„Ég líki þessu svolítið við að hætta að borða sykur eða jafnvel að hætta að reykja og drekka, sem ég þekki af eigin raun. Fyrsta vikan var erfið en fljótlega leið mér miklu betur,“ segir leikarinn Arnmundur Ernst Backman í viðtali við Fréttablaðið um þá ákvörðun sína að verða grænkeri. Hann var búinn að daðra við grænkera lífsstílinn lengi en áramótin 2015-2016 stökk hann í djúpu laugina.
„Ég kynntist þessu fyrst hjá bekkjarsystur minni í leiklistarskólanum, Salóme Rannveigu Gunnarsdóttur. Til að byrja með stríddi ég henni og otaði kjötsamlokunni minni framan í hana. Svo kemur á daginn að litla systir mín, Unnur Birna Backman, sem þá var ekki nema fjórtán ára, var farin að daðra við þetta og þá fóru að renna á mig tvær grímur. Ég kynntist kærustu minni og barnsmóður, Ellen Margréti Bæhrenz, haustið 2013. Hún var þá grænmetisæta og talaði mikið um að hana langaði til að fara alla leið og gerast vegan. Áramótin 2015-2016 höfðu fyrrnefndar konur haft þau áhrif á mig að ég ákvað að prófa að gerast grænmetisæta en áttaði mig fljótlega á því að ég þyrfti litlu að breyta til að fara alla leið, enda var ég þegar búinn að taka út mjólkurvörur þar sem þær fóru illa í mig. Það eina sem ég átti eftir að taka út var viðbætt mjólkurprótein og það var lítið mál.“
Fyrst um sinn endurskoðaði Arnmundur mataræðið vegna heilsufarssjónarmiða.
„Í mínu tilfelli voru það upphaflega heilsufarsástæður sem knúðu mig áfram en ég hafði hlustað á lækni færa mjög góð rök fyrir því að marga af helstu heilsukvillum Vesturlandabúa mætti að einhverju leyti rekja til neyslu á dýraafurðum og þá einna helst á unninni kjötvöru, ostum og annarri mjólkurvöru. Hvað umhverfissjónarmiðin snertir er margbúið að sýna fram á það að menn stórminnka kolefnisspor sitt með því að stíga þetta skref. Siðferðisþátturinn vegur svo kannski einna þyngst og hann heldur manni við efnið,“ segir Arnmundur og bætir við: „Áður en ég gerðist vegan var ég ekki haldinn neinu sérstöku samviskubiti yfir meðferð á dýrum en ég held að við flest og þar með talið ég séum haldin ákveðnu siðrofi sem tekur á sig margs konar myndir. Sem dæmi vitum við að margir vinsælir fata- og farsímaframleiðendur framleiða vörur sínar við ófullnægjandi aðstæður þar sem illa er farið með starfsfólk en kaupum þær engu að síður. Það sama á við um ýmislegt sem við látum ofan í okkur.“
Lengi vel var Arnmundur eini leikarinn í sinni kreðsu sem var vegan.
„Ég var eini veganinn í Þjóðleikhúsinu fyrir ekki svo löngu og var gaman að ræða þessi mál við skoðanaheita kollega. Mér var þó sýnt mikið umburðarlyndi og get ekki sagt að það hafi verið nein þrekraun að vera eini veganinn í leikhúsinu.“
Arnmundur hætti að drekka þegar hann útskrifaðist úr leiklistarskólanum árið 2013 og segir í Fréttablaðinu að það hafi verið nauðsynlegt skref fyrir sig að taka.
„Ég var bara að fara mér að voða og þá er stundum nauðsynlegt að segja stopp,“ segir hann og bendir á að karakterinn sem hann leikur í gamanþáttaseríunni Venjulegt fólk í Sjónvarpi Símans sé skrifaður eftir sér.
„Hann er edrú og vegan og fengu höfundarnir fullt leyfi til að gera eins mikið grín að honum og þeir vildu.“
Þá talar hann mikið um konurnar í sínu lífi sem hafa haft gríðarlega góð áhrif á hann.
„Ég hef almennt verið mjög heppinn með konurnar í lífi mínu og án þess að gera lítið úr uppeldishlutverki föður míns eru það án efa móðir mín, Edda Heiðrún Backman, litla systir og Ellen sem hafa haft hvað mest áhrif á mig,“ segir hann og bætir við að kvenlæg gildi séu honum hugleikin. „Mér finnst svo gott að það sé verið að opna umræðuna um mikilvægi þeirra og er það að mínu mati annað dæmi um jákvæða breytingu sem er að eiga sér stað með minni kynslóð. Ég held að við karlmenn höfum mjög gott af því að tileinka okkur ýmis kvenlæg gildi og þurfum meðal annars að vera óhræddir við að ræða tilfinningar okkar eins og vinur minn Aron Mola hefur opnað á. Með því held ég að við getum til dæmis spornað við ofneyslu vímuefna og sjálfsvígum sem eru allt of algeng á meðal ungra manna.“