Ali Alameri, lögfræðingur frá Írak, hefur verið handtekinn með það fyrir augun að undirbúa brottvísun hans frá landinu. Ali Alameri hefur sótt um hæli á Íslandi. Ali kom við sögu í uppákomu sem varð í Salnum í Kópavogi í vor þegar nokkrir hælisleitendur reyndu að vekja athygli á málstað sínum á fundi Sjálfstæðisflokksins um Orkupakka 3. Starfsmenn á fundinum sem sögðust vera lögreglumenn, en eru það ekki, lentu þá í átökum við Ali og félaga hans.
Fjallað er um málið á Facebook-síðunni „Ekki fleiri brottvísanir“ og vakin athygli á því að svo virðist sem varpa eigi Ali úr landi á meðan kæra hans á hendur starfsmönnum á fundinum er enn til meðferðar. Ali kærði meinta árás manns sem þóttist vera lögreglumaður á fundinum og það mál er til meðferðar en svo virðist sem Ali verði rekinn úr landi áður en skýrslutökur hafa átt sér stað í kærumáli hans. Þetta segja samtökin sem hér halda fram málstað Ali að sé dæmi um gallað réttarfar. Farið er yfir málið í ágætlega skýrum en stuttum pistli sem er svohljóðandi:
Ali Alameri, lögfræðingur frá Írak sem sótti um hæli á Íslandi og varð nýverið fyrir árás manns sem þóttist vera lögreglumaður, hefur verið handtekinn til undirbúnings brottvísunar. Hann lagði nýverið fram kæru vegna árásar þykjustu-lögreglunnar, sem átti sér stað í Salnum í Kópavogi. Málið er á borði héraðssaksóknara, en skýrslutökur hafa ekki átt sér stað.
Vissulega gengur hæliskerfið sinn gang alla daga, en það er ekki boðlegt í réttarríki að vitni og fórnarlömb glæpa séu send úr landi áður en mál þeirra hefur verið tekið til rannsóknar.
Héraðssaksóknari hefur enn færi á að bregðast við, en þar sem þessi handtaka (líkt og nær allar svona handtökur) á sér stað eftir skrifstofutíma, og þar sem brottvísunin mun eiga sér stað fyrir skrifstofutíma í fyrramálið, er fljótséð að enginn getur brugðist við með hjálp þeirra stofnana sem málið varðar.
Þetta er, með öðrum orðum, gallað réttarfar frá upphafi til enda.