fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Bruðl í Krýsuvík: Keypti glænýjan lúxusbíl fyrir son sinn – 8.5 milljónir

Bíllinn var settur á sölu um leið og DV spurðist fyrir um bílamál samtakanna

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 26. janúar 2018 09:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lovísa Christiansen, framkvæmdastjóri Meðferðarheimilisins í Krýsuvík og stjórnarmaður Krýsuvíkursamtakanna, lét samtökin greiða átta og hálfa milljón króna fyrir glænýjan pallbíl handa syni sínum, Þorgeiri Ólasyni. Þorgeir starfar sem forstöðumaður meðferðarheimilisins. Glæsikerran var keypt í maí í fyrra. Þá greiddu Krýsuvíkursamtökin yfir hálfa milljón í breytingar á bílnum. Var því greitt vel á tíundu milljón fyrir bílinn handa forstöðumanni lítillar meðferðarstöðvar. Krýsuvíkursamtökin fengu 112 milljónir af almannafé á síðasta ári og hefur stjórnarformaðurinn, Sigurlína Davíðsdóttir, víða, bæði í ræðu og riti, talað um hversu litla fjármuni samtökin hafa á milli handanna. Tryllitækið sem Þorgeir forstöðumaður fékk frá framkvæmdastjóranum móður sinni kostaði því um 10 prósent af þeim fjármunum sem samtökin fengu á fjárlögum frá ríkinu á síðasta ári.

DV spurðist fyrir um bílakaup Krýsuvíkursamtakanna til handa forstöðumanni í síðustu viku. Sigurlína vildi ekki svara spurningu DV um hið rándýra ökutæki. Daginn eftir að DV forvitnaðist um málið var bíllinn settur á sölu hjá bílasölunni Heimsbílar. Hvorki framkvæmdaráð né aðrir stjórnarmenn en þær Lovísa og Sigurlína vissu af bílakaupunum. Starfsmenn voru furðu lostnir að svo dýr bíll væri keyptur fyrir peninga ríkisins fyrir jafnlítinn vinnustað. Aðrir starfsmenn heimilisins ferðast saman til Krýsuvíkur, í ódýrum skrjóðum, og hefur staðgengill Þorgeirs, undanfarin misseri, tekið fram að hún þurfi ekki sérstakan vinnubíl heldur ferðist með öðrum starfsmönnum. Þá hefur DV heimildir fyrir því að fjárhagsstaða samtakanna hafi verið svo slæm að ekki voru keypt nagladekk undir bíl sem flytur starfsmenn milli staða. Á svipuðum tíma voru stærri dekk keypt undir lúxusbíl Þorgeirs fyrir um 300 þúsund krónur. „Bíllinn er af tegundinni Dodge Power Wagon og er stærsta gerð af pallbílum. „Efnaðir menn kaupa svona bíla,“ segir einn heimildarmanna DV.

Bíllinn kostaði 8,5 milljónir króna en síðan var umtalsverðum upphæðum eytt í breytingar. Þá keyptu samtökin stærri dekk fyrir 300 þúsund krónur undir bílinn en á sama tíma var ekki til peningur fyrir nagladekkjum undir bíl sem flutti starfsmenn og skjólstæðinga á meðferðarheimilið.
Glæsikerra Bíllinn kostaði 8,5 milljónir króna en síðan var umtalsverðum upphæðum eytt í breytingar. Þá keyptu samtökin stærri dekk fyrir 300 þúsund krónur undir bílinn en á sama tíma var ekki til peningur fyrir nagladekkjum undir bíl sem flutti starfsmenn og skjólstæðinga á meðferðarheimilið.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Samkvæmt heimildum DV voru bílakaupin réttlætt fyrir stjórn samtakanna með því að Þorgeir myndi annast neyðarsíma samtakanna á kvöldin og bregðast við ef eitthvað kæmi upp á í Krýsuvík. Eins og komið hefur fram í umfjöllun DV eru skjólstæðingar meðferðarheimilisins, sem eru venjulega 20–22 talsins, einir í húsinu frá klukkan 16.00 dag hvern og til morguns. Þá eru þeir einnig einir í húsinu allar helgar. Rétt er að geta þess að við þetta fyrirkomulag hefur Landlæknisembættið gert alvarlegar athugasemdir.

