fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Pressan

Ein stærsta eftirsjáin í lífi Elísabetar II: „Þau grófust lifandi og súrefnið þraut“

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 15. desember 2019 21:00

Hörmungin í Aberfan Elísabet II heimsækir slysstaðinn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það sem ekki mátti gerast gerðist klukkan 9.15 þann 21. október 1966 í litla bænum Aberfan í suðurhluta Wales. Dagurinn byrjaði eins og flestir aðrir dagar. Börnin fóru í skólann og foreldrarnir héldu til vinnu en margir þeirra störfuðu í kolanámu bæjarins. Sólin lét sjá sig og allt stefndi í góðan haustdag en þá varð slysið sem hefur alla tíð síðan sett mark sitt á bæinn og Elísabetu II drottningu.

Október hafði verið ansi votviðrasamur og það gerði dagana ekki betri í þessum frekar gráleita kolanámubæ en nú lét sólin sjá sig og það var léttara yfir fólki. Á fjallstopp í nágrenni við bæinn höfðu kolanámumenn safnað saman miklu magni af aur og öðrum úrgangi frá kolanámunni. Fjallstoppurinn með öllum þessu úrgangi tróndi yfir bænum eins og nokkurs konar virki. Óveður hafði geisað þann 20. október og hafði það valdið því að haugurinn á fjallstoppinum var orðinn mjög óstöðugur. Það sem ekki mátti gerast gerðist því klukkan 9.15. Haugurinn hrundi niður og rann yfir bæinn með hörmulegum afleiðingum; 116 börn og 28 fullorðnir létust. Um leið og fréttist af skriðunni þyrptust bæjarbúar á staðinn til að reyna að bjarga börnum sínum og vinum upp úr blöndu af blautum kolum, jarðvegi og eitruðum gastegundum. Skriðan féll meðal annars yfir grunnskóla bæjarins.

Elísabet II frétti fljótlega af slysinu og næstu daga tókst hún á við það og var í forsvari fyrir syrgjandi þjóð. Hún þótti standa sig vel en því hefur einnig verið haldið fram að ákveðnar ákvarðanir í öllu ferlinu séu meðal þess sem hún sér mest eftir í lífinu. Breskir fjölmiðlar, þar á meðal The Guardian og Town and Country Magazine, fjölluðu nýlega um þennan hörmulega atburð í tengslum við að þriðja þáttaröð „The Crown“ var tekin til sýninga á Netflix en þáttaröðin fjallar um Elisabetu II. Einn af þáttunum í þáttaröðinni fjallar um þetta hörmulega slys í Aberfan.

Hér má sjá skriðuna.

Börnin grófust undir

Kola- og ruslahaugurinn sem hrundi þennan örlagaríka októberdag fyrir rúmlega 53 árum var um 34 metrar á hæð og um 107.000 rúmmetrar. Enginn hafði áttað sig á hversu hættulegt það gat verið að safna svona miklu efni saman í eina hrúgu og þetta var í andstöðu við lög og reglur sem giltu á þessum tíma.

Ekkert stöðvaði skriðuna þegar hún var farin af stað. Hún jafnaði tvo sveitabæi við jörðu áður en hún lenti á Pantglas-grunnskólanum. Inni í húsinu reyndu börn og kennarar í örvæntingu sinni að leita öryggis undir borðum sínum. Kol og jarðvegur braut rúður skömmu eftir að fyrsta kennslustund dagsins hófst og gleypti alla birtu, líf og von.

Nansi Williams, kokkur skólans, lést í hamförunum en vann þá miklu hetjudáð að skýla fimm börnum með líkama sínum og bjargaði þannig lífi þeirra. Fimm starfsmenn auk Williams og 109 börn létust í skólanum. Íbúar bæjarins hófust strax handa við að grafa eftir börnunum með því sem var hendi næst. En því miður grófu þeir upp fleiri látin börn en lifandi. Jeff Edwards, sem var síðasta barnið sem fannst á lífi í skriðunni, sagði í samtali við BBC að hann hefði heyrt grát og öskur eftir að skriðan skall á skólanum.

„En eftir því sem tíminn leið færðist sífellt meiri þögn yfir, því börnin dóu. Þau grófust lifandi og súrefnið þraut,“ sagði hann.

Hikaði

Næstu daga fóru fjöldaútfarir fram í bænum og fjölmiðlar um allan heim fylgdust með þessu litla samfélagi sem var í mikilli sorg. Stjórnmálamenn og opinberir embættismenn voru sendir til bæjarins til að sýna bæjarbúum samhug og veita þeim stuðning. En ein manneskja lét bíða eftir sér, það var Elísabet II. Átta dagar liðu þar til hún fór til bæjarins til að sýna bæjarbúum stuðning og til að sýna að henni stæði ekki á sama. Þá var búið að jarðsetja alla hina látnu og enduruppbygging bæjarins var hafin.

Leitað að lífsmarki.

Elísabet er sameiningartákn Bretlands. Hún er hlutlaus hvað varðar pólitík en þegar áföll og hörmungar hafa riðið yfir þjóðina hefur hún margoft sýnt að hún getur verið þjóðinni til stuðnings og um leið sýnt auðmýkt sína og þannig veitt fólki ákveðna hvatningu.

