Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson mun stýra nýjum skemmtiþætti á laugardagskvöldum á RÚV í vetur. Þátturinn heitir Fjörskyldan en þar munu fjölskyldur og vinir þeirra etja kappi við hver aðra í þrauta- og spurningakeppni.
Þetta kemur fram á RÚV.is.
„Tilgangurinn með svona þætti er að fá alla fjölskylduna saman fyrir framan sjónvarpið, til að horfa, gleðjast og tala saman. Jafnvel þannig að það sé eitthvað sem hægt er að spreyta sig á heima,“ segir Jón á vef RÚV en þar kemur fram að keppnin reyni á hugvit, snerpu, húmor og skemmtilegheit.
Alls munu átta lið taka þátt í keppninni og verður auglýst eftir umsóknum frá fjölskyldum um allt land á næstunni. Tvær fjölskyldur, skipaðar fjórum einstaklingum, tólf ára og eldri, keppa í hverjum þætti og komast áfram í næstu umferð. Sigurvegarinn verður svo krýndur í desember.
Fyrsti þátturinn fer í loftið í lok októbermánaðar.