Tekur við starfi hjá Europol
Grímur Grímsson, sem stýrði rannsókninni á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, fyrr á árinu mun flytja til Hollands og taka við starfi tengslafulltrúa Íslands hjá Europol.
Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.
Þar segir að Grímur verði með starfsstöð í Hollandi og mun hann taka við þann 1. apríl á næsta ári. Eiginkona hans flytur með honum. Hann tekur við starfinu af Karli Steinari Valssyni, fyrrverandi yfirmanni fíkniefnadeildar lögreglunnar, sem kemur aftur til starfa innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Þetta er eitthvað sem mig hefur langað til og sóttist eftir,“ segir Grímur við Fréttablaðið en venjan er að menn taki við starfinu til þriggja ára með möguleika á eins árs framlengingu.
Grímur vakti landsathygli þegar hann fór fyrir rannsókninni á hvarfi Birnu Brjánsdóttur sem skók þjóðina í byrjun árs. Grími var meðal annars hrósað fyrir þá fagmennsku og festu sem hann sýndi þegar hann kom fram í fjölmiðlum og ræddi málið.
Í nærmynd DV af honum í janúar notuðu einstaklingar sem DV ræddi við þessi orð til að lýsa honum: Heiðarlegur, hjálpsamur, fjölskyldumaður, ákveðinn, rólegur, fagmaður, vitur og góður við gesti og gangandi.