fbpx
Föstudagur 22.ágúst 2025
Fréttir

Harðræði lögreglunnar

Auður Ösp
Laugardaginn 27. apríl 2019 10:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Embætti héraðssaksóknara rannsakar um þessar mundir mál 25 ára konu sem lést fyrr í mánuðinum eftir afskipti lögreglu. Foreldrar stúlkunnar hafa gagnrýnt vinnubrögð lögreglumanna vegna atviksins og telja að röngum aðferðum hafi verið beitt.

Undanfarna áratugi hafa fjölmörg mál komið upp þar sem lögreglan er gagnrýnd fyrir harðræði og röng vinnubrögð. Ekki þarf að leita lengra aftur í tímann en til upphafs þessa mánaðar til að finna dæmi um slíkt, en þá var  lögreglumaður hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sakfelldur fyrir líkamsmeiðingu af gáleysi, en sýknaður af ákæru fyrir brot í opinberu starfi. Lögreglumaðurinn kom að handtöku ölvaðs manns fyrir utan Hamborgarabúlluna í Kópavogi fyrir tveimur árum þar sem hinn handtekni, brotaþolinn í málinu, tvífótbrotnaði. Samkvæmt skýrslu réttarmeinafræðings er líklegast að áverkar mannsins hafi komið til þegar bílhurð var skellt á fætur hans, en vitni að atvikinu sögðu mikið offors hafa einkennt handtökuna.

Myndband vakti umtal og reiði

Í júlí 2013 var lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu leystur undan vinnuskyldu vegna harkalegrar handtöku á Laugavegi, sem hann stóð að ásamt tveimur öðrum lögreglumönnum. Fórnarlambið var 29 ára kona sem starfaði sem rekstrarstjóri. Myndband sem náðist af handtökunni fór hratt um netheima og vakti hörð viðbrögð í samfélaginu.

Í upphafi myndbandsins sést konan standa fyrir framan lögreglubíl á Laugaveginum og svo virðist sem hún neiti að víkja af göt­unni til að greiða götu hans. Hún gengur svo að bílnum og á í orða­skiptum við lögreglumanninn sem situr undir stýri. Lögreglumaðurinn stuggar við konunni með bílhurðinni, stekkur stuttu seinna út úr bílnum, grípur um handlegg konunnar og hendir henni aftur á bak með þeim afleiðingum að hún skellur harkalega á bekk. Lögreglumaðurinn sést því næst draga konuna eftir jörðinni stuttan spöl. Hann snýr síðan upp á handlegginn á henni og þrýstir hné á háls hennar þar sem hún liggur á jörðinni. Tveir aðrir lögreglumenn aðstoða hann síðan við að koma konunni inn í bíl.

Í frétt DV á sínum tíma kom fram að samkvæmt heimildum blaðsins hafi ástæða ofsafenginna viðbragða lögreglumanns­ins verið sú að konan hrækti á hann í miðjum orðaskiptum.

Í samtali við mbl.is varði Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, handtökuna og sagði að þarna hefði verið beitt svokallaðri norskri handtökuaðferð. Málið rataði fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem tekist var á um hvort aðferðir lögreglumannsins við handtökuna hefðu verið réttmætar.

Fyrir dómnum sagði lögreglumaðurinn að handtakan hefði verið „fumlaus“ og „nauðsyn­leg til að koma í veg fyr­ir frek­ara of­beldi.“ Í desember 2013 var lögreglumaðurinn dæmdur til að greiða 300 þúsund krónur í sekt vegna málsins. Rúmlega ári síðar þyngdi Hæstiréttur refsinguna og dæmdi lögreglumanninn í 30 daga skilorðsbundið fangelsi auk þess sem honum var gert að greiða konunni 430 þúsund krónur í miskabætur.

Var það mat Hæstaréttar að lögreglumaðurinn hefði farið offari við handtökuna. Ekki hefði verið þörf á að setja konuna í handjárn með þeirri aðferð sem gert var, né að setja hana í lögreglubifreiðina með þeim hætti sem gert var.

Fórnarlambið missti meðvitund

Undanfarna áratugi hafa nokkur mál sem varða harðræði lögreglu ratað fyrir dómstóla og endað með sakfellingu.

Árið 1990 var Steinn Jakob Ólason lögreglumaður ákærður, og síðar sakfelldur, fyrir að brot í opinberu starfi og líkamsmeiðingar. Fórnarlambið í handtökunni, Sigurður Kaldal, var  á leið til heimilis síns aðfaranótt 27. desember 1990. Hann var stöðvaður af lögreglu á horni Bergþórugötu og Frakkastígs þar sem lögreglan hafði afskipti af hópi manna. Var Sigurður beðinn um að fara aðra leið heim til sín en hann þráaðist við og vildi halda sínu striki.

Steinn Jakob var ákærður og sakfelldur fyrir að hafa tekið Sigurð kverkataki svo að Sigurður missti meðvitund. Steinn Jakob dró Sigurð því næst meðvitundarlausan til baka í átt að lögreglubíl. Þegar hann átti skammt ófarið að lögreglubílnum sleppti hann takinu á Sigurði, þannig að andlit hans skall í götuna með þeim afleiðingum að hann bólgnaði og skrámaðist í andliti auk þess sem sjö tennur í efri og neðri gómi brotnuðu.

Í úrskurði Sakadóms Reykjavíkur frá 8. maí 1991 kemur fram að „þrátt fyrir að Sigurður Kaldal hafi ekki sinnt boðum lögreglu sýndi hann í engu af sér háttsemi sem kallaði á svo harkaleg viðbrögð ákærða enda hafi ákærða verið í lófa lagið að leysa málin á annan veg, til dæmis með því að kalla á aðstoð félaga sinna sem voru margir á vettvangi.“ Steinn Jakob hlaut þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm vegna málsins.

„Átti fullt í fangi með að hemja óðan mann“

Árið 2009 var lögreglumaðurinn Garðar Helgi Magnússon ákærður fyrir brot í opinberu starfi og líkamsárás sem átti sér stað að morgni sunnudagsins 18. janúar það ár.

Garðar Helgi var sakaður um að hafa farið offari við framkvæmd lögreglustarfans og ekki gætt lögmætra aðferða þegar hann fyrirskipaði öðrum lögreglumanni að aka með 22 ára gamlan handtekinn mann frá Austurstræti út á Granda í Reykjavík þar sem maðurinn var skilinn eftir.

Þá var Garðar ákærður fyrir að hafa þrýst hné sínu á háls mannsins, þar sem hann lá handjárnaður á maganum á gólfi lögreglubifreiðarinnar. Hinn handtekni hlaut í kjölfarið marbletti aftan á hálsi. Garðar var hins vegar sýknaður af þessum lið ákærunnar þar sem Hæstiréttur taldi að hann hefði átt „fullt í fangi með að hemja óðan mann sem braust um og sparkaði frá sér.“

Garðar neitaði sök í málinu en fyrir dómi sagði hann að ungi maðurinn sem handtekinn var hefði verið með ólæti og hefði honum því verið ekið út á Granda í því skyni að „róa hann niður.“

Í frétt DV í nóvember 2009 kom fram að Garðar væri enn við störf sem lögreglumaður hjá Ríkislögreglustjóra þrátt fyrir að málið væri fyrir dómstólum. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp sýknudóm en þeim dómi var síðan hnekkt í Hæstarétti í nóvember 2010. Var Garðar Helgi þá fundinn sekur og dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi.

Blóðpollur á gólfinu

„Skaftamálið“ svokallaða vakti mikla athygli snemma á níunda áratugnum og hrundi af stað þarfri umræðu um lögregluofbeldi í samfélaginu.

„Ég var settur í handjárn með hendur fyrir aftan bak, hent inn í lögreglubílinn og beint á magann. Einn lögregluþjónanna kom síðan inn í bílinn til mín. Hann setti annað hnéð í mjóhrygg minn og togaði því næst í hárið á mér. Síðan byrjaði hann að berja andliti mínu trekk í trekk í gólfið. Og fyrr en varði var andlitið orðið ein blóðhella og stór blóðpollur myndaðist á gólfinu,“ sagði hinn 27 ára gamli Skafti Jónsson blaðamaður í samtali við DV í desember 1983 en hann hafði þá kært þrjá lögregluþjóna fyrir misþyrmingar við handtöku sem átti sér stað fyrir utan Þjóðleikhúskjallarann.

