnar eru sem kunnugt er komnar á borð ríkissáttasemjara og verður því næsti fundur boðaður af honum.