Jón Valur Jensson, guðfræðingur og bloggari, helst þekktur fyrir mjög íhaldssamar skoðanir, birtir nýtt blogg þar sem hann harmar vinaslit hans og Halldórs Jónssonar, verkfræðings og umdeilds bloggara.
Jón Valur er þekktur andstæðingur innflytjenda, fóstureyðinga og samkynhneigðra. Hann hefur helst verið tengdur Íslensku þjóðfylkingunni í seinni tíð. Halldór er hins vegar tengdur Sjálfstæðisflokknum og er öðru hvoru vitnað í hann í Staksteinum Morgunblaðsins. Hann hefur í gegnum tíðina komið barnaníðingnum Robert Downey til varnar og líkt múslímum við rottur. Eitt sinn efaðist hann svo um sannleika samkynhneigðs flóttamanns og sagði kynsvelti úrræði fyrir „blámanninn“.
Þeir hafa tveir hafa verið sammála um margt í gegnum tíðina, líkt og þessi upptalning gefur til kynna. En nú er það allt í uppnámi. Jón Valur telur að Halldór hafi lokað á sig á blogginu og virðist sárna að bloggvinur hans geri slíkt. „Halldór Jónsson verkfræðingur lokar á athugasemdir frá einum aðalbloggvini sínum! Sá er ÉG! — fékk þessi skilaboð frá bloggsíðu hans: „Þú hefur ekki réttindi til að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem höfundur hennar leyfir það einungis tilteknum notendum.“ Hvað hef ég af mér gert til að verða úthýst, Halldór minn?,“ spyr Jón Valur.
Hann bætir við að hann gruni að þetta tengist þriðja orkupakkanum. „Er verið að anda of hressilega fyrir þinn smekk á Sjálfstæðisflokkinn (fyrrverandi?) á síðu þinni? Eða hver lá í þér með kröfu um að þú lokaðir á mig? Og urðu fleiri fyrir barðinu á þessari skyndilegu ritskoðunaráráttu? (Þeir geta meldað sig hér, ef þú ert tregur til að upplýsa um þetta.),“ skrifar Jón Valur.
Málið virðist þó flóknara en þetta, því í morgun birti Halldór færslu sem hann virðist nú hafa eytt. Fyrirsögn færslunnar er dramatísk: „Hjálp!“. Þó búið sé að eyða færslunni þá má lesa hluta hennar á Blogggáttinni. „Einhver bloggfróður óskast til að veita mér leiðbeiningar um hvernig ég stjórna athugasemdum. Ég bara finn ekki út úr þessu án þess að alt fari í kross og ég móðgi mína bestu vini. Ég er alls ekki að loka á málefnavini mína viljandi. Þetta er bara af því að ég er í vandræðum með Gaukinn sem dritar tíu póstum á hvert blogg mitt um óskyld málefni,“ segir í því sem sést á Blogggáttinni.