Lýsti Skafti því þannig að röð atvika hefði leitt til þess að tveir dyraverðir réðust á hann að ósekju. Þegar hann hefði veitt viðnám voru viðbrögð dyravarðanna að kalla á lögreglu sem mætti á staðinn og handtók hann að ástæðulausu.

„„Komdu með okkur upp á stöð,“ sögðu þeir. Ég svaraði þeim að ég hefði ekkert til saka unnið og ætti ekkert erindi þangað. Þá skipti engum togum að þeir keyrðu mig niður á afgreiðsluborðið og handjárnuðu mig. Þeir þjösnuðu mér síðan út í bíl. Ég var ófús og streittist á móti,“

sagði Skafti í samtali við DV á sínum tíma. Hann sagðist hafa verið beittur ofbeldi af hálfu lögreglunnar og þurft að þola mikið harðræði þegar á lögreglustöðina var komið.

Lögreglumennirnir þrír voru síðar meir ákærðir fyrir ólöglega handtöku, brot í opinberu starfi, harðræði og líkamsmeiðingar. Þeir voru sýknaðir í héraðsdómi en Hæstiréttur taldi hins vegar sannað að Skafti hefði hlotið meiðsli eftir að hann var fluttur í handjárnum í lögreglubifreið þar sem hann var látinn liggja á grúfu á gólfinu. Lögreglumaðurinn sem sat aftur í með Skafta var því sakfelldur vegna málsins og dæmdur til greiðslu miskabóta auk sektargreiðslu til ríkissjóðs.

„Hræðileg niðurlæging“

Það vakti gríðarlega athygli í árslok 1994 þegar athafnakonan og alheimsfegurðardrottningin fyrrverandi, Linda Pétursdóttir, steig fram í viðtali við DV og lýsti því þegar hún var handtekin og flutt á lögreglustöð ásamt þáverandi unnusta sínum, Lee Robertsson. Sagðist hún hafa þurft að þola mikið harðræði og niðurlægingu af hálfu lögreglunnar.

Forsaga málsins var sú að tilkynning barst til lögreglu um að Les hefði ekið á kyrrstæðan bíl og síðan horfið á braut. Sú kæra reyndist síðar meir ekki á rökum reist. Fyrr um kvöldið hafði parið verið úti að skemmta sér ásamt fleirum og þar lenti Les í útistöðum við eiganda bílsins. Eftir að tilkynningin barst til lögreglu voru bæði Les og Linda handtekin fyrir utan veitingastaðinn Marhaba.

Einn lögreglumannanna sem komu að handtökunni ritaði í skýrslu að Linda hefði ruðst inn í lögreglubílinn eftir að sambýlismaður hennar var handtekinn. Upptökur af fjarskiptum á milli lögreglubíla þóttu hins vegar benda til annars og í kjölfarið vöknuðu grunsemdir um að Linda hefði verið handtekin að ástæðulausu vegna þess að hún var umtöluð og áberandi í samfélaginu. Í lögregluskýrslu var því meðal annars haldið fram að Linda hefði „bitið og klórað.“

Linda lýsti atburðarásinni á lögreglustöðinni meðal annars þannig: „Fyrst var ég ofboðslega hrædd því ég vissi ekki hvað var að gerast. Síðan varð ég reið þegar þeir fór að taka á mér. Ég kallaði á Les og sagði að þeir væru að meiða mig. Þeir beygðu mig fram á borðið og sneru upp á höndina á mér, ég var í stuttu pilsi og þetta var alveg hræðileg niðurlæging. Þeir skipuðu mér að hætta að öskra og þegar ég hélt því áfram þá tóku þeir fyrir munninn á mér. Stuttu síðar fékk ég svo fótinn á honum í afturendann á mér og hann sagði að þó að ég væri Linda P. þá væri ég ekkert merkilegri en annað fólk.“

Í samtali við DV á sínum tíma sagðist Linda ekki skilja hvað vakti fyrir lögreglumönnunum og benti á þeir hefðu verið tvísaga í framburði sínum af atvikinu. Fyrst hefðu þeir haldið fram að hún hefði verið dauðadrukkin, en svo hefðu þeir sagt í skýrslu að hún hefði verið ódrukkin „en þó undir annarlegum áhrifum.“ Þá undraðist Linda mjög að ekki var tekin af henni blóðprufa á lögreglustöðinni. „Ég skil ekki svona framkomu hjá lögreglunni. Hún er að reyna að koma því inn hjá fólki að ég sé í eiturlyfjum. Það er verið að reyna að sverta mannorð mitt og gera mig að einhverri ljótri manneskju, sem mér finnst ég ekki eiga skilið,“ sagði Linda meðal annars.

