fbpx
Laugardagur 17.maí 2025

Hann varðveitti alltaf barnið í sér

Ásdís, dóttir Ásmundar Sveinssonar, segir frá föður sínum

Kolbrún Bergþórsdóttir
Laugardaginn 10. júní 2017 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásdís Ásmundsdóttir, dóttir Ásmundar Sveinssonar og Ingrid eiginkonu hans, ólst upp í húsinu sem nú hýsir Ásmundarsafn, en byggingin var bæði heimili og vinnustofa listamannsins. Fram á fullorðinsár bjó Ásdís þar með foreldrum sínum í námunda við listaverk föður síns, sem voru bæði inni og úti.

„Hér átti ég mjög góða æsku. Á þessum tíma voru bóndabæir hér allt í kring en Sigtúnið var líka orðið byggt og krakkar í öllum húsum. Íbúðin var pínulítil, þrjú lítil herbergi, og svo garðurinn og þar var heilmikið af listaverkum,“ segir Ásdís.

Verkin eins og systkini

Hvaða áhrif höfðu verk pabba þíns á þig þegar þú varst ung?

„Ég átti systur sem dó í bílslysi sex ára gömul þegar ég var eins árs. Ég ólst því upp sem einkabarn. Mér hefur stundum fundist myndirnar vera systkini mín. Ég sá þessar myndir á hverjum einasta degi og fylgdist með pabba skapa mikinn hluta þeirra. Ég þekkti þær út og inn og þær urðu fljótt stór hluti af mér.

Systir mín hét Hallgerður eftir ömmu pabba, hann var mikið ömmubarn þegar hann var að alast upp. Dauði hennar var afskaplega djúpt sár í hjörtum foreldra minna og hafði áhrif á listsköpun pabba. Hann var mikil tilfinningamanneskja.“

Gerðir þú þér snemma grein fyrir því að faðir þinn væri landsþekktur?

„Ég áttaði mig tiltölulega snemma á því að hann væri þekktur og virtur. Þjóðviljinn og Morgunblaðið komu inn á heimilið og þar voru reglulega greinar um hann, ekki síst í Morgunblaðinu. Ég gerði mér grein fyrir því að hann væri öðruvísi pabbi en vinkonur mínar áttu.“

Talaði hann við þig um verk sín?

„Ég man varla eftir því að hann hafi talað við mig um verkin sín. Mamma hafði mikinn áhuga á myndlist og málaði sjálf og hann bar það mjög oft undir hana hvernig hann ætti að hafa verkin.“

Þrjóskan hjálpaði honum

Hvernig myndirðu lýsa föður þínum?

„Pabbi var bæði mjög nálægur og fjarlægur. Hann var nálægur af því hann var alltaf heima og fór ekki mikið. Einu sinni í viku kenndi hann í Myndlistarskólanum en að öðru leyti vann hann heima. Hann var líka fjarlægur að því leyti að hann var í sínum eigin heimi þegar hann var að skapa og var sívinnandi. Þá var erfitt að ná sambandi við hann. Hann amaðist hins vegar ekkert við því ef ég var að leika mér í vinnustofunni, ég var aldrei rekin út fyrir hávaða eða annað slíkt. Ég mátti gera allt sem ég vildi. Hann var ekkert að ala mig upp. Hann var listamaðurinn og mamma sá um heimilið.

Eins og ég sagði fór pabbi ekki mikið en það var töluverður gestagangur á heimilinu. Hann var nokkuð tvískiptur, stundum kátur og skemmtilegur en gat líka verið þegjandalegur heilu dagana. Þegar fólk kom þá lifnaði hann allur við og þá var rætt endalaust um listir við menn eins og Ragnar Kjartansson, Ragnar í Smára, Svavar Guðnason og Þorvald Skúlason.

Hann var hlýr maður, afar barngóður, en líka skapstór og þrjóskur. Þrjóskan hjálpaði honum. Ef hann tók eitthvað að sér þá lauk hann við það. Eitt sinn bilaði gömul gauksklukku og hann var í sex daga að reyna að gera við hana – það tókst að lokum. Hann fann alltaf leiðir út úr öllu. Hann bjó líka að því að vera alinn upp við að byggja hús og smíða í Dölunum í gamla daga. Hann gerði allt sjálfur.

Pabbi varðveitti alltaf barnið í sér. Hann hafði gaman af að leika sér. Árið 1954 var sólmyrkvi og hann eyddi nokkrum dögum í að mála gler fyrir krakkana í hverfinu til að þeir gætu horft í gegnum það á sólina. Einhvern tíma bjó hann svo til úti í garði snjóhús að hætti Grænlendinga. Svo man ég óljóst eftir því að þegar ég var mjög lítil þá bjó hann til flygildi sem mig minnir jafnvel að hafi verið trekkt upp. Fyrir mér voru þetta eins og litlar flugur sem flugu um.“

Eru einhver sérstök verk eftir hann sem þú heldur upp á?

