Lögreglumenn frá Húsavík höfðu í dag hendur í hári ökumanns sem festi jeppa í Bjarnarflagi við Mývatn, skammt frá Jarðböðunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra en þar segir að vitni gerðu lögreglu viðvart um athæfið. Engin aðstoð var þó veitt við að losa bifreiðina fyrr en lögregla var komin á vettvang og hafði klárað rannsókn málsins.
Ljóst var að viðkomandi hafði ekið með slíkum ákafa að bifreið hans endaði í festu í leirkenndum jarðvegi í nágrenni heitra gufusvæða. Ökumanninum, sem er af erlendu þjóðerni, verður gert að greiða sekt í ríkissjóð. Hermt er að sektirnar verði vegna gífurlegrar skemmdar sem urðu á kaflanum sem bíllinn ók um áður en hann festist í leirnum.
Í samtali við Morgunblaðið segir Sigurður Jónas Þorbergsson, einn landeigenda Reykjahlíðar, að um ásetningsbrot sé að ræða. „Við héldum fyrst að þetta væri óhapp og þau hefðu lent út af, en síðan kom í ljós að þau komu úr hinni áttinni og höfðu síðan beygt og tekið sveigju þarna niður,“ segir Sigurður.