Að minnsta kosti þrír aðilar sem selja eldsneyti hafa lækkað bensínlítrann í dag. Atlantsolía reið á vaðið og lækkaði verð hjá sér í morgun. Í tilkynningu frá fyrirtækinu sagði að bensínlítrinn væri nú 22 krónum lægri en annars staðar.
Orkan svaraði þessu og boðaði verðstríð. Í tilkynningu frá félaginu segir:
„Orkan snarlækkar verð á eldsneyti á Dalvegi í Kópavogi og Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði.
Orkan hefur verið brautryðjandi í ódýru eldsneyti og hæstu afsláttunum síðan félagið var stofnað 1995. Orkan lækkar nú verðið á Dalvegi og Reykjavíkurvegi niður í 211,3 kr á bensínlítranum og 201,9 kr af lítranum af dísil, þegar þessi fréttatilkynning er skrifuð.“
Þriðja tilkynningin frá bensínsölum sem hefur borist í dag er frá Dælunni. Dælan rekur fimm bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu, í Fellsmúla, Holtagörðum, Stekkjarbakka í Mjódd, Hæðasmára og Salavegi. Dælan lækkar verðið verulega, bæði á bensíni og díselolíu en tilkynningin er eftirfarandi:
„Dælan hefur nú lækkað verðið á öllum sínum fimm bensínstöðvum niður í 211.2 kr. fyrir lítrann af bensíni og 201.8 kr. fyrir lítrann af diesel olíu.
Dælan er ekki með afsláttarlykla eða aðgangskort að sínum stöðvum og því fá allir viðskiptavinir Dælunnar sama lága verðið hvort sem greitt er með debetkortum, kreditkortum eða peningum.“