fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Þau hlutu Menningarverðlaun DV

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 6. október 2018 14:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Menningarverðlaun DV voru veitt við hátíðlega athöfn í gær í höfuðstöðvum Frjálsrar fjölmiðlunar við Suðurlandsbraut. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1979 fyrir framúrskarandi árangur á menningarsviðinu. Í þetta skiptið voru verðlaunin veitt í sjö flokkum; leiklist, tónlist, kvikmyndum, myndlist, bókmenntum, fræðiritum og stafrænni miðlun auk sérstakra heiðursverðlauna.

Þá voru einnig af­hent verðlaun þeim sem fékk flest at­kvæði meðal al­menn­ings í net­kosn­ingu þar sem al­menn­ingi gafst kost­ur á að velja úr hópi allra þeirra sem til­nefnd­ir voru í öll­um flokk­um.

Eftirfarandi einstaklingar og hópar hlutu Menningarverðlaun DV 2017:

Leiklist: Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Gísli Örn Garðarsson og Ólafur Egill Egilsson fyrir Elly í uppfærslu Vesturports og Borgarleikhússins.

Niðurstaða dómnefndar:

Lífshlaupi einnar dáðustu dægurlagasöngkonu landsins eru gerð framúrskarandi skil í hugvitsamlegu handriti Gísla Arnar og Ólafs Egils. Þar gegnir tónlistin lykilhlutverki, en höfundarnir hafa valið ríflega fjörutíu lög frá ferli Ellyjar sem flutt eru að hluta eða í heild til að skapa réttu stemninguna hverju sinni. Gísli Örn heldur sem leikstjóri utan um alla þræði uppfærslunnar af miklu öryggi og sterkri listrænni sýn þar sem hjartað og húmorinn ráða ríkjum í þeim leikhúsgaldri sem skapaður er. Katrín Halldóra geislar í hlutverki Ellyjar, enda býr hún yfir miklum sviðssjarma, góðum kómískum tímasetningum og stórkostlegri rödd sem snert hefur streng í hjarta þjóðarinnar.

Tónlist: Hljómsveitin HAM fyrir lagið Söngvar um helvíti mannanna.

HAM er ein merkasta rokkhljómsveit Íslands og þau ár sem hún gefur út breiðskífur fullar af nýju efni eru einfaldlega betri ár en önnur. Þessi tíu laga breiðskífa er unnin í samvinnu við upptökustjórann Arnar Guðjónsson, sem einnig hefur unnið með ekki ómerkari tónlistarmönnum og Leaves, Kaleo og Árstíðum, og hljómurinn er gjörsamlega skotheldur. Söngvar um helvíti mannanna er nútíma sinfónia skrifuð og flutt af rokksveit þar sem gítarar og bassar spinna dimman og drungalegan, en á sama tíma ægifagran, rokkvef sem erfitt verður að toppa.

Kvikmyndir: Hafsteinn Gunnar Sigurðsson og Huldar Breiðfjörð fyrir Undir Trénu.

Undir trénu er kolsvört, dramatísk kómedía um myrkari hliðar samskiptaleysis og nágrannaerja. Kvikmyndin er skrifuð af þeim Huldari Breiðfjörð og Hafsteini Gunnari Hafsteinssyni, leikstjóra myndarinnar. Vakti myndin mikla athygli í fyrrahaust. Í sögunni tvinnast saman grín og harmleikur með áreynslulausum hætti. Hvergi er feilnóta slegin í þessu magnaða verki. Edda Björgvinsdóttir er þó óumdeild stjarna myndarinnar og hefur aldrei verið betri.

 

Myndlist: Finnur Arnar Arnarson og Áslaug Thorlacius fyrir frumlega uppsetningu á vídeóverkum í gömlu fjárhúsunum á bænum Kleifum.

Listamenn sem áttu verk á sýningunni voru Olga Bergmann, Anna Hallin, Dodda Maggý, Ragnar Kjartansson og Egill Sæbjörnsson. Um var að ræða fjögur vídeóverk sem sýnd voru hvert í sinni kró fjárhúsanna. Hjónin endurtóku svo leikinn í sumar þegar listsýningin Inniljós var opnuð í útihúsunum. Ætla hjónin að halda áfram að glæða menningarlífið í sveitinni.

Bókmenntir:  Eiríkur Örn Norðdahl fyrir Óratorrek.

Óratorrek: ljóð um samfélagsleg málefni, er óþægilega skemmtileg og skemmtilega óþægileg bók sem sækir innihald sitt í þann flaum skoðana og viðbragða við nútímanum sem við syndum og hrærum öll í. Eiríkur Örn Norðdahl vinnur á spennandi hátt með persónulega leið til að binda mál sitt. Endurtekningar, viðsnúningar, tilbrigði og viðlög halda textunum saman, lauslega þó og textinn vinnur vel það verkefni ljóðsins að koma hreyfingu á huga lesandans og fá honum verkefni til úrlausnar.

