Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu byrjar að sekta þá sem enn eru á nagladekkjum frá og með 15. maí. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum er hins vegar öllu sveigjanlegri í þessu máli og opinn í báða enda – eða réttara sagt, tekur mið af íslenskri veðráttu:
„Við erum ekki með ákveðna dagsetningu einfaldlega vegna þess að við erum ekki alveg viss um hvernig viðrar þann 15, en vonandi mun ekki snjóa eða frysta fram að því. Reglurnar eru skýrar og heimildin til sektar er skýr.“
Svona svaraði Lögreglustjórinn á Suðurnesjum fyrirspurn borgara um þetta efni. Lögreglan hefur nú þegar heimild til að sekta ökumenn sem ekki hafa skipt yfir á sumardekkin en kýs að gera það ekki um sinn vegna óvissunnar í veðurfari hér. Suðurnesja laganna verðir hvetja ökumenn hins vegar til að huga að þessu hið fyrsta í eftirfarandi, laufléttri tilkynningu:
„Þá fer að styttast í að við förum að skoða hvort að ökumenn séu ekki farnir að taka nagladekkin undan ökutækjum sínum. Við munum EKKI beita sektum til að byrja með en við erum svona farin að skoða stöðuna. Í gær ókum við framhjá nokkrum dekkjaverkstæðum og sáum að biðraðirnar voru nokkuð langar og munum við því taka tillit til þessa. Við hvetjum ökumenn til að fara að huga að þessu og munið það að það margborgar sig að gera þetta hið fyrsta því sektin við þessum brotum er gríðarlega há, eða 20.000 á dekk.
Alltaf eru einhverjir á leiðinni hingað og þangað um landið og verða þeir bara að meta sjálfir hvað þeir gera, en einhverjir eru að hafa samband við okkur og spurja hvort það sé ekki í lagi að vera á nöglum af því þeir eru að fara vestur eða norður.
Eigið góða helgi og farið varlega.“