Þá kom jafnframt fram að Linda væri með sjáanlega áverka eftir aðgerðir lögreglunnar, væri meðal annars marin á bakhlutanum, með bólgna hönd og verki í hálsi og baki.

Linda ræddi stuttu síðar aftur við DV og kom þá fram að hún hefði farið í lyfjapróf til að sanna sakleysi sitt.

Í kjölfar þessa lagði Linda fram kæru á hendur lögreglunni fyrir meint harðræði, en lögreglan gagnkærði Lindu fyrir ofbeldi og fleira. Fram kemur í grein Stundarinnar í desember 2015 að Gísli Gíslason, lögmaður Lindu, hafi á sínum tíma farið á fund með Böðvari Bragasyni lögreglustjóra þar sem gerð var sátt um að falla frá ákærum á báða bóga. „Við sammæltumst um að það væri engum í hag að halda þessum málum áfram.“

Sagði lögreglumennina hafa verið með yfirgang

Linda er ekki eini nafntogaði Íslendingurinn sem hefur neikvæða sögu að segja af samskiptum sínum við lögregluna. Í júlí 2010 lenti Ellen Kristjánsdóttir söngkona í átökum við lögregluna í mótmælum fyrir utan Seðlabankann. Leitaði hún í kjölfarið á bráðamóttöku og sagði lögregluna hafa snúið upp á handlegg hennar.

Í samtali við Vísi sagðist hún hafa hafa setið við inngang Seðlabankans þegar lögregla kom að henni og sneri fyrirvaralaust upp á handlegg hennar. Ellen var þó ekki handtekin. Í samtali við mbl.is sagðist hún vera „blá og mar­in eft­ir viðskipti sín við lög­regl­una. Sagðist hún hafa setið við inn­gang hússins og neitað fyrirmælum lögreglumanns sem sagði henni að færa sig. Sagði hún lögreglumanninn hafa snúið upp á handlegg hennar og fært hana frá. Hann hefði síðan skeytt engu þegar aðrir mótmælendur brugðust við og sögðu honum að biðja Ellen afsökunar. Ellen tók undir að viðbrögð lögreglumannsins hefðu verið tilefnislaus. „Já, eig­in­lega. Ég er nú voðal­ega friðsöm.“

Árið 2015 sakaði Oddur Hrafn Björgvinsson, betur þekktur sem Krummi í Mínus, lögregluna um óþarfa harðræði við handtöku. Í júní 2013 var lögreglan kölluð að heimili Krumma eftir að nágrannar kvörtuðu undan háværri tónlist. Í kjölfarið var Krummi handtekinn fyrir að sparka í fót lögreglumanns. Hann var í kjölfarið ákærður og sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni en fyrir dómi sagði hann lögreglumennina hafa verið „dónalega og með yfirgang.“

„Mér fannst tími til kominn að þeir færu, þeir voru búnir að vera með dónaskap og yfirgang við mig og vinkonu mína þarna inni á mínu heimili. Áður en ég veit af er ég síðan bara kominn gólfið, þeir skella mér harkalega niður, tóku mjög fast á mér og handjárnuðu mig harkalega.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Lífið í fangelsinu enginn dans á rósum fyrir morðingjann

Lífið í fangelsinu enginn dans á rósum fyrir morðingjann
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hildur ómyrk í máli: „Enn eitt dæmið um stjórn­un­ar­vanda inn­an borg­ar­kerf­is­ins”

Hildur ómyrk í máli: „Enn eitt dæmið um stjórn­un­ar­vanda inn­an borg­ar­kerf­is­ins”