Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram tillögu í borgarstjórn sem miðar að því að aflétta einokun ríkisins á áfengissölu með það fyrir augum að efla nærþjónustu og hverfisverslanir í borgarhverfum Reykjavíkur. Málið hljómar nokkuð sérkennilega þar sem borgin hefur ekkert með áfengisslöggjöf að gera, en um er að ræða ályktunartillögu þar sem skorað er á Alþingi að afnema ríkiseinokunina.
Tillögu Sjálfstæðismanna má lesa hér, en þar segir einnig:
„Í dag fer áfengissala fram á einokunarmarkaði. Helstu rökin með einokun ríkisins á áfengissölu byggja á lýðheilsusjónarmiðum. Þar virðist gleymast að ríkiseinokun er ekki besta leiðin til að lágmarka skaðleg áhrif áfengisneyslu. Undanfarin ár hefur aðgengi að áfengi aukist með 2 fjölgun áfengisverslana og lengdum opnunartíma. Samt sem áður hefur áfengisneysla ungmenna dregist verulega saman. Það er afleiðing af árangursríkustu leiðinni, forvarnarstarfi, ekki takmörkun á einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi.
Reynslan af íslenskum smásölumarkaði hefur sýnt að aukið frelsi íverslunarrekstri stuðlar að kjarabótum fyrir neytendur enda einkaaðilar betur til þess fallnir að stunda atvinnurekstur en hið opinbera. Hið opinbera ætti því ávallt að láta af rekstri sem einkaaðilar geta sinnt með hagkvæmari hætti.“
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, hefur einnig skrifað grein til stuðnings frjálsri áfengissölu í hverfum borgarinnar, og má lesa hana hér. Þar segir meðal annars:
„Áfengi er algeng neysluvara og áfengisinnkaup hluti af neyslumynstri borgarbúa. Illa staðsettar áfengisverslanir ríkisins leiða til ferða utan hverfis til áfengiskaupa. Í Reykjavík eru átta vínbúðir og tæplega 16.200 íbúar um hverja búð. Til samanburðar eru 2.600 íbúar í baklandi vínbúðarinnar í Hveragerði. Vínbúðirnar eru ekki markvisst staðsettar í grennd við þjónustukjarna hverfanna og vinna því gegn markmiðum aðalskipulags um sjálfbæri hverfi.“
Við þetta má bæta að samkvæmt nýrri könnun Maskínu, sem DV greindi frá fyrr í dag, hafa aldrei verið fleiri hlynntir sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum og eru þeir nú komnir í meirihluta. Þess skal getið að ekki stendur til hjá yfirvöldum að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum, ekkert frumvarp bíður afgreiðslu á Alþingi sem hljóðar svo. Hins vegar hefur Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, lagt fram frumvarp um að afnema einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis og að einkaaðilum verði heimiluð slík sala að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að almennt verði heimilt að selja áfengi í smásölu í sérverslunum með mat- og drykkjarvörur en ekki stórmörkuðum og matvöruverslunum.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, leggst eindregið gegn því að borgin skori á Alþingi að afnema ríkiseinokun á áfengissölu. Í stuttu samtali við DV sagði Vigdís: „Þetta er rangur staður til að ræða málið“ og telur hún að slík umræða eigi heima á sjálfri löggjafarsamkundunni, Alþingi. „Ég ætla að segja nei við brennivínstillögu Sjálfstæðismanna,“ segir hún jafnframt.
Enn fremur telur Vigdís að smásala á áfengi hafi ekkert að gera með eflingu nærþjónustu í borgarhverfum. Þá minnir Vigdís á stefnu Miðflokksins í borgarstjórn í vímuefnavarnarmálum en flokkurinn hefur bent á aukin vandamál vegna vímuefnaneyslu í borginni og fjölgun heimilislausra vegna hennar.
Bókun Vigdísar í borgarráði vegna málsins er eftirfarandi:
„Að leyfa áfengissölu í smásölu hefur ekkert að gera með eflingu nærþjónustu í hverfum Reykjavíkur, styrkingar hverfaverslana, sjálfbær hverfi né gera daglega verslun hverfisvæddari með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti. Það þarf mikið ímyndunarafl til að blanda saman markmiði aðalskipulags Reykjavíkur og frekara frjálsu aðgengi að áfengi.
Nú þegar eru útsölustaðir í Reykjavík í öllum hverfum borgarinnar. Áfengisverslanir eru í Austurstræti, Borgartúni, Stuðlahálsi, Skeifunni, Kringlunni, Skútuvogi, Stekkjarbakka og Spönginni og falla því vel inn í aðalskipulag Reykjavíkur. Að auki er áfengisverslun á Eiðistorgi sem heita má áfengisverslun Vesturbæjar.
Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar setti Miðflokkurinn málefni vímuefnaneyslu og afleiðingar hennar á oddinn. Við búum við höfuðborgarvandamál í þessum málaflokki og töluðum um að Reykjavíkurborg og velferðarsvið yrðu að viðurkenna aukin vandamál vegna vímuefnaneyslu og fjölgun heimilislausra af þeim sökum. Við fórum fram á að Reykjavíkurborg myndi óska eftir samstarfi við SÁÁ og aðra fagaðila í samráði við ríkið og önnur sveitarfélög til að sporna við vandamálum sem af neyslu leiðir. Velferðarsvið þarf að koma á fót enn frekari virkniúrræðum fyrir einstaklinga sem eru að koma inn í samfélagið á nýjan leik að lokinni meðferð og stórauka forvarnir. Þessi tillaga á ekkert skylt við frelsi. Frelsi til áfengiskaupa er nú þegar til staðar.“