fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Hver er Grímur Grímsson? „Ég efast um að hann sé búinn að sofa síðan á sunnudag“

Alda Hrönn: „Ég er stolt af því að tilheyra sama liði og hann“

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Miðvikudaginn 18. janúar 2017 23:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hann hefur kannski lagt sig aðeins í vinnunni. Þetta er fagmaður út í gegn, þið sjáið það bara á honum þegar hann kemur fram í sjónvarpi.“

Þannig lýsir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur lögreglustjóraembættisins á höfuðborgarsvæðinu, Grími Grímssyni yfirlögregluþjóni. Það fólk sem DV ræddi við notaði einnig þessi orð um yfirlögregluþjóninn: Heiðarlegur, hjálpsamur, fjölskyldumaður, ákveðinn, rólegur, fagmaður, vitur og góður við gesti og gangandi.

Grímur sem og lögreglan öll og björgunarsveitir hafa fengið mikið hrós fyrir framgöngu sína í leit að Birnu Brjánsdóttur, leit sem hefur tekið mikið á alla þjóðina og er ekki lokið enn. Nýjustu vendingar er að grænlenska skipið er á leið til hafnar og lögreglan hefur handtekið þrjá menn sem hafa réttarstöðu grunaðra.

Grímur Grímsson stýrir rannsókninni. Hann er þaulreyndur lögreglumaður en óvanur að vera í kastljósi fjölmiðla. En hver er Grímur sem er nánast kominn í guðatölu hjá þjóðinni? DV leitaði til tveggja samstarfsmanna sem og til Vigdísar Grímsdóttur, systur Gríms, til að reyna að kynnast manninn sem vakið hefur aðdáun almennings sem og fjölmiðlamanna.

Fagmaðurinn Grímur

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Grímur tók við starfi yfirmanns hjá miðlægu rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þann 1. nóvember. Áður hafði hann starfað sem yfirlögregluþjónn hjá embætti héraðssaksóknara. Grímur hafði áður starfað sem lögreglufulltrúi sem og hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Þegar Grímur tók við stöðu yfirmanns hjá miðlægu rannsóknardeildinni höfðu geisað þar nokkur átök og segir Alda Hrönn þau vera úr sögunni eftir að Grímur var færður frá héraðssaksóknara til LRH.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri óskaði eftir kröftum Gríms en í viðtali við RÚV tók hann skýrt fram að skipun hans væri ekki varanleg lausn á vanda deildarinnar en útilokaði þó ekki að hann myndi taka alfarið við starfinu. Hann gerði þó ráð fyrir að snúa aftur til héraðssakóknara að ári liðnu.

„Ég vona að það verði búið að finna þessa varanlegu lausn á því ári sem ég stýri deildinni.“

„Grímur er ofboðslega mikill fagmaður,“ segir Alda Hrönn. Það hefur verið sagt að Grímur hafi vart sofið síðan á sunnudag. Hann hafi náð nokkrum tímum síðastliðna nótt eftir að hafa verið vakandi í tvo sólarhringa. Þegar þetta er borið undir Öldu Hrönn svarar hún:

„Ég efast um að hann sé búinn að sofa síðan á sunnudag.“

Sumir hafa líkt Grími við skáldsagnapersónu og þá sérstaklega nefnt Erlend úr sögum Arnalds Indriðasonar. Hvað finnst þér um þann samanburð?

„Hann gæti verið eins og persóna sem fólk les um í sögum. En fyrst og fremst er hann fagmaður. Hann er líkur Karli Steinari Valssyni að því leyti að hann tekur sín verkefni og fer með þau í mark án þess að láta nokkuð stöðva sig.“

Ólafur Þór Hauksson, segir í samtali við DV að traustari mann en Grím sé ekki hægt að finna. Hann bætir við að Grímur sé ekki vanur að standa fyrir framan myndavélar. Það hlutverk, að gefa almenningi og fjölmiðlum upplýsingar um þetta erfiða mál, hefur hann leyst af stakri prýði.

„Hann fylgir sínum málum í mark,“ segir Ólafur. „Hann er hæglátur, duglegur en fylginn sér. Hann hefur ekki neina galla nema ef til vill að hugsa um of sín mál, verða heltekinn en það getur verið kostur líka. Hann er rólegur, yfirvegaður og skipulagður. Hann á skilið að fá gott klapp á bakið.“

Alda Hrönn tekur í svipaðan streng:

„Ég hef mikla trú á honum, hann er svo sannur,“ segir Alda. „Ef hann er ósammála lætur hann vita og segir það fullum fetum. Hann er heill í gegn. Ég sjálf er aðdáandi hafandi fylgst með honum og það hefur mikið reynt á hann eftir að hann kom til okkar. Ég er stolt af því að tilheyra sama liði og hann og ég hef látið hann vita af því.“

Vigdís er systir Gríms
Vigdís er systir Gríms

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

DV heyrði einnig í systur Gríms, skáldkonunni Vigdísi Grímsdóttur.

„Grímur er heiðarlegur og hjálpsamur fjölskyldumaður. Hann er áreiðanlegur, ákveðinn, skoðanaríkur og skemmtilegur, auk þess að vera vitur og sanngjarn er hann góður við gesti og gangandi.“

Hvetur fólk að halda ró sinni

Grímur hefur hvatt fólk til að halda ró sinni vegna málsins en í gær fóru á flug miður fallegar sögur um að lík hefði fundist í Hvaleyrarvatni. Um þetta sagði Grímur í samtali við Vísi:

„Það er vandratað að tala um þetta þannig að maður sé hvorki að draga of mikið úr fólki né hvetja það um of. En málið hefst þannig að fólk er mjög meðvitað um málið. Auk þess sem þetta er mál sem hreyfir við fólki, þetta snertir viðkvæmar taugar hjá fólki. Það er mjög skiljanlegt að það spili tilfinningalega inn í, að fólk hafi tilfinningar til málsins ef svo má segja og þessarar leitar að þessari ungu konu.“

Í kvöld er svo von á grænlenska skipinu og biður Grímur fólk að sína stillingu og segir Grímur:

„Það hefur verið fylgst mikið með þessu máli og það er alveg viðbúið að það verði mikið af fólki sem vilji vera þarna niður frá þegar skipið kemur. Auðvitað vil ég bara beina því til fólks að sýna stillingu. Við erum að rannsaka mál og þeir sem eru grunaðir hafa ekki verið dæmdir sekir. Þeim ber að sýna tilhlýðilega virðingu eins og öðru fólki.“

Fólkið á Facebook um Grím

Fólk á Facebook hefur einnig ausið Grím og lögreglu lofi fyrir þeirra framgöngu í þessu sorglega og erfiða máli og DV velur nokkur af handahófi:

Séra Hildur Eir Bolladóttir segir:

Mynd: Bjarni Eiríksson

Ég hef virkilega dáðst að framgöngu Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns ( með áherslu á þjónn) í fjölmiðlum undanfarna daga. Hann kemur nefnilega meira fram sem þjónn en yfirlögregla, af virðingu og samkennd, yfirvegun og skilningi á áhyggjum þjóðarinnar en samt með hagsmuni hlutaðeigandi í forgrunni. Ekkert svona “ ég hef nú ýmsa fjöruna sopið“ framkoma þótt hann hafi líklega drukkið í sig heilt haf af lífsreynslu. Við getum lært svo mikið af svona fólki. Þetta heitir auðmýkt og manndómur.

Ólína Þorvarðardóttir segir:

Lögreglan er ekki öfundsverð þessa dagana, því nú reynir mjög á atgervi og mannafla hennar. Ég má til að hrósa Grími Grímssyni fyrir hans yfirveguðu og skilmerkilegu framgöngu í málinu. Hann víkur sér ekki undan neinni spurningu, svarar öllu af ábyrgð, staðfestir það sem rannsóknarhagsmunir leyfa að staðfest sé. Hvernig sem allt fer, þá er traustvekjandi að sjá að lögreglan hefur á að skipa hæfu og yfirveguðu fólki þegar mikið er í húfi. Við þurfum á því að halda að finna fyrir getu lögreglunnar þegar svo mikið liggur við, og ég vona heitt og innilega að rannsókn og aðgerðir beri raunverulegan árangur.

Við höldum öll áfram að vona og biðja.

Friðrikka Benónýs:

Ef það verða gerðar fleiri bíómyndir eftir bókum Arnaldar þá vil ég að þessi maður leiki Erlend. Algjör prótótýpa af lögreglumanni. Douze points.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“