fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
FréttirLeiðari

Planið gekk upp

Ritstjórn DV
Föstudaginn 19. ágúst 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fátt hefur skipt meira máli fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs en setning fjármagnshafta í árslok 2008. Þau urðu þess valdandi að efnahagsbatinn hófst fyrr en ella eftir fall bankanna; sköpuðu andrými fyrir heimili og fyrirtæki samhliða því að skuldastaða þeirra komst í sjálfbært horf; hjálpuðu hinum endurreistu bönkum að styrkja efnahagsreikninga sína; gáfu stjórnvöldum færi á að tryggja að uppgjör gömlu bankanna yrði gert þannig að efnahagslegum stöðugleika Íslands yrði ekki ógnað; og lækkuðu innlendan fjármagnskostnað ríkisins. En eins nauðsynleg og höftin voru á sínum tíma þá mátti öllum vera ljóst að sá tími var runninn upp að þau þyrftu að fara – fyrr frekar en síðar.

Eftir átta ár í höftum er Ísland að opnast á ný gagnvart útlöndum. Með þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa núna boðað verður á komandi vikum og mánuðum opnað nánast alfarið á fjármagnsviðskipti heimila og fyrirtækja til og frá landinu. Þessu ber að fagna – og eru þau skref sem verða tekin meira afgerandi en flestir á fjármálamarkaði höfðu leyft sér að vona. Stærstu tíðindin felast í því að bein erlend fjárfesting verður heimiluð án takmarkana og þá er einstaklingum gert kleift að ráðstafa hluta af sínum sparnaði í erlenda verðbréfafjárfestingu fyrir allt að 100 milljónir á ári.

Afar ólíklegt verður að teljast að gengi krónunnar lækki að einhverju ráði samhliða því að Íslendingum sé leyft að leita út fyrir landsteinana með fjárfestingar sínar. Þvert á móti er ekki ósennilegt að krónan haldi áfram að styrkjast enda má meðal annars búast við því að þegar höftin hverfa þá muni erlendir fjárfestar í auknum mæli beina sjónum sínum til Íslands – einkum í ljósi þess að efnahagsaðstæður hér á landi eru mun betri en í okkar helstu viðskiptalöndum. Fátt bendir til að sú staða taki breytingum á allra næstu árum.

Eftir sitja hinir ólánssömu aflandskrónueigendur, fastir á vaxtalausum vaxtareikningum um ófyrirséðan tíma. Þeir hafa verið settir í röð.

Aðstæður til að stíga núna stór skref við losun hafta eru eins ákjósanlegar og hugsast getur. Skuldir íslenska ríkisins eru greiddar niður af meiri hraða en áður hefur þekkst. Hagvaxtarhorfur eru með besta móti. Verðbólga hefur mælst undir markmiði Seðlabankans samfellt í meira en tvö ár. Spáð er viðvarandi viðskiptaafgangi næstu árin. Erlend skuldastaða þjóðarbúsins er óðum að verða ein sú besta sem þekkist á meðal vestrænna ríkja. Eigin- og lausafjárstaða bankanna stendur traustum fótum og þá hefur gríðarlegt innflæði gjaldeyris gert Seðlabankanum mögulegt að kaupa gjaldeyri fyrir um 500 milljarða frá því í ársbyrjun 2015.

En þrátt fyrir þessa hagfelldu efnahagsþróun þá eru það aðgerðir stjórnvalda gagnvart kröfuhöfum föllnu bankanna og aflandskrónueigendum sem hafa skipt mestu máli. Með þeim voru skapaðar þær aðstæður að Ísland er núna á þeim stað að geta lyft höftum án þess að að eiga hættu á að slíkt geti valdið atburðarás sem leiði til meiriháttar gengishruns krónunnar. Með nýlegu frumvarpi ráðherra um meðferð aflandskrónueigna, og í kjölfarið gjaldeyrisútboði Seðlabankans, var síðustu hindruninni rutt úr vegi svo hægt yrði að hefja almenna haftalosun á Íslendinga. Fyrir þá vogunarsjóði sem kusu að taka ekki þátt í útboðinu hljóta þær aðgerðir sem núna hafa verið kynntar að vera þeim áfall enda er með þeim sýnt fram á að þátttaka þeirra skipti engu máli fyrir framgang haftaáætlunar stjórnvalda. Eftir sitja hinir ólánssömu aflandskrónueigendur, fastir á vaxtalausum vaxtareikningum um ófyrirséðan tíma. Þeir hafa verið settir í röð.

Langsamlega stærsta og flóknasta verkefni fráfarandi ríkisstjórnar, sem af óskiljanlegum ástæðum féllst á að flýta kosningum til Alþingis um eitt löggjafarþing, var að hrinda í framkvæmd áætlun um losun hafta sem myndi ekki ógna þeim efnahagsstöðugleika sem hefur náðst eftir fjármálaáfallið. Það hefur núna tekist. Planið gekk upp – og efnahagsstaða Íslands hefur aldrei verið betri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí