fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Ísland sætir eftirliti vegna veru sinnar á gráum lista – Stjórnvöld mótmæltu niðurstöðu FATF

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 18. október 2019 16:00

Ríkisstjórnin kynnti aðgerðapakka um helgina.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sem kunnugt er setti FATF, alþjóðlegur fjármálaaðgerðahópur ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, Ísland á gráan lista þjóða sem ekki hafa unnið úr ábendingum og tillögum hópsins um það sem betur mætti fara. Í skýrslu FATF frá 2018 var bent á 51 atriðið sem þyrfti að laga hér á landi. Eftir mikið átak stjórnvalda tókst að laga öll atriðin nema sex og því var einsýnt með að Ísland lenti á hinum gráa lista þjóða sem ekki hefðu lagað öll atriðin, en væru þó samstarfsfús og barst staðfesting þess efnis í dag.

Í tilkynningu frá stjórnvöldum eru endurbætur sagðar í farvegi, en að Ísland sæti áfram eftirliti:

Ísland mótmælir niðurstöðu FATF

Fundur FATF, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, hefur ákveðið að setja Ísland á lista yfir ríki sem eru samvinnufús en aðgerðaáætlun um endurbætur er í farvegi.

Á fundi aðildarríkja FATF, sem fram fór í vikunni, mótmæltu íslensk stjórnvöld tillögu um að setja Ísland á listann þar sem þau telja að niðurstaðan endurspegli á engan hátt stöðu landsins í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Sú afstaða mætti skilningi meðal nokkurs fjölda aðildarríkja.

Niðurstaðan byggist á stöðuskýrslu sérfræðingahóps FATF sem lá fyrir 24. september sl. Á fundinum var horft til vilja íslenskra stjórnvalda til að vinna áfram að úrbótum. Þá var viðurkennt að Ísland hafi gripið til aðgerða til að mæta kröfum FATF en ekki hafi gefist tími til að yfirfara þær áður en ákvörðun var tekin. Því varð niðurstaðan sú að Ísland mundi áfram sæta eftirliti vegna eftirfarandi þriggja aðgerða sem FATF telur enn standa út af:

  • Aðgangur að upplýsingum um raunverulega eigendur.
    Stjórnvöld hafa nú þegar tímanlegan aðgang að áreiðanlegum upplýsingum um raunverulega eigendur með ýmsum hætti, t.d. í gegnum fyrirtækjaskrá og frá tilkynningarskyldum aðilum. Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu hefur beinan aðgang að upplýsingum frá tilkynningarskyldum aðilum skv. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og eftirlitsaðilar (FME og RSK) hafa sambærilegan aðgang skv. 3. mgr. 38. gr. sömu laga. Þá getur lögregla fengið upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum með dómsúrskurði sem getur verið afgreiddur samdægurs ef fullnægjandi forsendur eru til staðar. Þá hefur Alþingi enn fremur sett lög nr. 82/2019 um skráningu raunverulegra eigenda umfram kröfur sem leiða má af stöðlum FATF, sem tóku gildi í júní sl. Mun skráin skv. innleiðingaráætlun ríkisskattstjóra verða tilbúin um næstu áramót.
  • Upplýsingakerfi og starfsmannafjöldi hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.
    Þegar hafa verið fest kaup á upplýsingakerfi og hófst innleiðing fyrr á þessu ári og gera áætlanir ráð fyrir að það verði að fullu komið í gagnið í apríl á næsta ári. Þá hefur starfsmönnum verið fjölgað.
  • Eftirlit með eftirfylgni við þvingunaraðgerðir og yfirsýn yfir starfsemi almannaheillafélaga.
    Eftirlitsaðilar hafa þegar hafið athuganir á fylgni tilkynningaskyldra aðila við lög nr. 64/2019. Þá virðast niðurstöður FATF hvað þetta atriði varðar byggjast á röngum forsendum, þ.e. að skyldur vegna alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna hafi fyrst verið lögfestar á Íslandi með lögum nr. 64/2019. Þetta er ekki rétt þar sem slík skylda hefur verið til staðar frá gildistöku laga nr. 93/2008 og Fjármálaeftirlitið viðhaft eftirlit með lögunum frá 2017. Meginbreytingin með lögum nr. 64/2019 var að kveða á um skyldu til að hafa kerfi, ferla eða aðferðir til að greina hvort viðskiptamenn séu á lista yfir þvingunaraðgerðir. Þá samþykkti Alþingi frumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri hinn 9. október til að bæta yfirsýn yfir starfsemi almannaheillafélaga, sér í lagi hvað varðar þau almannaheillafélög sem geta verið viðkvæm fyrir misnotkun í tengslum við fjármögnun hryðjuverka.

Stjórnvöld hafa ásamt erlendum ráðgjöfum lagt mat á möguleg áhrif af því að Ísland lendi á listanum. Það er samdóma álit þeirra að áhrifin verði óveruleg og er hvorki talið að niðurstaða FATF hafi bein áhrif á almenning né fjármálastöðugleika á Íslandi. Erlendir aðilar í viðskiptum við íslensk fyrirtæki, þá einkum fjármálafyrirtæki og tryggingafélög, gætu þurft að kanna sjálfstætt hvort varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka séu nægilega tryggar.

Vænta íslensk stjórnvöld þess að FATF nýti fyrsta tækifæri til að endurskoða mat á stöðu Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki