Íbúar stúdentaíbúðunum Ásgörðum eru ósáttir vegna fyrirhugaðrar leiguhækkunar, en til stendur að hækka leiguna fyrir stúdíó- og paríbúðir um 10 þúsund krónur á einu bretti í september. Upplýsingafulltrúi Stúdentagarða segir hækkunina nauðsynlega til að leiðrétta misræmi á leiguverði, en umræddar íbúðir hafi verið orðnar mun hagstæðari stúdentum en aðrar sambærilegar íbúðir.
„Kæri íbúi í paríbúð á Ásgörðum
Um nokkurt skeið hefur leiguverð á stúdíó- og paríbúðum á Ásgörðum verið umtalsvert lægra en á íbúðum af sömu gerð í öðrum byggingum Stúdentagarða. Þar sem paríbúðirnar á Ásgörðum eru að auki töluvert stærri en aðrar paríbúðir hefur leiguverð þar verið talsvert hægastæðara en annars staðar á Stúdentagörðum.
Til að leiðrétta þetta misræmi að hluta verður leigugrunnur á paríbúðum á Eggertsgötu hækkaður um 10.000 krónur þann 1. september n.k.“
Íbúi á Ásgörðum sagði í samtali við blaðamann að það væri furðulegt að hækka verð á íbúðum bara vegna þess að aðrir væru óánægðir með leiguna hjá sér.
„Ættu þeir ekki frekar að lækka verðið hjá þeim í minni íbúðum heldur en að hækka hjá þeim í stærri?“
Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar Stúdenta, segir hækkunina eiga sér eðlilegar ástæður. Leiguverð á umræddum íbúðum hafi ekki verið í samræmi við leiguverð annars staðar á Stúdentagörðum.
„Markmið FS er að vera rekið á núlli og leigan verður að standa undir kostnaði. Það getur verið að við séum með húsnæði sem var byggt þegar mjög hagkvæmt var að byggja. Í dag er frekar dýrt að byggja. Það hefur ákveðið misræmi myndast en við viljum gæta sanngirni gagnvart íbúum okkar.“
Umræddar íbúðir hafi verið ódýrari en sambærilegar íbúðir, en að sama bragði stærri. Þetta þýðir að það var orðið hagsmunamál fyrir stúdenta að fá úthlutun fremur á Ásgörðum en annars staðar.
„Fólk sækist auðvitað frekar eftir því að komast í ódýrari leigu þar sem er stærra húsnæði. Þú sækir um stúdíó og þá getur það verið svolítill lottóvinningur að enda á stað þar sem leigan er lægri og húsnæðið stærra.“
Kostnaður vegna íbúðanna hefur aukist mikið á undanförnum árum. Til að mynda hefur fasteignamat eignanna rokið upp. Það hefði því í rauninni þurft að fleyta fleiri verðhækkunum út í leiguverðið, en FS hefur ekki viljað gera það. Til að leiðrétta umrætt misræmi í leiguverði hafi aðeins verið fært að hækka verðið á Ásgörðum því ekkert svigrúm er til lækkunar þar sem Stúdentagarðar eru reknir á núlli og verða að standa undir sér, því hefði lægra leiguverð þýtt að félagið væri rekið með tapi en ekki á sléttu.
„Ef við værum að hækka leiguverði í samræmi við hækkanir á leigumarkaði væri verðið mun hærra. En við horfum ekki til þess. Okkar markmið er að vera alltaf á núlli og að þetta standi allt saman undir sér.“
Blaðamaður tók saman para- og einstaklingsíbúðir sem Stúdentagarðar bjóða upp á og reiknaði út fermetraverð með því að taka samtölu húsaleigu og annarra gjalda og deila í fermetrafjöldann. Þegar þær tölur eru skoðaðar sést að Paríbúðirnar að Ásgörðum eru áberandi hagkvæmar samanborið við paríbúðir annars staðar. Munurinn er einnig nokkur þegar litið er einstaklingsíbúðanna. Niðurstaðan verður einnig að Ásgarðar séu hagkvæmastir þegar litið er til einstaklingsherbergja, en þar koma herbergi í tvíbýli að Ásgörðum afgerandi betur út. Hafa ber þó í huga að þegar litið er til fermetraverðs fyrir einstaklingsherbergi þá er aðeins verið að skoða skráða fermetratölu herbergis, en ekki er tekið til sameiginlegs rýmis, en það mun til dæmis vera glæsilegt sameiginlegt rými á Oddagörðum á meðan sameiginlegt rými á Ábrú er töluvert minna að umfangi og íburði.