Nokkuð algengt mun vera að fólk, þá einkum karlmenn, sendi myndir af kynfærum sínum á aðra einstaklinga í gegnum samfélagsmiðla. Ekkert er að slíkum myndsendingum ef um samskipti með samþykki tveggja aðila er að ræða, en oft eru slíkar myndir sendar í óþökk viðtakanda. Þá er gjarnan talað um óumbeðnar typpamyndir þegar karlmaður er gerandinn í svona málum. Slíkar sendingar geta valdið viðtakanda mikilli vanlíðan. Viðtakendur, sem geta jafnvel verið á grunnskólaaldri, vita oft ekki hvort og þá hvert þeir geti leitað þegar þeim finnst slík sending hafa brotið gegn sér.
Blaðamaður getur hér tekið af allan vafa. Óumbeðnar kynfæramyndir eru kynferðisbrot, og þær er hægt að kæra til lögreglu. Slíkt er og hefur verið gert um nokkurn tíma. Hér að neðan tók blaðamaður saman nokkra nýlega dóma þar sem óumbeðnar kynfæramyndir koma við sögu með einum eða öðrum hætti. Þessi upptalning er þó ekki tæmandi, heldur aðeins í dæmaskyni.
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í febrúar 2016 karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir blygðunarsemisbrot, dreifingu á klámi til barns, og brot gegn barnaverndarlögum. Jafnframt var hann dæmdur til að greiða þolanda sínum, 15 ára stúlku, 250 þúsund krónur í miskabætur. Karlmaðurinn hafði sent 15 ára stúlku, nemanda við skólann sem hann starfaði í, tvö myndbönd sem sýndu á honum getnaðarliminn. Myndböndin voru send í gegnum samfélagsmiðlaforritið Snapchat. Stúlkan leitaði til föður síns eftir sendinguna, enda leið henni illa yfir þeim. Faðir hennar tilkynnti málið til barnaverndanefndar og kærði í kjölfarið brotið til lögreglu.
„Hún hefði sagt ákærða frá því að hún hefði fengið sér lokk í geirvörtuna. Ákærði hefði þá beðið hana að senda sér mynd af því og hefði hún sent honum mynd af lokknum í geirvörtunni. Ákærði hafi þá sent henni þriggja sekúndna myndskeið af typpinu á sér. Myndskeiðið hafi verið of stutt til að hún gæti tekið myndina upp og því hefðu hún beðið hann að senda lengra myndskeið. Hafi ákærði gert það og brotaþoli afritað myndina. Það sjáist greinilega á myndskeiðinu hvað ákærði hafi verið að senda og svo segir hann „send þú“ en þá hafi brotaþoli strax lokað á samskipti við ákærða á Facebook.“
Annað mál kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í apríl 2017. Þá var sóknarmaðurinn Ragnar Þór Gunnarsson dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 500 þúsund króna í miskabætur til brotaþola fyrir kynferðisbrot gegn barni.
Sjá einnig: Tindastóll lýsir yfir stuðningi við leikmann sem dæmdur var fyrir kynferðisbrot
Ragnar var ákærður fyrir að kynferðislega áreita barn. Hann hefði káfað á rassi hennar utanklæða og ítrekað sent henni gróf kynferðisleg skilaboð í gegnum Snapchat. Í skilaboðunum bað hann stúlkuna um að stunda með sér kynlíf, óskaði eftir nektarmyndum af henni, viðhafði kynferðisleg ummæli um líkama hennar og sendi minnst einu sinni til hennar mynd af getnaðarlimi sínum.
Ragnar var starfsmaður hjá íþróttafélaginu sem stúlkan æfði hjá. Hann bætti henni við sem vini á Snapchat án þess að gera henni umsvifalaust grein fyrir því hver hann væri, en hann notaðist við annað notendanafn en hann vanalega notaði í samskiptum við aðra.
Hafa verður í huga að ákærði stofnaði til samskipta við stúlku sem hann þekkti ekkert og kom sér afar fljótt að efninu með því að spyrja hvort hún vildi „ríða“ og hélt svo ótrauður áfram. Skýrt kemur fram í svörum brotaþola á nokkrum stöðum að aldursmunur var með þeim og á einum stað segir hún beinlínis að hún sé […] ára. Þrátt fyrir þetta linnti ákærði ekki látum. Þá sendi hann henni vinabeiðni að nýju undir öðru notaendanafni eftir að hún lokaði á hann. Kynnti hann sig til leiks þegar hún spurði hver hann væri, með því að segja „Hahah þú verður ekki ánægð að frétta það“. Eftir það hélt hann áfram með grófu kynferðislegu orðbragði sem var síst betra en í fyrra skiptið. Lýsir þetta einbeittum ásetningi ákærða.
Eftir samskiptin varð stúlkan hrædd við að sækja æfingar þar sem hún gæti rekist á Ragnar í íþróttahúsinu. Í niðurstöðu dómara segir:
Með ofangreindum samskiptum gekk ákærði langt út fyrir eðlileg mörk í samskiptum sínum við brotaþola. Þegar litið er til eðlis, inntaks og ítrekun skilaboðanna telur dómurinn að ákærða hafi mátt vera ljóst að þau fælu í sér gróft áreiti gagnvart henni. Með háttsemi sinni hefur ákærði gerst sekur um kynferðislega áreitni gagnvart brotaþola
Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í apríl síðast liðnum, dæmdur í 16 mánaða fangelsi og til greiðslu 600 þúsund króna miskabóta til þolanda fyrir kynferðisbrot, brot gegn áfengislögum, hótanir og umferðalagabrot.
Maðurinn villti á sér heimildir á Facebook. Þóttist þar vera yngri maður og setti sig í samband við þolanda og hóf að senda mikið magn skilaboða með ósiðlegu orðbragði og jafnframt eina mynd af getnaðarlim sínum. Dæmi um skilaboð sem hann sendi eru eftirfarandi:
- „var pæla fá þig ef þú færir oní bæ“
- „en ef við kúrum þá verðuru nakinn ok“
- „ef ég set hann inn þarf ég að nota smokk ??“
- „fæ ég að setja hann inn já eða nei“
- „ertu á pillunni ?“
- „ok þá brunda ég ekki inn“
- „má ég þá setja hann inn í þig í kvöld ??“
- „fæ ég þá í staðinn að setja hann í þig í kvöld ?“
- „viltu sjá hann ??“
- „ertu með stór eða lítil brjóst ?“
- Myndskilaboð með mynd af getnaðarlimi sínum í reisn og hönd haldandi við neðanverðan liminn.
Þyngd dómsins má að einhverju leiti skýra með löngum sakaferil karlmannsins, en hann hafði meðal annars áður verið dæmdur til fimm ára fangelsisvistar fyrir kynferðisbrot og þjófnað. Stúlkan hafi tekið þátt í samskiptunum upp að vissu marki og meðal annars sent ákærða mynd af sér fáklæddri. Brot hans gegn stúlkunni þóttu ganga lengra en blygðunarsemisbrot og hann var sakfelldur fyrir kynferðislega áreitni. Ekki þótti það skipta máli við úrlausn málsins að stúlkan hefði tekið þátt í samskiptunum að einhverju marki eða að brotið hefði átt sér stað í gegnum Netið. Síðan hafði maðurinn einnig villt á sér heimildir sem gerðu brotið enn alvarlegra.
Var háttsemi ákærða til þess fallin að valda brotaþola, sem er ung að árum, vanlíðan og hafa í för með sér ófyrirséðar afleiðingar. Gildir hér einu þó að kynferðisbrotin hafi átt sér stað á netinu en ungir þolendur slíkra brota njóta ríkrar verndar og gildir einu þó að samþykki þeirra við háttsemi eða einhvers konar þátttaka komi til. Hafa ber í huga að ákærði villti á sér heimildir sem er til þess fallið að auka á alvarleika brota hans. Verða þessi atriði virt ákærða til refsiþyngingar.
