fbpx
Þriðjudagur 06.maí 2025
Fókus

Íslensk glæpakvendi – Hótaði að drepa börnin sín: „Hún stakk hann, hún stakk hann!“

Auður Ösp
Þriðjudaginn 9. apríl 2019 13:00

Íslensk glæpakvendi glæpakonur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er tiltölulega sjaldgæft að konur fremji alvarlega glæpi á Íslandi. Algengast er að konur hljóti dóma fyrir smávægilega glæpi á borð við þjófnað og skjalafals en þegar kemur að að manndrápsmálum, alvarlegum ofbeldis- eða kynferðisbrotum eru karlar í áberandi meirihluta. Undanfarna fimm áratugi hafa nokkrar konur komist í kastljós fjölmiðla í tengslum við alvarleg sakamál. Þetta eru sögur þeirra.

Svarta perlan eignaði sér vændismarkaðinn

Það vakti gífurlega athygli í febrúar 2009 þegar DV greindi frá því að Catalina Ncogo, rúmlega þrítug kona frá Miðbaugs-Gíneu, ræki vændishús við Hverfisgötu, við hliðina á lögreglustöðinni.

Svarta perlan Catalina Ncogo.

Catalina hafði flust hingað til lands nokkrum árum áður eftir að hafa gifst íslenskum manni. Hún hafði ekki verið búsett lengi hér á landi þegar hún byrjaði að selja sig og á næstu misserum varð hún gífurlega umsvifamikil á íslenskum vændismarkaði.

Fram kom í grein DV að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði rökstuddan grun um að Catalina hefði lífsviðurværi sitt af vændi annarra og stundaði mansal með því að flytja ungar konur til Íslands í því skyni að gera þær út sem vændiskonur.

Fjórar erlendar stúlkur frá Suður-Ameríku seldu sig í íbúðinni við Hverfisgötu. Í samtali við DV sagði Catalina að hún væri „bisnesskona“ sem hefði ekki gert neitt ólöglegt og að stúlkurnar í vændishúsinu hefðu komið hingað til lands á eigin vegum.
Eftir umfjöllun DV var Catalina nánast stöðugt í fjölmiðlum fyrir margs konar brot.

„Ég hefði alveg getað farið að vinna aftur í fiski eða á kassa í Bónus, en takmark mitt var að verða rík og það gerist ekki ef maður vinnur fyrir aðra,“ segir Catalina í bókinni Hið dökka man sem kom út árið 2010. Þá steig hún fram í afar opinskáu viðtali við Vikuna þar sem hún fór hvergi leynt með að hún væri eftirsótt vændiskona hér á landi. Þá sagði hún að fjölmargir háttsettir men í þjóðfélaginu væru á meðal viðskiptavina hennar.

„Ég er svarta perlan og þeir vilja svona Barbie-stelpu. Ég tek aðeins sérstaka kúnna og geri þetta því ekki oft.“

Skömmu eftir umfjöllun DV fór Catalina til Hollands. Hún var síðan handtekin í Leifsstöð við komuna aftur til landsins, þann 19. febrúar 2009, og úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna gruns um mansal og að hafa haft milligöngu um vændi. Einnig var hún grunuð um aðild að fíkniefnainnflutningi en kærasti hennar, Helgi Valur Másson, var handtekinn á Schiphol-flugvelli fyrir innflutning á tíu kílóum af kókaíni í vikunni áður.

Catalina er fyrsta manneskjan á Íslandi sem ákærð er fyrir mansal en hún var síðar sýknuð af þeirri ákæru. Hún hlaut að lokum tæplega fimm ára dóm fyrir hórmang, fíkniefnainnflutning og líkamsárás. Á þeim tíma hafði enginn verið dæmdur fyrir að græða á vændi á Íslandi síðan hegningarlögunum var breytt árið 2007.