„Þorgeir hefur ekki séð um neyðarsímann lengi. Hann kom því yfir á einn ráðgjafa á virkum kvöldum og síðan hefur sá ráðgjafi sem er á bakvakt um helgar séð um neyðarsímann þá. Starfsmenn voru afar hneykslaðir yfir þessari fjárfestingu og hún var gerð á fölskum forsendum,“ segir fyrrverandi starfsmaður í samtali við DV.

Hefur bíllinn lítið sést á svæðinu þar sem Þorgeir forstöðumaður hefur haldið sig til hlés síðustu mánuði.
Á síðustu stjórnarfundum Krýsuvíkursamtakanna hefur verið rætt að ráða lögfræðinga til að bregðast við ef farið verði fram á bætur vegna meintra kynferðisbrota Björns Ragnarssonar. DV hefur einnig heimildir fyrir því að samtökin hafi ráðið almannatengil til að bregðast við neikvæðri fjölmiðlaumfjöllun.

„Það sem þær óttast er að einhver nýr taki við sem framkvæmdastjóri Krýsuvíkursamtakanna,“ segir einn af mörgum heimildarmönnum DV. „Það eru nokkrir starfsmenn sem eru ákveðnir í að segja af sér ef Þorgeir kemur aftur en æðstu menn ætla að bíða þennan storm af sér og þegja allt í hel.“

Samþykkti að kaupa tæplega 10 milljóna króna glæsikerru handa syni sínum, forstöðumanninum Þorgeiri Ólasyni. Það eru tæplega 10 prósent af árlegu  heildarframlagi ríkisins til Krýsuvíkur. Á sama tíma hefur talsmönnunum meðferðarheimilisins verið tíðrætt opinberlega um fjárskort.
Lovísa Christiansen Samþykkti að kaupa tæplega 10 milljóna króna glæsikerru handa syni sínum, forstöðumanninum Þorgeiri Ólasyni. Það eru tæplega 10 prósent af árlegu heildarframlagi ríkisins til Krýsuvíkur. Á sama tíma hefur talsmönnunum meðferðarheimilisins verið tíðrætt opinberlega um fjárskort.

Neita að svara

Þorgeir Ólason forstöðumaður hefur verið sakaður um óeðlileg samskipti við kvenkyns skjólstæðinga. Eftir umfjöllun DV undanfarnar vikur var Þorgeir sendur í tveggja mánaða sumarfrí. Þá hafa þrír aðrir karlkyns starfsmenn á síðustu árum, samkvæmt heimildum DV, verið sakaðir um kynferðislega áreitni í garð sjúklinga.

Sigurlína Davíðsdóttir svaraði nokkrum spurningum DV eftir fyrstu umfjöllun blaðsins. Bar hún þá mikið lof á meintan kynferðisbrotamann sem fékk annað tækifæri á meðferðarstöðinni þrátt fyrir að hafa brotið af sér í starfi. Ekki leið á löngu þar til hann hafði verið sakaður um mjög alvarlegt kynferðisbrot og var vikið úr starfi.

Sigurlína er nú hætt að svara DV en hún og Lovísa Christiansen eru sakaðar um að þagga málið niður í stað þess að taka á þeim alvarlegu vandamálum sem upp eru komin. Þá hafa þær einnig sett sig í samband við fyrrverandi skjólstæðinga sem var vísað burt vegna brota og spurt þá um upplifun þeirra á meðferðinni og boðað á fund til að ræða reynslu þeirra frekar. Finnst skjólstæðingum að með þessu athæfi séu stjórnendurnir að freista þess að þagga málið niður. Skjólstæðingar eru ekki einir um það, starfsmönnum og einstaka stjórnarmönnum sem og fyrrverandi stjórnarmönnum finnst illa tekið á þeim málum sem upp hafa komið. Upplifun þeirra nú er að þagga eigi málið niður. Nýverið sagði stjórnarmaður af sér, en honum fannst samvisku sinnar vegna ekki hægt að sitja í stjórn sem færi illa með almannafé og ætlaði að stinga öllu óþægilegu undir stól. Þess ber að geta að Sigurlína hefur lýst því yfir að umfjöllun DV sé ósanngjörn og óvægin í hennar garð.