Sir William Heseltine, fyrrverandi fréttafulltrúi drottningarinnar, sagði eitt sinn að hann teldi að heimsóknin til Aberfan hefði haft mikil áhrif á drottninguna. Það hafi verið eitt af fáum skiptum sem hún hefur fellt tár opinberlega. Ekki hefur verið staðfest að hún hafi grátið, en myndir náðust af henni þar sem hún virðist þerra tár. Í „The Crown“ er þetta þó túlkað öðruvísi og því haldið fram að þetta hafi verið sviðsett og að augu drottningarinnar hafi í raun verið „skraufaþurr“. En hvað sem því líður efast fáir eða nokkur um að slysið hafði mikil áhrif á hana þrátt fyrir að hún hafi ekki sýnt miklar tilfinningar opinberlega en það gerir hún alla jafna ekki.

„Eftir á að hyggja held ég að drottningin hefði viljað óska að hún hefði farið þangað miklu fyrr. Við lærðum nokkurs konar lexíu af þessu, að það verður að sýna samúð og vera til staðar. Það vill fólk að hún geri,“ sagði Heseltine.

Starfsfólk Elísabetar er sagt hafa lagt hart að henni að fara til bæjarins. Hún vildi ekki beina athyglinni frá því alvarlega ástandi sem ríkti í bænum og óttaðist að mannslíf myndu tapast ef fólk hætti að leita í skriðunni ef hún birtist skyndilega á vettvangi. Af þeim sökum var eiginmaður hennar, Philip prins, sendur einn til Wales í upphafi. Lord Snowden, eiginmaður Margrétar prinsessu, fór einnig á vettvang. Í bréfi sem hann sendi eiginkonu sinni skrifaði hann meðal annars:

„Elskan, þetta er það hryllilegasta sem ég hef upplifað.“

Mikil eftirsjá

Þrátt fyrir að hafa verið hikandi við að fara til Aberfan hélt Elísabet þangað að lokum. Þar ræddi hún við fjölskyldur fórnarlambanna, lagði kransa til minningar um hin látnu og vottaði samfélaginu öllu virðingu sína. Ein þeirra mæðra, sem missti barn í slysinu, sagði í samtali við BBC að þetta hefði skipt bæjarbúa miklu máli.

Grafir þeirra sem töpuðu lífi sínu í slysinu.

„Þau eru hærra sett en stjórnmálamenn og þau sýndu að heimurinn stóð með okkur og að honum stóð ekki á sama um okkur,“ sagði hún um heimsóknir konungsfjölskyldunnar.

Í „The Crown“ og annarri umfjöllun um Elísabetu er því haldið fram að ákvörðunin um að fara ekki skjótt á vettvang í Aberfan sé eitt af því sem Elísabet sér mest eftir á fyrstu árum hennar sem þjóðhöfðingi. Þetta hefur hún að margra mati margoft sýnt því hún hefur oft heimsótt þennan litla bæ og gerir raunar enn. Hún hefur komið þar af mörgum tilefnum og opnaði meðal annars nýja skóla. Heimsóknir hennar og sú athygli sem hún hefur veitt bænum í rúma hálfa öld er eitthvað sem bæjarbúar kunna vel að meta.

„Fólk hér lítur upp til hennar og finnst það svo sannarlega tilheyra konungdæminu,“ sagði Coun Edwards, einn þeirra sem fundust á lífi í skriðunni, eitt sinn. Þegar þess var minnst 2016 að hálf öld var liðin frá slysinu mikla sendi Elísabet öllum bæjarbúum persónulega kveðju. Í henni sagði hún meðal annars: „Ég man vel eftir heimsókn minni og prins Philips eftir slysið. Ég fékk gjöf frá lítilli stúlku. Á gjöfinni stóð: „Frá eftirlifandi börnum í Aberfan.“ Eftir þetta höfum við margoft komið í bæinn og höfum alltaf dáðst mjög að þeim ótrúlega styrk, reisn og ódrepandi anda sem einkennir íbúa bæjarins og næsta nágrennis.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Ólýsanleg sjón blasti við 10 ára dreng þegar hann vaknaði – Allir í fjölskyldunni látnir

Ólýsanleg sjón blasti við 10 ára dreng þegar hann vaknaði – Allir í fjölskyldunni látnir
Pressan
Fyrir 4 dögum

Harmleikur í Svíþjóð – Tvö börn fundust látin

Harmleikur í Svíþjóð – Tvö börn fundust látin
Pressan
Fyrir 4 dögum

Sanna sagan á bak við Netflixþættina Baby Reindeer sem hafa slegið í gegn – Hvað varð um Richard og Mörthu og hver er hin raunverulega Martha?

Sanna sagan á bak við Netflixþættina Baby Reindeer sem hafa slegið í gegn – Hvað varð um Richard og Mörthu og hver er hin raunverulega Martha?
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Hefurðu séð lík?“ – 14 ára stúlka myrti móður sína og bauð vinkonu heim til að sjá líkið

„Hefurðu séð lík?“ – 14 ára stúlka myrti móður sína og bauð vinkonu heim til að sjá líkið
Pressan
Fyrir 5 dögum

Leynidagbók grunnskólakennarans kom upp um níðingsverk hennar

Leynidagbók grunnskólakennarans kom upp um níðingsverk hennar
Pressan
Fyrir 5 dögum

„Ósigrandi“ stúlknalið fór ósigrað í gegnum tímabilið í „strákadeildinni“

„Ósigrandi“ stúlknalið fór ósigrað í gegnum tímabilið í „strákadeildinni“