Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, elskar að koma sínum liðum í úrslit þó að það gangi ansi illa í úrslitaleiknum sjálfum.
Klopp hefur spilað sex úrslitaleiki á síðustu árum en þeir hafa allir tapast. Hann fær annað tækifæri í kvöld er Liverpool mætir Tottenham í úrslitum Meistaradeildarinnar.
Þjóðverjinn var spurður út í þennan árangur á blaðamannafundi í gær og hafði gaman að.
,,Ég velti því fyrir mér hvaða spurningar kæmu í dag því ég hef talað um allt annað,“ sagði Klopp.
,,Ef það er mér að kenna að ég hafi tapað sex úrslitaleikjum í röð þá þurfa allir að hafa áhyggjur.“
,,Hvað lærði ég á síðasta ári? Að hjólhestaspyrna af 18 metrum getur orðið að marki. Annars lærði ég í raun ekkert af þessum úrslitaleikjum.“
,,Síðan 2012, fyrir utan 2017 þá hef ég alltaf komist í úrslit – ég er örugglega heimsmeistari í því að vinna undanúrslit. Ef ég myndi skrifa bók um það þá myndi örugglega enginn kaupa hana.“