Andrea „vonda stelpa“

Andrea Kristín Unnarsdóttir

Í desember 2011 réðst Andrea Kristín Unnarsdóttir, ásamt tveimur öðrum, inn á heimili konu í Hafnarfirði og misþyrmdi henni á hrottalegan hátt. Mennirnir tveir sem voru í för með Andreu voru Jón Ólafsson, kærasti hennar, og Elías Valdimar Jónsson. Um var að ræða hefndaraðgerð vegna skuldar. Einar „Boom“ Marteinsson, fyrrverandi forsprakki vélhjólasamtakanna Hells Angels, Vítisengla, var seinna ákærður fyrir að hafa skipulagt árásina en fólkið var allt talið tengjast samtökunum með einum eða öðrum hætti. Einar var hins vegar sýknaður af ákæru í héraðsdómi.

Árásin átti sér nokkuð langan aðdraganda en fórnarlamb árásarinnar og Andrea höfðu átt í deilum. Við yfirheyrslur hjá lögreglu hélt Andrea því fram að fórnarlambið hefði stolið mótorhjóli sem var í hennar eigu, og sömuleiðis síma sem innihélt nektarmyndir af henni. Þá sagði hún konuna hafa stolið frá henni peningum og hún hefði viljað endurheimta þá. Dagana fyrir árásina voru konurnar tvær í stöðugum samskiptum á Facebook og í gegnum sms-skilaboð.

Þann 22. desember 2011 réðst síðan þríeykið inn í íbúð konunnar og gekk þar skrokk á henni. Lýsingar á því sem átti sér stað í íbúðinni þennan dag eru hroðalegar. Þremenningarnir veittust að konunni og, meðal annars, slógu hana, spörkuðu ítrekað í höfuð hennar, rifu hár hennar upp með rótum, neyddu upp í hana fíkniefnum og hótuðu að klippa af henni fingur. Þá var konan einnig beitt kynferðislegu ofbeldi. Á einum tímapunkti lagði Andrea hníf að hálsi konunnar og tók síðan um háls hennar og þrengdi að. Skildu þau konuna síðan eftir meðvitundarlausa í blóði sínu og læstu hana inni í íbúðinni.

Af vettvangi

Í janúar 2012 var fólkið handtekið í viðamiklum aðgerðum lögreglu en málið var áberandi í fjölmiðlum á sínum tíma. Hlaut Andrea Kristín viðurnefnið „Andrea slæma stelpa.“

Í júní 2012 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur. Jón og Elías fengu fjög­urra ára dóm en Andrea var hins vegar dæmd í fjögurra og hálfs árs fangelsi þar sem hún var talin hafa haft sig mest í frammi í árásinni. Hæstiréttur þyngdi refsinguna og dæmdi Andreu í fimm og hálfs árs fangelsi.

Fréttablaðið heimsótti Andreu í Kvennafangelsið í Kópavogi í nóvember 2012. Þar ræddi hún meðal annars um dætur sínar tvær sem þá voru átta og tíu ára.

„Það er engin leið að gera börnum grein fyrir slíku en ég hef reynt að útskýra fyrir henni að mamma gerði mistök,“ sagði Andrea á einum stað. Þá sagði hún engan leggja upp með að gera einhverjum illt.
„Ég væri ekki mannleg ef ég iðraðist ekki gjörða minna og hef átt erfitt með að horfast í augu við þær allan tímann.“

Hlín og Malín og fjárkúgunarmálið

Hlín Einarsdóttir og Malín Brand sendu tvö fjárkúgunarbréf til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, í maí 2015 og og kröfðust þess að hann greiddi þeim nokkrar milljónir króna ella myndu viðkvæmar upplýsingar um hann verða gerðar opinberar. Upplýsingarnar voru sagðar varða meinta aðkomu Sigmundar Davíðs að sölu DV í lok árs 2014.

Hlín setti fyrra bréfið inn um bréfalúgu á heimili aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs. Seinna bréfið var stílað á eiginkonu Sigmundar og bars inn um lúgu á heimili þeirra hjóna.