Fræðirit: Steinunn Kristjánsdóttir fyrir Leitina að klaustrunum.

Leitin að klaustrunum er glæsilegt verk þar sem gerð er ítarleg grein fyrir rannsóknum höfundar og aðstoðarmanna hennar á sviði fornleifafræði. Auk lýsinga á vettvangi er vísað til fjölda tiltækra heimilda. Bókin er skrifuð á skýru og aðgengilegu máli og bregður upp lifandi myndum, bæði af sögu klausturhalds á Íslandi og af starfi fornleifafræðinga. Mjög er vandað til útgáfunnar sem prýdd er fjölda mynda, teikninga og korta. Útgefandi: Sögufélag, í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

Stafræn miðlun: Björk Guðmundsdóttir.

Björk notar stafræna miðla til fulls og hrífur notanda með sér á fallegan og tæran hátt. Hún nýtir alla anga tækninnar til að koma list sinni á framfæri, sem og tengdum verkefnum. Hún vekur áhuga á listsköpun sinni og þeirri sýn sem hún hefur á veröldina.

Sigurvegarar netkosningar: Ragnar Bragason, Margrét Örnólfsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir og Nína Dögg Filippusdóttir fyrir sjónvarpsþáttaröðina Fangar.

Fangar sópuðu til sín verðlaunum á síðustu Edduhátíð og er það engin furða. Leikarahópurinn var sterkur, handritið beitt og Ragnar Bragason gætti þess að gefa öllum rými til að njóta sín. Í þáttunum sýndi Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir einnig að hún er ein okkar fremsta leikkona.

Heiðursverðlaunin hlaut Eiríkur Rögnvaldsson fyrir framlag til íslenskra málvísinda og tungu. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti Eiríki heiðursverðlaunin.

Íslensk menning væri ekki til ef ekki væri fyrir tungumálið. Fáir ef nokkrir hafa eflt íslenska málvitund og hjálpað til við að halda tungumálinu lifandi og Eiríkur Rögnvaldsson. Eiríkur kenndi málvísindi og íslensku við Háskóla Íslands í 37 ár, 25 af þeim sem prófessor. Nú nýtur hann lífsins sem emerítus og getur stoltur litið til baka yfir farsælan feril. Auk kennslu hefur hann skrifað fræðigreinar og bækur um málfræði, hljóðfræði og annað sem tengist íslenskri tungu. Eiríkur er margverðlaunaður og hlaut meðal annars riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2017. Eiríkur hefur ávallt verið meðvitaður um að tungan verði að aðlagast til að lifa af. Hefur hann því til dæmis beitt sér fyrir eflingu tungumálsins í hinum stafræna heimi og tekið inn nýtt persónufornafn inn í beygingarfræðina til að ná utan um fólk sem skilgreinir sig sem kynsegin. Framlag Eiríks til íslenskrar menningar er því ómetanlegt.

Fáir ef nokkrir hafa eflt íslenska málvitund og hjálpað til við að halda tungumálinu lifandi og Eiríkur Rögnvaldsson.
Gísli Örn Garðarsson, Ólafur Egill Egilsson og Katrín Halldóra Sigurðardóttir tóku á móti verðlaunum í flokki leiklistar fyrir leiksýninguna Elly.
Hafsteinn Gunnar Sigurðsson tók við verðlaunum í flokki kvikmynda fyrir Undir trénu. Þeir Huldar Breiðfjörð voru saman tilnefndir fyrir þessa hnyttnu og kolsvörtu kómedíu.
Steinunn Kristjánsdóttir hlaut verðlaun fyrir fræðiritið Leitin að klaustrunum.
Lesendur DV völdu Fanga sem sigurvegara
Silja Aðalsteinsdóttir, höfundur og bókmenntafræðingur, kynnti sigurvegarann í leiklist.
Lilja Alferðsdóttir kynnti og afhenti heiðursverðlaunin.
Stefán Magnússon var formaður dómnefndar í flokknum tónlist.
Hildigunnur Þráinsdóttir
Þorgeir Tryggvason kynnti sigurvegara í bókmenntum
Högni Egilsson sá um lifandi tónlistarstemningu athafnarinnar.
Erlingur Óttar Thoroddsen, leikstjóri kvikmyndarinnar Rökkur, í góðu spjalli.

Silja Björk Huldudóttir og Bryndís Loftsdóttir ræða málin

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Í gær

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Í gær

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“
Fréttir
Í gær

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd