Halla Björg Albertsdóttir er 28 ára gömul. Hún er fjögurra barna móðir. Á stuttri ævi hefur Halla Björg glímt við mikla erfiðleika. Fyrir rúmum tveimur árum eignaðist hún tvíbura með Eiríki Fannari Traustasyni en þá sat hann í fangelsi fyrir hrottalega nauðgun. Eiríkur Fannar fannst meðvitundarlaus í fangaklefa sínum í mars árið 2017. Hann hafði framið sjálfsmorð.
Halla Björg er á meðal viðmælenda í þættinum „Viltu í alvöru deyja?“ á Stöð 2 í kvöld.
Í október 2016 greindi DV frá því að Eiríkur Fannar væri grunaður um að hafa nauðgað stúlku á grunnskólaaldri. Lagði stúlkan fram kæru. Eiríkur hafði þá verið dæmdur í fimm ára fangelsi sumarið 2016 fyrir hrottalega nauðgun í Hrísey sumarið 2015.
Stúlkan, sem er fædd árið 2001, kærði Eirík Fannar fyrir kynferðisbrot. Meint brot áttu sér stað yfir nokkurra mánaða tímabil árið 2015. Á vef RÚV segir að meint brot Eiríks Fannars gegn stúlkunni hafi einnig átt sér stað í Hrísey. Þann 19. Október 2016 greindi DV frá því að Eiríkur hefði fengið tímabundið leyfi frá afplánun og gengi laus. Ástæðan var sögð alvarleg veikindi í fjölskyldu Eiríks.
Eiríkur og unnusta hans eignuðust tvíburadrengi í lok september 2016. Drengirnir komu í heiminn 9 vikum fyrir tímann og var annar tvíburinn í bráðri lífshættu en í byrjun október mánaðar var drengurinn búinn að braggast nokkuð og úr lífshættu.
Brot Eiríks átti sér stað í júlímánuði 2015 og vöktu fregnir af árásinni mikinn óhug. Er brotaþolinn í málinu var 17 ára gömul frönsk stúlka sem stödd var hér á landi sem ferðamaður.
Fyrir dómi gat stúlkan gat ekki lýst því nákvæmlega hver var að verki, en tók eftir því að þetta var karlmaður, íklæddur svörtum regnstakk með hettu sem reimuð var vel að andliti hans, en að hann væri með svart stutt skegg. Hún sagðist hins vegar nokkuð viss um að þetta hafi verið kokkurinn á veitingastaðnum þar sem hún kannaðist við málróm hans. „I‘m really sure that this was the man in the restaurant,“ sagði stúlkan við yfirheyrslu.
Í dómnum kom jafnframt fram að eftir að hafa brotið gegn stúlkunni, fróað sér yfir hana meðal annars, hafi Eiríkur Fannar skvett vatni úr flösku og í framhaldi reynt að þrífa hana. Eftir að Eiríkur var farinn úr húsinu leitaði stúlkan aðstoðar í nærliggjandi húsi.
Við yfirheyrslur bar Eiríkur í fyrstu fyrir sig minnisleysi vegna vímuefnanotkunar en játaði síðar fyrir dómi að hafa ráðist á stúlkuna. Þá staðfesti DNA sýni að sæði í tjaldinu var úr honum. Hlaut hann fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm í Héraðsdómi Norðurlands eystra en Hæstiréttur þyngdi síðar dóminn í fimm ár.
Halla Björg opnar sig um þessa erfiðu lífsreynslu á Stöð 2 í kvöld. Tvíburar Höllu og Eiríks voru veikburða, lágu á vökudeild til að byrja með og öðrum þeirra var ekki hugað líf. Þegar þeir voru rúmlega fimm mánaða áttu hún erfitt símtal við barnsföður sinn úr fangelsinu. Sama dag svipti hann sig lífi.
Hin reynslumikla og virta sjónvarpskona Lóa Pind framleiddi þættina undir nafninu Lóa Productions. Hafa þættirnir vakið mikla athygli. Lóa Pind segir í stuttu myndskeiði sem birt er á Vísi:
„Þegar ég hitti Höllu Björg fyrst var hún í óeigingjarni vegferð. Barnsfaðir hennar nýbúinn að svipta sig lífi og svipta börn þeirra föður. En hún var að búa sig undir að gefa líf.“
Í samtali við Lóu Pind sagði Halla Björg:
„Við vorum búin að eiga samskipti þennan morgun og þá kemst ég að því að hann er kominn aftur í neyslu,“ sagði Halla og bætti við: „Það var rosalegt samviskubit í mér á þessum tíma. Af því að við áttum ekki skemmtilegt símtal.“
Átti Halla Björg erfitt með að halda aftur af tárunum.
Þá sagði Halla Björg einnig:
„Ég var ótrúlega tætt eftir meðgöngu eftir vökudeild og eftir fregnir um að barnið þitt myndi deyja tvisvar.“
DV ræddi við Höllu Björg á síðasta ári. Þar opnaði hún sig um þá erfiðu lífsreynslu að missa Eirík.
„Það er enginn uppskrift að sorg, við eigum að geta syrgt á okkar hátt án þess að nokkur dæmi okkur eða hafi einhverjar skoðanir á því. Þegar maður lendir í áfalli sama hvernig því er háttað, þá þroskumst við og mótumst og áfallið hefur áhrif á líf okkar það sem eftir er. Ég nýti mína lífsreynslu til að gera akkúrat þetta, að skrifa um hana.
Ég vona að ég nái til minnst eins einstaklings með pistlinum mínum. Hins vegar er enginn að fara eftir minni uppskrift ef og þegar hann lendir í áfalli.“
Þá sagði Halla Björg einnig: „Ég fyrirgef honum og hugsa oft til hans, þó það sé sárt.“ Bætti Halla Björg við að hún minntist góðra stunda þeirra og leyfði sér stundum að brosa og hlægja. Hún sagði að lokum:
„Ég vil lifa.“