Skrautleg uppákoma varð á hádegisfundi Sjálfstæðisflokksins í Salnum í Kópavogi í dag um þriðja orkupakkann. Þar tóku til máls meðal annars Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Fundarstjóri var Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs. Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir, sem gjarnan er tengdur við Samfylkinguna, birti eftirfarandi myndband af uppákomunni þegar nokkir hælisleitendur hleyptu upp fundinum og virtust krefjast svara um úrlausn sinna mála. Þegar hælisleitendurnir spurðu hvort það yrði hringt á lögregluna var svarið nei því tveir menn í salnum væru „lögreglan“. Tveir stæðilegir menn sögðu síðan „We are the police“, lentu í stympingum við hælisleitendurna og ætluðu að varpa þeim á dyr, en þá greip Ármann Kr. inn í og bað alla fundarmenn um að róa sig. Lengra nær myndskeiðið ekki. Heimildir herma að tekist hafi að ljúka fundinum.
Vilhjálmur er hneykslaður á uppákomunni og skrifar í færslunni:
Hér á fundi Sjálfstæðisflokksins um þriðja orkupakkann varð uppákoma þegar hælisleitendur í hópi fundargesta óskuðu þess að spyrja ráðherrana spurninga um sín málefni. Athygli vakti þegar einhverjir gaurar hér í borgaralegum fötum merktir Sjálfstæðisflokknum með nafnspjöldum sögðust vera lögreglan og ætluðu að taka mál í eigin hendur með valdbeitingu.