Oft kemur það fyrir að íslenskar stjörnur fái stjörnuglampa í augun. Þetta kallast á góðri ensku að vera „starstruck“, en hér má sjá prýðisdæmi um myndir sem hefur verið dreift um veraldarvefinn, þar sem okkar frægustu Íslendingar sjást í hópi heimsfrægra listamanna.
Í góðum félagsskap
Kvikmyndagerðarmaðurinn og leikarinn Baltasar Kormákur hefur komið víða við þeim bransa. Árið 2015, á svipuðum tíma og hann vann að stórmyndinni Everest, náðist mynd af honum þar sem hann var heldur betur í flottum félagsskap. Eins og sjá má prýðir hann rammann ásamt víðfrægu leikstjórunum Guillermo Del Toro, M. Night Shyamalan og ofurframleiðandanum Jason Blum. Þetta hefur verið gott teiti.
Bónorð til Bill
Leikkonan Edda Björgvinsdóttir birti mynd af sér á Facebook sumarið 2018 þar sem hún sagðist hafa fundið nýjan kærasta. Á myndinni sást hún með engum öðrum en gamanleikaranum Bill Murray. Hann var hér á vegum Listahátíðar Reykjavíkur og kom fram á New Worlds-tónleikum í Hörpu, þar sem Edda var einnig stödd. Að sögn leikkonunnar gekk hún að Murray og sagði við hann þessi fleygu orð: „Hi, I love you, will you marry me, or should I say Murray me?“
Með Lopez í Las Vegas
Áhrifavaldurinn Sunneva Einarsdóttir hefur notið mikilla vinsælda á Instagram og ætti að vera mörgum kunn sem hafa fylgst með Vikunni á Instagram í hverri viku á DV.is. Í apríl 2018 var Sunneva stödd á veitingastaðnum Planet Hollywood í Las Vegas á vegum snyrtivörumerkisins Inglot. Stórstjarnan Jennifer Lopez hannaði snyrtivörulínu í samstarfi við fyrirtækið sem er væntanleg á markað. Sunneva nýtti tækifærið og birti mynd af sér með Lopez og sagði í meðfylgjandi færslu að hún kæmist ekki yfir það hve fullkomin stjarnan væri.
Þess má einnig geta aður hafði Sunneva náð að fá mynd af sér með skoska leikaranum Gerard Butler.
Í fullu fjöri
Sölvi Fannar Viðarsson, heilsuráðgjafi, framleiðandi og einkaþjálfari, er öllu vanur en hann stóðst ekki mátið og lét smella af einni góðri ljósmynd af sér og gamanleikaranum Chris Tucker. Þeir félagar voru staddir í partíi á kvikmyndahátíðinni í Cannes á síðasta ári. Sölvi fullyrti í samtali við DV á sínum tíma að Tucker væri hinn viðkunnanlegasti maður og kvöldið hefði verið skrautlegt og meira til.
Í faðmi ofurhetju
Elísabet Ronaldsdóttir, sem víða er talin einn besti kvikmyndaklippari landsins, datt í lukkupottinn þegar hún fékk tækifæri til að klippa framhaldsmyndina um Deadpool, ofurhetjuna sívinsælu með sorakjaftinn. Elísabet myndaði góð tengsl við aðalleikarann, sjálfan Ryan Reynolds, og gaf það ýmis tækifæri til góðra ljósmynda. Sú hressilegasta er án efa myndin af Elísabetu þar sem Reynolds stillir sér upp með henni í búningnum góða.
Tók lagið með Tom Jones
Söngkonan Anna Mjöll hefur oft komið fram á skemmtistaðnum Vibrato’s í Bel Air í Los Angeles en heimildir herma að staðurinn sé í gríðarlegu uppáhaldi hjá henni. Í janúar árið 2010 var mikið tilefni til fögnuðar þar sem hún deildi sviðinu með söngstjörnunni Tom Jones. Anna var að skemmta og tók eftir Jones, sem þá hélt upp á sjötugsafmæli sitt, og stóðst ekki þá freistingu að bjóða honum upp á sviðið. Hann var ekki lengi að slá til og tóku þau saman lagið When I Fall in Love.
Boðinn í mat hjá hasarkónginum
Hafþór Júlíus Björnsson, eða Fjallið eins og hann er kallaður, vann eitt sterkasta aflraunamót heims árið 2018 þegar að hann bar sigur úr býtum á Arnold Strongman Classic í Bandaríkjunum. Í kjölfar sigursins var Hafþór beðinn um að fljúga til Kaliforníu til að safna fé fyrir slökkviliðsmenn. Arnold Schwarzenegger stóð fyrir fjáröfluninni og bauð Fjallinu í mat og UFC-áhorf á heimili sínu. Það hljómar ekki eins og amaleg saga.