Í seinna bréfinu voru einnig nákvæmar leiðbeiningar um afhendingarstað peninganna við Krísuvíkurveg. Systurnar voru síðan handteknar á þeim stað þegar þær komu að sækja pakka sem þær töldu innihalda peningana.

Eftir að málið kom upp lagði fyrrverandi samstarfsmaður Hlínar, fram kæru á hendur systrunum fyrir að hafa haft af honum 700 þúsund krónur, ella yrði hann kærður fyrir að nauðga Hlín.

Í viðtali við Vísi í júní 2015 sagðist Malín ekki hafa komið að því að skipuleggja fjárkúgunina. Sagðist hún hafa verið „blinduð af fjölskyldutengslum.“ Hlín ræddi hins vegar við DV og sagði þetta ekki rétt: Malín hefði haft jafn mikla aðkomu og hún að bæði bréfasendingunni og fjárkúguninni.

Í apríl 2017 voru systurnar dæmdar í 12 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir fyr­ir fjár­kúg­un og til­raun til fjár­kúg­un­ar. Níu mánuðir af dómnum voru skilorðsbundnir.

Malín steig fram í viðtali við DV í janúar síðastliðnum og ræddi meðal annars erfið bernskuár og baráttu hennar við Parkisonsjúkdóminn. Stuttu síðar kom hún fram í viðtali í Íslandi í dag.

„Ég hef sagt, og það var nú gert grín að því í áramótaskaupinu, að ég hafi verið blinduð því þetta var fjölskyldan mín, en meðvirkni er fyrirbæri sem er til og ég bara hugsaði ekki skýrt. Ég var þarna með systur minni og var ekki að hugsa um einhvern ávinning fjárhagslega. Þetta er bara svo fjarri mér, svo innilega fjarri mér. Ég var með henni og það eru mín mistök. Ég tek mjög heimskulegar ákvarðanir að drulla mér ekki í burtu þegar ég hefði getað það,“ sagði Malín í viðtalinu. Þá kom fram að þær systur ættu ekki í neinum samskiptum í dag.

 

„Hún stakk hann, hún stakk hann!“

Kvöld eitt í júní 2017 hringdi Ingibjörg Eva Löve síendurtekið í fyrrverandi kærasta sinn þar sem hann var staddur í heimahúsi í Norðurmýri ásamt þremur vinum sínum og einni konu. Kærastinn fyrrverandi svaraði ekki símanum, en í eitt skiptið lét hann konuna gera það.
Ingibjörg Eva brást við með því að skella á. Skömmu síðar bankaði hún upp á hjá sínum fyrrverandi, grímuklædd í fylgd með öðrum manni. Hún var undir áhrifum fjölda fíkniefna.

Fyrrverandi kærasti Ingibjargar kom til dyra og sló hún hann þá í höfuðið með hafnaboltakylfu, og svo aftur á höndina. Átök brutust út á milli þeirra sem enduðu með því að Ingibjörg stakk manninn í brjóstkassann. Vitni að málinu lýsti því síðar að hann hefði heyrt öskur úr húsinu og tvo karlmenn koma þaðan út en báðir hafi verið blóðugir. Sagðist vitnið hafa heyrt einhvern segja: „Hún stakk hann, hún stakk hann!“. Þá sagðist hann hafa heyrt Ingibjörgu Evu segja við samverkamann sinn:

„Hvar er hnífurinn minn, hvar er kylfan mín?“

Þegar lögregla mætti á svæðið fundust blóðugur hnífur og blóðug kylfa í garðinum fyrir utan húsið.

Þegar Ingibjörg var yfirheyrð hjá lögreglu kom hún með nokkrar mismunandi útgáfur af atburðum kvöldsins. Þá sagðist hún ekki hafa ætlað að drepa sinn fyrrverandi, heldur einungis hræða hann. Sagðist hún hafa rifist við konuna sem svaraði í símann þetta kvöld og að konan hefði haft í hótunum við hana. Ingibjörg sagðist hafa orðið „ógeðslega reið“ og hún kannaðist við að hafa tekið með sér hafnaboltakylfu og raflostbyssu, en kannaðist ekki við hníf.
Árásin þótti afar heiftarleg og taldi dómurinn að Ingibjörgu hefði mátt vera fullljóst að hún hefði getað banað sínum fyrrverandi með þessari atlögu. Í nóvember 2017 hlaut hún fimm ára fangelsisdóm fyrir tilraun til manndráps.

