fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Vilhjálmur segir sorglegt hvernig Gylfi Zoega talar: „Er það skarkali og róttækni að vilja létta skattbyrðinni af þeim tekjulægstu?“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 17. desember 2018 13:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og 1. varaforseti ASÍ, vandar Gylfa Zoega, professor í hagfræði og meðlimi í peningastefnunefnd Seðlabankans, ekki kveðjurnar. Tilefnið er viðtal við Gylfa í Sprengisandi á Bylgjunni í gær þar sem hann vék orðum sínum að verkalýðsforystunni hér á landi.

Ekki er langt síðan Gylfi skrifaði grein í tímaritið Vísbendingu þar sem hann varaði við róttækni verkalýðsforystunnar. Sagði hann að afleiðingar hennar gætu orðið slæmar.

„Kurteisisleg ábending“

„Þessi grein var kurteisleg ábending til verkalýðsforingja að nú væri nóg komið. Það væri komin þessi 12% gengisveiking. Það er ekki innistæða fyrir mikið meiri gengisveikingu,“ sagði Gylfi en Vísir fjallaði um þessi ummæli hans í frétt í gær.

Sagði Gylfi að staða efnahagsmála hér á landi væri nokkuð góð; olíuverð væri á niðurleið, ferðamannastraumurinn væri enn mikill og viðskiptakjör hefðu batnað. Gylfi virðist þeirrar skoðunar að verkalýðsforystan, það hvernig hún talar, geti haft mikil áhrif á gengi krónunnar.

„En þessi skarkali getur hæglega orðið til þess að krónan veikist enn meira í vetur, sem bitnar mest á umbjóðendum verkalýðsfélaganna, sem er almenningur í landinu. Frekari gengisveiking mun þá auka hagnað fyrirtækjanna og minnka kaupmátt launafólks. Það er óþarfi. Svo þetta var kurteislega ábending að í þessu kerfi sem við erum núna, verðum við að standa saman til þess að heildarútkoman sé ekki slæm,“ sagði Gylfi í viðtalinu og bætti við að mikilvægt væri að kveikja ekki elda heldur vinna saman og spyrja hvar skóinn kreppi.

„Ef að það eru stálin stinn alls staðar þá bitnar það á þessum hlutum. Krónan fer niður, kaupmáttur þess fólks sem við viljum bæta versnar.“

Svarar Gylfa fullum hálsi

Vilhjálmur skrifaði nokkuð harðorða grein á Facebook-síðu sína í gærkvöldi þar sem sagði Gylfa til syndanna.

„Það er sorglegt þegar það virðist vera orðið að aðalstarfi hjá hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands að lemja niður kjarasamningskröfur verka-og lágtekjufólks á íslenskum vinnumarkaði,“ sagði Vilhjálmur sem spurði svo nokkurra spurninga:

„Er það róttækni að krefjast þess að lágmarkslaun dugi fyrir framfærsluviðmiðum sem Velferðaráðneytið hefur gefið út?

Er það róttækni að vilja að samið verði í krónutölum en ekki í prósentum? Enda liggur fyrir að prósentuhækkanir er aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og eykur á ójöfnuð.

Er það róttækni að vilja ráðast í þjóðarátak í húsnæðismálum og taka á þeirri okurleigu sem lágtekjufólk er gert að þola?

Er það róttækni að kalla eftir því að tekið verði á þeim okurvöxtum, verðtryggingu og að húsnæðisliðurinn sé inní lögum um vexti og verðtryggingu? Rétt er að geta þess að í nýlegri skoðunarkönnun sem gerð var vegna Hvítbókarinnar kom fram að Íslenska bankakerfið fær falleinkunn – Háir vextir, dýrt, okur, glæpastarfsemi, spilling og græðgi eru orðin sem flestum dettur fyrst í hug.

Er það róttækni að krefjast þess að tekið verði á þessari falleinkunn sem bankakerfið fékk?

Er það skarkali og róttækni að vilja létta skattbyrðinni af þeim tekjulægstu? En verkafólki á 300.000 kr. lágmarkslaunum er gert að greiða 53.000 skatt, eða með öðrum orðum það er verið að skattleggja fátækt.“

 

Vilhjálmur sagði það sorglegt að aðili í fræðasamfélaginu og peningamálanefnd Seðlabankans skuli voga sér að skipta sér af kjarabaráttu verkafólks. Gylfi hafi ítrekað gert það.

„Og ég vil minna þennan ágæta hagfræðiprófessor á að íslensk verkafólk á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki farið í verkafall í rúm 20 ár til að knýja fram réttlæti á sínum réttindum.“

Vilhjálmur endar svo pistilinn á þessum orðum:

„Þessu til viðbótar er það sorglegt að Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands skuli voga sér að reyna að kenna kröfugerð verkafólks um að krónan hafi fallið um 12% enda veit hann vel að hvorki kröfugerðin, né rótækni eða skarkali verðlýðsleiðtoga hafa ekkert með þá gengisfellingu að gera.

Ég man ekki eftir að Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands hafi verið að gagnrýna fjármálakerfið fyrir hrun þegar bankakerfið leik sér að því að styrkja og fella krónuna til skiptis allt til að hagnast sem mest og það á kostnað almennings eins og allir vita í dag.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“