„Mjög, mörg, ég á erfitt með að benda á eitthvert eitt. Móðurást er mjög sterkt verk og eitt af þeim sem ég held hvað mest upp á. Þetta er átakanlegt verk gert undir áhrifum frá Kóreustríðinu og kannski hafði hann líka systur mína í huga. Þarna heldur móðir, sem brjóstið hefur verið skotið af, á barni sínu. Það hefur verið bent á að pabbi er nánast eini íslenski listamaðurinn sem hefur fjallað um afleiðingar styrjalda í myndum sínum. Það sýnir hvernig maður hann var.“

Frumkvöðull íslenskrar höggmyndalistar

Yfirlitssýning og vegleg bók
Frumkvöðull íslenskrar höggmyndalistar

Sýning Ásmundarsafns í Sigtúni, List fyrir fólkið, er yfirlitssýning á verkum Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara. Þar er sjónum beint að ferli listamannsins allt frá tréskurðarnámi hjá Ríkharði Jónssyni og til síðustu ára listamannsins. Hönnuður sýningarinnar er Finnur Arnar Arnarson.

Út er komin vegleg bók sem varpar ljósi á feril Ásmundar og stöðu hans í íslenskri listasögu út frá ólíkum sjónarhornum. Bókin er ríkulega myndskreytt en í henni eru jafnframt greinar sem varpar ljósi á feril Ásmundar og stöðu hans í íslenskri listasögu út frá ólíkum sjónarhornum. Megingrein bókarinnar er eftir Kristínu G. Guðnadóttur listfræðing og fjallar hún um list Ásmundar, samtíma hans og helstu áhrifavalda. Höfundar annarra greina eru Eiríkur Þorláksson listfræðingur, Pétur H. Ármannsson arkitekt og Hjálmar Sveinsson heimspekingur. Hönnuður bókarinnar er Ármann Agnarsson.

Ásmundur Sveinsson fæddist að Kolstöðum í Dölum 20. maí 1893. Hann var á meðal frumkvöðla íslenskrar höggmyndalistar og einn þeirra sem kynntu fyrir Íslendingum nýjar hugmyndir í myndlist 20. aldar. Ásmundur sótti innblástur í íslenskar sagnir og þjóðtrú en samfélagið og tækniframfarir 20. aldar voru honum einnig ríkuleg uppspretta hugmynda. Verk Ásmundar eru á opinberum stöðum víða um land og setja svip sinn á Reykjavík. Það er í anda þeirrar afstöðu Ásmundar að listin eigi að vera úti á meðal fólksins og hluti af daglegu lífi. Hann lést árið 1982 en Ásmundarsafn við Sigtún var opnað almenningi árið 1983 og er nú hluti af Listasafni Reykjavíkur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Búa sig undir að Trump náði Derek Chauvin sem drap George Floyd – „Erum undirbúin undir hvað sem er“

Búa sig undir að Trump náði Derek Chauvin sem drap George Floyd – „Erum undirbúin undir hvað sem er“
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Amorim með sleggju – Segist vita hvað þarf að laga í sumar

Amorim með sleggju – Segist vita hvað þarf að laga í sumar
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Framtíð Hojlund á Old Trafford í lausu lofti

Framtíð Hojlund á Old Trafford í lausu lofti
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Einar óttast að lýðræðið sé að hverfa – „Höfum við misst stjórnina?“

Einar óttast að lýðræðið sé að hverfa – „Höfum við misst stjórnina?“
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Hafnar því alfarið að hafa tekið þátt í því að dreifa barnaklámi

Hafnar því alfarið að hafa tekið þátt í því að dreifa barnaklámi
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Arnar horfði aftur og aftur á frammistöðu Arons Einars í síðasta glugga og segir – „Vænti mikils af honum að vera gott fordæmi“

Arnar horfði aftur og aftur á frammistöðu Arons Einars í síðasta glugga og segir – „Vænti mikils af honum að vera gott fordæmi“
Matur
Fyrir 18 klukkutímum

Sjúllaður sítrónusinnepskjúlli úr smiðju Röggu nagla

Sjúllaður sítrónusinnepskjúlli úr smiðju Röggu nagla
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Skrímslið Brynjar Joensen enn einu sinni fyrir dóm – Sakfelldur fyrir brot gegn 15 stúlkum undir lögaldri

Skrímslið Brynjar Joensen enn einu sinni fyrir dóm – Sakfelldur fyrir brot gegn 15 stúlkum undir lögaldri