Hótaði að drepa börnin sín

Á seinustu árum hafa komið upp tvö mál hér á landi þar sem konur hafa verið fundnar sekar um alvarlegt ofbeldi gegn börnum.
Í september 2016 var fimm barna móðir dæmd í 18 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hrottalegt ofbeldi gegn börnum sínum. Ofbeldið var bæði andlegt og líkamlegt og stóð yfir í langan tíma. Börn konunnar eru fædd á árunum 2004 til 2013 en það var árið 2005 að tilkynningar fóru að berast til barnaverndar um ofbeldi móðurinnar gegn þeim.

Konan og faðir barnanna áttu allan tímann í stormasömu og ofbeldisfullu sambandi og hann var oft fjarverandi af heimilinu til lengri eða skemmri tíma.
Konan var sakfelld fyrir að hafa ítrekað beitt börn sín andlegum og líkamlegum refsingum, haft í hótunum við þau, ógnað þeim, sýnt þeim vanvirðandi háttsemi og sýnt þeim yfirgang, ruddalegt athæfi, sært þau og móðgað, líkt og fram kemur í dómnum. Fram kemur að hún hafi sparkað í þrjú yngri börn sín, slegið í þau, hrint þeim og togað í hár þeirra. Þá tók hún þau kverkataki, kastaði í þau hlutum og læsti þau fyrir utan heimili þeirra. Henni var einnig gefið að sök að hafa slegið þeim utan í veggi, klipið þau og hótað að drepa þau. Sagði hún að hún „ vildi að þau væru dauð, hún hataði þau og að hún óskaði þess að þau hefðu aldrei fæðst. Þá kallaði hún börnin „hóruunga“, „hálfvita“, „mother fuckera hórur“ og „mellur“.

Faðir barnanna bar vitni og sagði það kraftaverk að ekkert þeirra væri dáið vegna ofbeldisins.

Móðirin krafðist sýknu fyrir dómi og bar fyrir sig að hún hefði átt við geðræna erfiðleika að stríða frá árinu 1998. Óljóst var hvort hún væri haldin svokallaðri jaðarpersónuleikaröskun, en þeir sem hafa þá greiningu eiga oft brengluð samskipti við aðra, þola illa áreiti, sýna af sér áhættuhegðun og eru oft einmana. Hins vegar geta þeir líka á köflum verið alveg eðlilegir. Þá sagði hún málið alfarið byggt á lygum barnsföður hennar og sagði hann vilja eyðileggja líf hennar. Ásakaði hún barnsföður sinn um að heilaþvo börnin. Þá sagði hún tilkynningar nágranna til barnaverndar vera lygar, settar fram í hefndarskyni.

Í mars á seinasta ári var dagmóðir á höfuðborgarsvæðinu sakfelld fyrir líkamsárás á 20 mánaða stúlku sem hafði verið í hennar umsjá ásamt þremur öðrum börnum.

Í október 2016 var litla stúlkan flutt á bráðamóttöku með talsverða áverka. Hélt dagmóðirin því fram að hún hefði komið að stúlkunni liggjandi á gólfinu fyrir aftan IKEA-barnastól í eldhúsinu.

Vakthafandi læknir taldi hins vegar að áverkarnir á stúlkunni væru ekki í samræmi við þá frásögn, en barnið var meðal annars með mar á andliti og hálsi. Málið var tilkynnt til lögreglu.

Erlendir réttarmeinafræðingar sem kallaðir voru til við rannsókn málsins sögðu að ekki væri hægt að útskýra áverkana með einu falli heldur benti flest til þess að litla stúlkan hefði orðið fyrir ofbeldisverknaði líkt og löðrungum og höggum.