Það eru nokkrir starfsmenn sem eru ákveðnir í að segja af sér ef Þorgeir kemur aftur en æðstu menn ætla að bíða þennan storm af sér og þegja allt í hel.

Bjarga mannslífum

Það er óhætt að segja að krísa sé í Krýsuvík. DV hefur fjallað ítarlega á síðustu vikum um alvarlega bresti sem virðist vera á stjórn Meðferðarheimilisins í Krýsuvík. Gagnrýnin beinist helst að stjórnarformanninum Sigurlínu Davíðsdóttur, framkvæmdastjóranum og stjórnarmanninum Lovísu Christiansen, og forstöðumanninum Þorgeiri Ólasyni, syni Lovísu.

Margir heimildarmenn segja þó á að heimilið og meðferðin sem þar fer fram hafi gagnast mörgum í gegnum tíðina.

„Það er margt vel gert í Krýsuvík og meðferð hefur bjargað mannslífum. Mörg okkar tengjast staðnum sterkum böndum,“ segir fyrrverandi skjólstæðingur. Ráðgjafi sem DV ræddi við tekur í svipaðan streng og segir nauðsynlegt að fjarlægja hin skemmdu epli sem séu efst í valdastiganum. „Ráðgjafar hafa flestir unnið mjög gott starf og bjargað mannslífum þarna inni. Þó hafa komið upp óafsakanleg atvik í tengslum við suma starfsmenn og yfirstjórnin hefur haldið afar illa á spilunum. Í stað þess að gangast við athæfinu og uppræta það þá er öllu sópað undir teppið,“ segir einn af mörgum viðmælendum DV. Hann segir enn fremur að afar óheilbrigt sé að allur rekstur samtakanna sé í höndum lítillar fjölskyldu. „Það bíður bara upp á spillingu og vanhæfni,“ segir viðmælandinn.

Landlæknir hefur gert alvarlegar athugasemdir við hvernig meðferðarheimilið er rekið. Stjórnendur hafa hreykt sér af því að hafa náð góðum árangri. Samkvæmt heimildum DV voru það nemar við Háskóla Íslands, og nemendur Sigurlínu Davíðsdóttur stjórnarformanns, sem sáu um að framkvæma könnunina um árangurinn. Landlæknisembættið virðist hafa tekið könnun nemendanna sem sögð er framkvæmd af nemum Sigurlínu sem vísindalegum niðurstöðum í stað þess að skoða hana með gagnrýnum augum.

Aldrei sá ég hann taka strákana í einkaviðtöl eða bíltúra

Umdeildur forstöðumaður

Þorgeir Ólason er fimmtugur. Hann er sagður hafa átt í óeðlilegum samskiptum við kvenkyns skjólstæðinga. Heimildarmenn DV segja allir að Þorgeir hafi eingöngu sýnt stúlkum áhuga og tekið þær á einkafundi án samráðs við þann ráðgjafa sem var ábyrgur fyrir meðferðinni og farið með þær í bíltúra.
Einn heimildarmanna DV segir að stúlka hafi verið kölluð drusla af frænku Þorgeirs eftir að hann var sakaður um að eiga í sambandi við hana.

