Mikael Torfason skáld greinir frá því á Facebook að hann ætli sér að hlaupa fyrir SÁÁ í Reykjavíkurmaraþoninu. „Pabbi dó úr alkóhólisma í vor. Árið 2007 keyrði ég hann á sjúkrahúsið Vog. Við græddum þannig nokkur ár með pabba okkar, bróður, afa, vini og tengdaföður. Svo náði þessi króníski heilasjúkdómur að leggja hann að velli 66 ára gamlan,“ segir Mikael.
Torfi Geirmundsson rakari lést í maí, 67 ára að aldri. Torfi rak Hárhornið við Hlemm um árabil og átti tryggan kúnnahóp sem óx á hverju ári. „Mér skilst að næstum tveir af hverjum tíu karlmönnum á Íslandi endi á Vogi einhvern tíma á lífsleiðinni og ein af hverjum tíu konum. Þess vegna ætla ég að hlaupa fyrri SÁÁ í ár. Þakklátur fyrir árin sem við fengum með pabba edrú eftir velheppnaða meðferð. Endilega styrkið SÁÁ ef þið getið,“ skrifar Mikael en hægt er heita á hann á heimasíðu Hlaupastyrks.