Dagmóðirin neitaði alfarið sök í málinu. Þegar málið kom upp hafði hún starfað sem dagforeldri í átta ár og ekki hafði áður borist kvörtun vegna starfa hennar.
Fram kemur í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur að árás fullorðinnar manneskju á höfuð og háls svo ungs barns, sem ekki geti varið sig á neinn hátt, sé að mati dómsins sérstaklega hættuleg líkamsárás sem beindist gegn barni sem konunni hefði verið treyst fyrir í starfi sínu sem dagforeldri. Slíkt hefði getað haft alvarlegar afleiðingar fyrir svo ungt barn og jafnvel valdið lífshættu.

Konan var dæmd í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi og þar að auki gert að greiða hálfa milljón króna í miskabætur.

Draumasamfélag ef karlar myndu hegða sér eins og konur?

Helgi Gunnlaugsson Prófessor í félagsfræði við H.Í.

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við HÍ

Hinn dæmigerði glæpamaður í huga okkar er ungur karlmaður enda er sú raunin í flestum tilvikum. Samkvæmt opinberum skýrslum bæði hér á landi og erlendis eru konur í miklum minnihluta af þeim sem brjóta af sér. Hlutdeild kvenna er þó ólík eftir brotaflokkum. Að jafnaði fremja þær ekki nema 10–30 prósent af öllum hegningarlagabrotum. Brot kvenna tengjast yfirleitt minniháttar auðgunarbrotum, hnupli og þjófnaði, skjalafalsi, vændi og neyslu fíkniefna. Alvarlegir ofbeldisglæpir, meiriháttar auðgunar- og fíkniefnabrot, viðskipta- og pólitískir glæpir, eru mun oftar framdir af körlum.

En konur fremja líka alvarleg brot en bara í minna mæli en karlar. Yfir 80 prósent manndrápa á Íslandi eru framin af körlum, mestmegnis dráp á öðrum körlum. Konur drepa, en yfirleitt einhvern karl sem þær eru í tilfinningasambandi við, stundum í sjálfsvörn, eða sem viðbrögð við langvarandi ofbeldi. Afar fátítt er að þeir sem dæmdir eru fyrir manndráp fremji annað dráp. Hér á landi hefur þó ein kona verið dæmd fyrir tvö manndráp og konur dæmdar fyrir dráp á afkvæmum sínum.

Konur og karlar í fangelsi

Fangelsistölur eru mjög lýsandi veruleiki fyrir þann mun sem er á glæpum kynjanna. Sem dæmi má nefna að hér á landi eru konur að jafnaði innan við tíu í fangelsi á móti um 160 körlum. Hlutföllin eru ekki ósvipuð erlendis.

Ítarlegri greining eftir Helga Gunnlaugsson verður birt í næsta tölublaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Gísli Pálmi fór með ættjarðarljóð á gröf Jónasar Hallgrímssonar

Gísli Pálmi fór með ættjarðarljóð á gröf Jónasar Hallgrímssonar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fanney snerti viðkvæman blett hjá sumum – „Fólk er farið að skuldsetja sig til að eignast þessa hluti, sem er galið“

Fanney snerti viðkvæman blett hjá sumum – „Fólk er farið að skuldsetja sig til að eignast þessa hluti, sem er galið“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þekkt söngkona lést í eldsvoða

Þekkt söngkona lést í eldsvoða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Beggi Ólafs uppljóstrar leyndarmálinu á bak við áhugann á meðan hann talar við bikiníklæddar konur

Beggi Ólafs uppljóstrar leyndarmálinu á bak við áhugann á meðan hann talar við bikiníklæddar konur
Fókus
Fyrir 5 dögum

Björgvin Franz og Berglind selja splunkunýja íbúð

Björgvin Franz og Berglind selja splunkunýja íbúð
Fókus
Fyrir 5 dögum

Svöl íbúð Prettyboitjokko til sölu

Svöl íbúð Prettyboitjokko til sölu