„Aldrei sá ég hann taka strákana í einkaviðtöl eða bíltúra,“ segir einn heimildarmanna DV sem starfað hefur á Krýsuvík og þekkir þar vel til. Hann segir að ráðgjafar og annað starfsfólk hafi óskað eftir að Þorgeir yrði látinn fara. „Ráðgjafar Krýsuvíkur er flott fólk, og það er ekki rétt að þeir séu ómenntaðir eins og kom fram í fyrri umfjöllun ykkar. Allir ráðgjafar frá 2010 hafa IC&RC próf, Nordic Baltic alþjóðavottun, NLP master practition og einn er meira segja með meistarapróf úr háskóla. Þetta veit ég bara af því skírteinin þeirra hanga uppi á vegg. Flest þessara eru samt hætt í dag nema einn. Þessu fólki var einfaldlega nóg boðið.“

Það voru ekki síst undanþágur þeirra skjólstæðinga sem voru í náðinni hjá Þorgeiri sem fóru fyrir brjóstið á starfsmönnum. „Inni á svona meðferðarheimili verður eitt yfir alla að ganga. Það skapar mikinn óróa ef sumir fá að beygja reglurnar.“ Sem dæmi þá nefnir viðkomandi að Þorgeir hafi leyft stúlku, sem hann bar tilfinningar til, leyfi til að vera með farsíma á sér. Gengur það þvert á reglur samtakanna.

Mál Þorgeirs hefur verið ítrekað rætt á stjórnarfundum undanfarin misseri. DV óskaði eftir svörum frá Sigurlínu vegna framkomu Þorgeirs í garð kvenkyns sjúklinga. Um það sagði Sigurlína: „Forstöðumaðurinn er nú búinn að upplýsa mig og aðra í stjórninni um þetta mál, sem er allt mjög erfitt og leiðinlegt.“

Þorgeir á nú í sambandi við stúlku sem er um 25 árum yngri en hann en þau kynntust á AA-fundum. Hún hafði verið án áfengis í tvo mánuði þegar samband þeirra hófst. Á Krýsuvík og á fleiri meðferðarstöðvum er lögð áhersla á það að hefja ekki strax ástarsamband á fyrstu mánuðum edrúmennskunnar og hafa ráðgjafar og fleiri skjólstæðingar gagnrýnt að Þorgeir fari gegn því sem hann predikar sjálfur á sínum meðferðarstað. Samkvæmt heimildum DV býr stúlkan í bílskúr á lóð móður Þorgeirs.

„Þorgeir hefur staðið í sambandinu við nýliðann fyrir framan framkvæmdastjórann á Krýsuvík í garðinum hjá mömmu sinni,“ segir fyrrverandi starfsmaður sem þekkir vel til AA-samtakanna. „Tilfinningasamband, viðskipti og kynlíf, þetta getur reynst hættulegt á fyrstu mánuðum edrúmennskunnar. Fíklar bera mikið traust til ráðgjafa og það er hrein misnotkun ráðgjafa að fara út fyrir atvinnuhlutverk gagnvart þeim. Brot gegn þessu getur kostað skjólstæðing lífið. Þeir geta byrjað aftur að drekka og dáið.“

Sigurlína Davíðsdóttir er sökuð um að reyna að þagga niður umræður um óþægileg mál í starfi meðferðarheimilisins.
Stjórnarformaður Krýsuvíkursamtakanna Sigurlína Davíðsdóttir er sökuð um að reyna að þagga niður umræður um óþægileg mál í starfi meðferðarheimilisins.

Sumarfrí í janúar

Þorgeir hefur eins og áður segir verið sendur í tveggja mánaða sumarfrí í janúar í kjölfar umfjöllunar DV. Þorgeir hafði lítið sést á svæðinu síðustu mánuði eftir meint óeðlileg samskipti hans við skjólstæðing. „Hann hefur áður farið í leyfi þegar gustar um hann. Þau ætla að bíða af sér storminn og þá snýr hann til baka,“ segir fyrrverandi ráðgjafi sem telur að viðvera Þorgeirs hafi skemmt fyrir öllu meðferðarstarfi. „Hann kemur af og til á meðferðarheimilið og veður þá inn eins og að hann eigi staðinn. Hann veit ekkert hvað er búið að vera í gangi og þekkir fáa skjólstæðinga. Síðan handvelur hann eina og eina stúlku sem hann ætlar að bjarga, án samráðs við þá sem eru ábyrgir fyrir meðferðinni,“ segir viðmælandinn. Viðvera Þorgeirs hafi því verið til trafala og herma heimildir DV, eins og áður segir, að margir starfsmenn hafi sagst ekki geta starfað undir hans stjórn.

Bílaæði í Krýsuvík

Þorgeir hefur haft nokkra bíla til umráða í Krýsuvík og hefur í tvígang verið skráðir fyrir bílum sem samtökin hafa átt áður. DV spurði Sigurlínu út í þau viðskipti en hún neitaði að svara spurningunum. Þá hefur Þorgeir, eins og áður segir, haft til umráða glæsikerruna sem kostaði með breytingum á tíundu milljón. Á meðan Þorgeir ók um á breyttum bíl var mikill hiti í starfsmönnum sem ferðuðust saman til Krýsuvíkur á hverjum morgni á mun eldri bíl og hafði verið neitað um nagladekk. Skýringin var auraleysi.

„Það er ógerningur að selja þennan bíl. Hann nýtist í að draga gröfur á milli staða og er flottur í að ferja mótorhjól Þorgeirs þegar hann er að leika sér. Stjórnin vissi ekki um þessi kaup,“ segir einn heimildarmanna DV. „Ný dekk voru borguð með kreditkorti samtakanna og þegar kokkurinn fór í búðina að kaupa inn kom höfnun á kortið. Það er alltaf milljón á kortinu.“

Sigurlína segir ekki sannleikann

Sigurlína Davíðsdóttir hefur rekið Krýsuvík af miklu harðfylgi. Hún er eins og áður segir formaður Krýsuvíkursamtakanna. Hún hefur stofnað stað sem mörgum fyrrverandi skjólstæðingum þykir vænt um og verja eins og kirkjuna sína ef þeim finnst á meðferðarstarfið hallað í fjölmiðlum. Sigurlína hefur orðið uppvís að því í samskiptum við blaðamenn DV að fara frjálslega með sannleikann.

Ein af mörgum athugasemdum Landlæknis árið 2016 var að ekki lægi fyrir gæðahandbók. Við því var ekki brugðist. Sigurlína heldur fram að búið sé að gera gæðahandbók og ráðgjafar hafi verið hafðir með í ráðum. Fyrrverandi ráðgjafar og stjórnarmenn fullyrða að gæðahandbókin sé ekki til. Annar heimildarmaður segir að til séu drög að bókinni en í hana hafi verið nýtt efni héðan og þaðan frá öðrum heilbrigðisstofnunum.

„Það er lygi sem haft er eftir henni í fyrri grein ykkar að til sé gæðahandbók,“ segir heimildarmaður DV. Blaðið hefur óskað eftir afriti af gæðahandabókinni en það hefur ekki fengist. Svörin eru á þá leið að bókin yrði ekki send út úr húsi.
Þá segir sami heimildarmaður að árangursmat hafi verið framkvæmt af nemum Sigurlínu í tölfræði við Háskóla Íslands. Það sé enginn óháður aðili sem hafi framkvæmt árangursmat, heldur ungir nemendur í tímavinnu hjá Krýsuvíkursamtökunum. Vill Sigurlína ekki gefa upp hvernig matið var framkvæmt. Samkvæmt matinu ljúka um 26 prósent meðferð sem tekur hálft ár. Um 60 prósent af þeim ná að vera án áfengis.

„Ef það er satt að Krýsuvík sé með hæsta árangur í meðferð getum við líka sagt að Krýsuvík sé með langversta árangur í að ljúka meðferð. Þetta er eins og spyrja bóndann á Hlaðgerðarkoti hvort það hafi verið margir edrú í meðferðinni. Þetta er bull.“

Í kjölfar umfjöllunar DV hefur Þorgeir verið sendur í tveggja mánaða leyfi frá störfum. Heimildarmenn DV segja að það hafi áður gerst þegar óþægileg mál hafi komið upp meðal starfsmanna. Að þeirra mati er það ætlun yfirstjórnar að bíða storminn af sér og þagga málið niður.
Þorgeir Ólason Í kjölfar umfjöllunar DV hefur Þorgeir verið sendur í tveggja mánaða leyfi frá störfum. Heimildarmenn DV segja að það hafi áður gerst þegar óþægileg mál hafi komið upp meðal starfsmanna. Að þeirra mati er það ætlun yfirstjórnar að bíða storminn af sér og þagga málið niður.

Forstöðumaður hrósar meintum kynferðisbrotamanni

Það hefur reitt starfsmenn til reiði að verða vitni að því að Sigurlína hafi hrósað Birni Ragnarssyni fyrir vel unnin störf en hann starfaði þar sem fyrst sem ráðgjafi og síðar bílstjóri í Krýsuvík. Björn sem er sextugur varð uppvís að því að misnota traust skjólstæðings og hóf samband með ungri stúlku á meðan hún dvaldi í Krýsuvík. Björn var í kjölfarið látinn fara í nokkra mánuði en ráðinn aftur sem bílstjóri. Ekki löngu síðar kærði stúlka um tvítugt hinn sextuga ráðgjafa fyrir gróft kynferðisbrot. Þegar DV óskaði eftir svörum frá Sigurlínu um álit hennar á endurráðningu Björns sagði hún:

„Björn viðurkenndi brot sitt umyrðalaust, var mjög leiður yfir því og var í fríi nokkra mánuði eftir það. Ekki var talið gerlegt að ráða hann aftur sem ráðgjafa, en þar sem sárlega vantaði staðarhaldara […] Björn er mjög fær í þessu starfi og ákveðið var að gefa honum tækifæri til að sanna að brot hans hefði verið einangrað og myndi ekki endurtaka sig. Þetta gekk ekki eftir og hann braut af sér aftur …“

Þá sagði Sigurlína að Björn hefði verið farsæll í starfi þrátt fyrir hinar alvarlegu ásakanir. Björn neitaði í samtali við DV að vera kynferðisbrotamaður en var algjörlega ósammála Sigurlínu um eigin getu. Sagðist hann enga þekkingu hafa til að hjálpa skjólstæðingum Sigurlínu og að hann hefði verið settur í erfiða stöðu. Gekkst hann fúslega við því að hafa farið út fyrir öll siðleg mörk í samskiptum við skjólstæðinga og kvaðst hann vera að leita sér hjálpar hjá fagaðilum.

Enginn peningur til, nema fyrir lúxusbíl

DV spurði Sigurlínu í síðustu viku um nýleg bílakaup forstöðumanns meðferðarheimilisins en Lovísa framkvæmdastjóri og móðir Þorgeirs keypti bílinn eins og áður segir á 8,5 milljónir króna og var bílnum svo breytt fyrir háar upphæðir. Sigurlína hafði þetta að segja:

„Stjórnin hefur heldur ekki verið með fingurna í bílaumsvifum stofnunarinnar, en ef hún óskar og þegar ástæða hefur þótt til, hefur hún verið upplýst um þessi umsvif.“

Svarið verður að teljast nokkuð undarlegt þar sem Lovísa er framkvæmdastjóri og situr í stjórn Krýsuvíkursamtakanna og er nánasti samstarfsmaður Sigurlínu um árabil. Segja heimildarmenn DV útilokað að Sigurlína hafi ekki samþykkt og vitað af því að keyptur hafi verið bíll að verðmæti 8,5 milljóna króna fyrir forstöðumanninn.

Flestir starfsmenn í Krýsuvík sem og nokkrir stjórnarmenn hafa furðað sig á þessum kaupum og þá sérstaklega í ljósi þess að eitt og annað þarf að laga á meðferðarheimilinu. Tölvubúnaður er gamall og húsgögn sum úr sér gengin. Þá hefur Þorgeir lítið sést á meðferðarheimilinu síðustu mánuði. Ef hlustað er á gamalt viðtal við Sigurlínu í Bítinu á Bylgjunni frá 8. apríl 2015 talar hún um fjársvelt Krýsuvíkursamtök.

„Við höfum undanfarin ár skrimt á lágmarks fjárframlögum en erum bara hætt að treysta okkur til þess.“
Aðspurð um helstu styrktaraðila svaraði Sigurlína: „Ríkið hefur lagt pening til meðferðarinnar. Síðan eru margir styrktarfélagar í samtökunum. Alls konar samtök líka, Lions, Kiwanis, Oddfellow, hafa rétt okkur hönd. En sá aðili sem hefur fjármagnað meðferðina er ríkið.“ Síðan bætti hún við: „Staðan á okkur er sú að við skrimtum. Við rétt skrimtum […] Til að hafa það af út árið þá verðum við að fækka í húsi og segja upp fólki, og við erum þegar byrjuð á því.“

Þá var Sigurlína spurð um hversu mikið fjármagn þau fengju frá ríkinu. Gagnrýndi hún ríkið fyrir að fá ekki hærri upphæð.
„Þetta er svipuð fjárhæð eins og síðast, við höfum verið með rétt um 70 milljónir […] En í ár kaupum við minna fyrir 70 milljónir heldur en í fyrra […] Við þyrftum svona 105 milljónir, þá værum við bara góð. Við myndum treysta okkur til að lifa fyrir eitthvað minna en það, en ekki mikið minna.“

Sigurlína fékk svo ósk sína uppfyllta. Ríkið ákvað að auka fjármagn um tugi milljóna. Það dugði til að hægt var að kaupa tryllitæki beint úr kassanum fyrir forstöðumanninn. DV hefur einnig undir höndum greinargerð frá aðalfundi árið 2016. Þar stendur orðrétt: „Ragnar Ingi spurði hvort ekki stæði til að gera innra mat á starfseminni. Sigurlína sagði það æskilegt en fjárhagsstaða (léleg) hefði komið í veg fyrir það.“

Níðingar að störfum

Fyrir utan óeðlileg samskipti Þorgeirs við skjólstæðinga og meint kynferðisbrot ráðgjafans Björns Ragnarssonar þá hefur DV einnig heimildir fyrir að tveir aðrir karlkyns starfsmenn, síðustu ár, hafi ýmislegt misjafnt á samviskunni. Annar þeirra hafi tvisvar verið sakaður um að brjóta gegn konum auk þess sem lögreglan var tíður gestur á heimili hans vegna gruns um heimilisofbeldi á árum áður. Þá hafi DV öruggar heimildir fyrir því að maðurinn hafi viðurkennt á AA-fundum að hafa keypt vændi af konum, stúlkum og drengjum sem stríða við fíkniefnavanda.

Umræddur maður hefur í starfi sínu aðgang að trúnaðargögnum um skjólstæðinga samtakanna. Hann er ekki í daglegum samskiptum við þá en hefur farið í ferðir með ráðgjöfum og skjólstæðingum, meðal annars í Þórsmörk. Starfsmaðurinn hefur verið án áfengis og vímuefna í lengri tíma en er sagður þjást af kynlífsfíkn.
Hinn maðurinn starfaði sem ráðgjafi um árabil á Meðferðarheimilinu í Krýsuvík og er sagður kynferðislega brenglaður. Tveir heimildarmanna DV segja hann hafa tekið bæði skjólstæðinga og aðstandendur í einkaviðtöl heima hjá sér á kvöldin. Þá leigði hann herbergi miðsvæðis þar sem hann tók upp kynlíf sitt með konum án þess að láta þær vita. Braut hann með þeim hætti gegn fjölmörgum konum á mjög víðu aldursbili, samkvæmt heimildum blaðsins.

