fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Vilhelm segir að landsmenn muni seint fá að heyra sannleikann

Jón Þór Stefánsson
Fimmtudaginn 9. apríl 2020 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhelm Jónsson, fjárfestir og pistlahöfundur, skrifaði í gærkvöldi pistil sem birtist á Vísi, þar sem hann sagði að þríeykið, Víðir, Alma og Þórólfur fengu ekki næga gagnrýni. Vilhelm segir að mikilvægt sé að gagnrýna, að aðhald sé það sem hafi hjálpað þjóðinni hvað mest.

„Eitt það fallegasta og besta sem getur gerst fyrir þjóð í neyð er aðhald og að hamrað sé á því sem hefur farið úrskeiðis til að hlutirnir breytist til betri vegar.“

Vilhelm segir að pistill sinn sé ekki til þess gerður að láta eins og að ekkert gott sé að eiga sér í sambandi við baráttuna við COVID-19, en heldur því fram að líklega muni sannleikurinn um það sem fari úrskeyðis líklega aldrei koma fyllilega í ljós.

„Þessi pistill hefur ekkert með það að gera að látið sé liggja að góðir hlutir eigi sér ekki stað varðandi Covid-19-veiruna. Engu að síður er orðið tímabært að þjóðin láti af því prjáli er snýr að þríeykinu, með fullri virðingu fyrir teyminu, og opni augun fyrir hvað hefur farið úrskeiðis, sem mun væntanlega aldrei koma fram í dagsljósið nema að litlu leyti. Sem fyrr vantar ekkert upp á hugljúfar þakkaræður hjá framsveitinni og annað skjall.

Það er ekki auðvelt að fara gegn straumnum, engu að síður ber að benda á það sem miður fer, jafnvel þótt það sé ekki í þeim anda að æðstu stjórnendum geðjist af. Of seint var brugðist við uppbyggingu sóttvarna- og gjörgæsludeildar, sem verður rakið hér: Flest bendir til þess að gáleysi hafi verið viðhaft í innkaupum til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar, þó svo að úr rættist og allt hafi farið á betri veg hvernig staðið hefur verið að verkum.“

Hann segir að sóttvarnarstaða og gjörgæsluúrræði veirudeildar hafi lítið sem ekkert gert fyrr en í mars, og að stjórn Landspítalans hafi áttað sig mjög seint á því að spítalinn væri ekki reiðubúinn veirunni.

„Stjórn spítalans áttaði sig allt of seint á að spítalinn byggi ekki yfir viðunandi sóttvarna- og sjúkraaðstöðu þó svo að allt væri að fara úr böndunum og til að bjarga sér frá skömminni og skeytingarleysinu var sjúklingum sópað út af spítalanum. Slíkt verklag er Landspítalanum til skammar. Það getur tæplega talist ásættanlegt að koma svona seint upp bráðabirgða sóttvarnaraðstöðu á kostnað annarra legurýma, og var vandinn þar ærinn fyrir.“

Vilhelm bendir á að mögulega hefði verið betra hefði Landspítalinn verið búinn að finna hentugt húsnæði áður en að faraldurinn kom hingað til lands. Hann segir að fagfólk hefði átt að vera búið að átta sig á alvarleika málsins.

„Það hefði verið mun eðlilegra í upphafi árs að yfirtaka hentugt húsnæði til að koma upp sjúkrarýmum og gjörgæsluaðstöðu, sem hefði síðan átt að nýta til lengri tíma. Það hlýtur að teljast ámælisvert þegar kljást þarf við jafn alvarlegan sjúkdóm þar sem smithætta er mikil að blanda saman sóttvarna- og sjúkrastarfsemi undir sama þaki.

Í jafn alvarlegum faraldri og gekk yfir Kína og síðan heimsbyggðina hefði átt að vera tiltölulega fyrirséð fyrir fagfólk að sjá í hvað stefndi upp úr áramótum, í ljósi þess ætti að hrinda af stað óhlutdrægri rannsókn hversu seint var brugðist við, þó ekki væri nema í virðingarskyni við þá sem eru við dauðans dyr eða hafa fallið frá. Að öllu jöfnu þarf væntanlega engar skurðstofur vegna Covid-19 og almennt ekki varðandi veirusýkingar. Víðs vegar um heiminn er verið að koma upp bráðabirgðaaðstöðu á einfaldan máta í stað þess að hamla spítalastarfsemi eins og á sér stað hérlendis.“

Þá er Vilhelm ósáttur með fréttaflutning og finnst forsvarsmenn Landspítalans of oft komast upp með að sleppa mikilvægum spurningum. Hann segir einnig að spítalinn sé oft uppvís að læknamistökum og komist einnig upp með þau.

„Fréttaflutningur af stöðu spítalans er misvísandi einnig hvað varðar birgðahald sóttvarna vegna hlífðar- og öryggisbúnaðar, sem kom fram í fréttaflutningi Bylgjunnar í hádeginu 31. mars. Að hugsanlega þurfi innan skamms að draga úr notkun á hlífðarfatnaði berist ekki meiri birgðir. Tveimur tímum síðar gerir forstjóri Landspítalans lítið úr vandanum þegar hann er inntur eftir því í gáminum góða hvort nóg sé til af hlífðarfatnaði. Forsvarsmenn Landspítalans hafa ítrekað komist upp með að skauta yfir óheppilegar spurningar væru þeir inntir eftir fjölda öndunarvéla og hvað liði kaupum á fleiri vélum og öðrum búnaði.“

„Í jafn alvarlegu ferli eins og gengur yfir heimsbyggðina ber að draga rangtúlkanir fram í dagsljósið, sem yfirstjórn spítalans grípur of oft til. Aftur og aftur er Landspítalinn uppvís að læknamistökum og skýlir sér síðan á bak við að ekki megi ræða einstök mál, sem síðar daga of oft uppi hjá landlæknisembættinu, komist þau þá yfirleitt þangað. Ekki nokkur siðmenntuð þjóð myndi sætta sig við slíka vanrækslu og verklag. Uppbygging sóttvarnardeildar og gjörgæsla í Fossvogi er vart annað en slóðaskapur sé litið til þess að sóttvarna- og gjörgæsludeild var ekki sett á laggirnar fyrr en í mars, á tíu dögum, svo digurbarkalegt orðalag forstjóra Landspítalans sé notað, á ögurstundu þegar allt stefndi í óefni, og gefur fyllilega til kynna stjórnarhætti spítalans.

Yfirstjórn Landspítalans framdi vanrækslu sem veldur mörgum óbætanlegum skaða, þó svo að margt virðist kannski vera að fara á betri veg en á horfðist. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ekki verið að gera lítið úr því sem var gert eftir að í óefni var komið.

Þjóðin hefur horft upp á hræðilega hluti eiga sér stað víðs vegar um heiminn þar sem neyðarástand og örvinglun ríkir. Sem fyrr telja Íslendingar að þeir séu bestir í öllu og geti tekist á við Covid-19 og aðra sjúkraþjónustu af léttúð og ekki spillir fyrir að forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar kappkosti að dásama sýnatökur og annað verkferli.“

Vilhelm gagnrýnir stjórnvöld sem hann segir að hafi dregið almenning á asnaeyrunum. Hann óttast að ekkert verði gert og talar um heilbrigðisstarfsmenn sem vinni við frumstæðar aðstæður.

„Áratugum saman hafa stjórnvöld teymt almenning á asnaeyrunum og verið fyrirmunað að skapa þjóðinni eðlilega sjúkraaðstöðu, og það sem verra er, þá er hún ekki handan við hornið. Þó svo það eigi að bjóða fljótlega út nýjan meðferðakjarna við Hringbraut mun engu að síður á næstu árum ríkja óeining um uppbyggingu spítalans, sem mun seint verða kláraður. Algert vanmat á sér stað við að púsla saman byggingum og mun verkferli vafalaust smám saman seinka og verða enn meiri breytingum háð með tilheyrandi hávaða, ráðaleysi og skömm þar sem enginn mun axla ábyrgð. Á sama tíma og verið er að horfa í hverja einustu krónu innan veggja spítalans er fjármunum sóað með vítaverðum hætti utandyra.

Verkefnið við Hringbraut virðist einkennast að því að útvaldar stofur úti í bæ komast upp með árum saman að maka krókinn við að hanna úrelt sjúkrahús og endalausar breytingar þar sem verkið er illframkvæmanlegt. Á sama tíma eru sjúklingar milli heims og helju að berjast fyrir lífi sínu inni á spítalanum, sem er vart samanburðarhæfur sé litið til landa sem við viljum bera okkur saman við. Hjúkrunarfólk reynir allt sitt besta við frumstæðar aðstæður og þúsundir manna gjalda fyrir, og væntanlega verður engin breyting þar á.“

Að lokum talar Vilhelm um þjóðina sem dáist í blindni að „framasveit“ COVID-19 sem honum finnst að eigi að líta í eigin barm.

„Framasveit Covid-19 væri nær að fara að líta í eigin barm í stað þess að höfða öllum stundum til samvisku þjóðarinnar, hvernig hún hagi daglegu lífi sínu þessa dagana, og beina pillunum í rétta átt. Á sama tíma og sjúklingar berjast fyrir lífi sínu heldur þjóðin vart vatni hversu stjórnvöld og yfirstjórn Landspítalans takast með frábærum hætti á við Covid-19.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“

Fordæmalaus staða gæti komið upp á gosstöðvunum á Reykjanesskaga – „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við

Sigur hjá Harvey Weinstein: Dómi gegn honum í New York snúið við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“