Landsréttur staðfesti í janúar síðastliðnum þriggja mánaða skilorðsbundna fangelsisrefsingu yfir karlmanni á fertugsaldri fyrir kynferðislega áreitni. Maðurinn hafði þá sent ókunnugri konu siðlaus skilaboð og myndir af getnaðarlim sínum. Karlmaðurinn reyndi að bera því við að hann hefði farið númeravillt og talið sig eiga í samskiptum við konu sem hann ætlaði í tantranudd til , en dómari gaf lítið fyrir þá skýringu .
Hann viti ekki hvernig hann hafi ruglað símanúmerum en hann teldi sig hafa fengið símanúmerið á vef tantrasetursins. Hann hafi ekki verið að heita greiðslu fyrir vændi heldur hafi verið um daður að ræða í skilaboðunum. Myndirnar sem hann hafi sent hafi verið af honum sjálfum. Þá greindi hann frá því að hann tæki lyf fyrir nóttina sem yllu því stundum að minni hans yrði gloppótt og hann gerði hluti sem hann myndi alla jafna ekki gera.[…] Þegar hún hefði verið að fara í vinnu morguninn eftir hefði hún fengið sendar þrjár myndir og texta. Hún hefði farið í vinnuna en verið í taugaáfalli. Hún hefði haldið að einhver væri að elta hana enda vissi hún ekki hver væri að senda skilaboðin. Hún óttaðist að um einhvern væri að ræða sem vildi vinna henni mein.
Ljóst er því að brotaþoli gerði ákærða skýrlega grein fyrir því að hann væri ekki að senda skilaboðin í rétt númer. Engu að síður hélt ákærði áfram sendingum sínum og skilaboðin urðu grófari. Brotaþoli gerði einnig tilraunir til þess að hringja í ákærða en hann svaraði ekki símtölum hennar. Háttsemi ákærða var ítrekuð, stóð í tæpan sólarhring og var til þess fallin að vekja ótta hjá brotaþola.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafa óumbeðnar kynfæramyndir gjarnan verið kærð til lögreglu. Í svari Rannveigar Þórisdóttur, sviðsstjóra stoðþjónustu og greiningu hjá Lögreglustjóranum á Höfuðborgarsvæðinu eru slíkar myndsendingar oftast flokkaðar sem blygðunarsemisbrot.
Brot vegna myndsendinga eru alla jafna skráð sem blygðunarsemisbrot hjá okkur þó svo undantekningar geti verið á því þar sem ákvæðið um kynferðislega áreitni felur í sér snertingu eða táknræna hegðun eða orðbragð sem er mjög meiðandi.
Af ofangreindu er þó ljóst að myndsendingar og klúr skilaboð geta verið með þeim hætti að það teljist heldur sem kynferðisleg áreitni. Líkleg refsiþyngd væri þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og miskabætur upp á 250 þúsund krónur. Það fer þó eftir málsatvikum hvers máls.
Hér fyrir neðan má sjá færslur sem hafa birst á Instagram-síðunni Fávitar sem baráttukonan Sólborg Guðbrandsdóttir heldur úti. Þar getur fólk deilt erfiðri reynslu sinni, áreitni og óviðeigandi samskiptum og skilað skömminni. Eins og sjá má virðast íslenskar konur oft verða viðtakendur óumbeðna typpamynda, en þær hugrökku konur sem deildu þessum reynslum sínum á Fávita-síðunni, eru með munninn fyrir neðan nefið og láta gerendur sína heyra það.
https://www.instagram.com/p/BxC-HwgAjbT/
https://www.instagram.com/p/BxFQDlOgzSx/
https://www.instagram.com/p/BxXTFKpAUQ6/
https://www.instagram.com/p/BxfaozbgtYU/
https://www.instagram.com/p/Bxf54CGgCyG/
https://www.instagram.com/p/BxpaJGRgK0F/