Mælirinn fullur

Stjórnarmönnum var ljóst í upphafi mánaðar að ráðgjafar, starfsfólk og fyrrverandi stjórnarmenn hefðu fengið sig fullsadda af óreiðunni í Krýsuvík. Segja heimildarmenn að ráðgjafar hafi reynt að gera sitt besta við erfiðar aðstæður. Upplifðu bæði ráðgjafar og starfsfólk að þegar þau komu kvörtunum á framfæri við stjórnendur væru hlutirnir þaggaðir niður.
Í janúar var stjórnin kölluð saman eftir umfjöllun DV. Á stjórnarfundum var rætt um ásakanir á hendur Þorgeiri, sonar Lovísu. Upplifun stjórnarmanna er að þeim hafi verið haldið óupplýstum bæði um milljóna bílakaup, meint kynferðisbrot ráðgjafa sem og samband Þorgeirs við kvenkyns skjólstæðinga. Þá furða stjórnarmenn sig á því að Helena, mágkona Þorgeirs, og starfsmaður á skrifstofunni, hafi einnig setið stjórnarfundi þótt hún sé ekki stjórnarmaður.

Tengsl Sigurlínu við þau Þorgeir og Lovísu eru sterk en þau hafa þekkst yfir 20 ár. Náið samband þeirra má rekja til þess að Krýsuvíkursamtökin stefndu í gjaldþrot undir lok síðustu aldar. Þá kom Þorgeir til skjalanna og tókst að rífa starfið upp úr öldudalnum. Hann fékk síðan móður sína til liðs við samtökin og síðan hefur Sigurlína ekki séð sólina fyrir þeim mæðginum. „Það verður ekki tekið af Þorgeiri að hann var mjög góður sem ráðgjafi og náði vel til fólks. Hann er hins vegar gjörsamlega óhæfur stjórnandi. Lovísa er einnig mjög góð kona og afar öflug. Hún er í þeirri ómögulegu stöðu að þurfa að taka á brotum sonar síns en það virðist hún ekki geta. Hún er bullandi meðvirk gagnvart Þorgeiri,“ segir fyrrverandi starfsmaður.

Að sögn heimildarmanna er margt gott gert í meðferðarstarfinu í Krýsuvík en yfirstjórn, sem er tengd nánum fjölskylduböndum, sé óhæf með öllu.
Meðferðarheimilið í Krýsuvík Að sögn heimildarmanna er margt gott gert í meðferðarstarfinu í Krýsuvík en yfirstjórn, sem er tengd nánum fjölskylduböndum, sé óhæf með öllu.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Stjórnarmaður hættir

Stjórn Krýsuvíkursamtakanna hefur komið æði oft saman síðustu vikur eftir fjölmiðlaumfjöllun DV. Þorgeir hefur eins og áður segir stígið til hliðar, glæsikerrann komin á sölu, lögfræðingar í startholum til að bregðast við bótakröfum sjúklinga og almannatengill úti í bæ ráðinn til að draga úr trúverðugleika frétta DV. Þá hefur stjórnarmaður sagt af sér. Telur stjórnarmaðurinn samvisku sína ekki leyfa að hann sitji áfram í stjórn og ljóst sé að ekki eigi að bregðast við alvarlegum athugasemdum frá skjólstæðingum, fyrrverandi ráðgjöfum og stjórnarmönnum.

DV hefur heimildir fyrir því að eftir fund stjórnar hafi starfsfólk viljað ræða málin við stjórnarmenn og framkvæmdastjóri og stjórnarformaður þá lýst fundum sem vel heppnuðum. DV hefur hins vegar heimildir fyrir því að starfsmenn hafi hótað að segja upp störfum komi Þorgeir aftur til starfa eftir að hafa verið skikkaður í sumarfrí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Enn einn Snapchat-perrinn
Fréttir
Í gær

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Í gær

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Í gær

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“
Fréttir
Í gær

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd