Maður var nýverið dæmdur í fjögurra ára og þriggja mánaða fangelsi fyrir alvarleg fíkniefna og umferðarlagabrot. Þann 22. desember síðastliðinn var maðurinn tekinn að keyra bifreið sinni við Krók í Flóahreppi undir áhrifum fíkniefna, ásamt því að hafa verið með skotvopn undir hendi án skotvopnaleyfis.
Maðurinn á að hafa neytt fíkniefna, en amfetamín, kókaín og tetrahýdrókannabínólsýra (niðurbrotsefni kannabisefna) fundust í þvagi og blóði mannsins.
Þar að auki fundust fíkniefni í sætisvasa hans og í bakpoka sem geymdur var í bílnum, en fíkniefnin virðast hafa verið ætluð til sölu. Haglabyssa af gerðinni Franchi ásamt 20 haglaskotum á einnig að hafa verið í vörslu þess ákærða en hann var ekki með skotvopnaleyfi.
Maðurinn játaði að hafa framið lögbrotin sem um ræðir, en hann var dæmdur í fjögurra ára og þriggja mánaða fangelsi og þar að auki þarf hann að greiða 431.117 krónur. Hann braut með þessu skilorð sitt, sem skýrir hve þungan dóm hann hlaut.
Þetta var í fimmtánda skiptið sem að sá ákærði sætti refsingu frá árinu 2010. Þau brot sem honum hafði verið refsað fyrir voru ýmist umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot og áfengislagabrot.