fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Leikskólastjóri segir komið að þolmörkum: „Bara það að endurnýja dýnur fyrir börnin getur sett fjármálin í uppnám“

Aldrei verið góðæri hjá leikskólunum – „Fyrir rúmar 30 þúsund krónur á dag á ég að sjá 100 manns fyrir morgunmat, ávaxtastund, hádegisverði og síðdegishressingu“

Auður Ösp
Föstudaginn 26. ágúst 2016 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Bara það að endurnýja dýnur fyrir börnin getur sett fjármálin í uppnám, undarlegt hljóð í þvottavélinni getur kallað fram kvíðakast og maður fær samviskubit við það að senda starfsfólkið í Góða hirðinn til að kaupa leikefni,“ segir Anna Margrét Ólafsdóttir, leikskólastjóri Nóaborgar. Þungt hljóð er í leikskólastjórnendum borgarinnar þar sem rekstrarstaðan þrengist sífellt.

Anna Margrét, sem starfað hefur sem leikskólastjóri í fjölda ára tjáir sig um málið í opinni færslu á fésbók sem fengið hefur sterkar undirtektir. Hún segir leikskólana ætíð hafa þurft að búa við kröpp kjör. Nú sé hins vegar komið að þolmörkum.

„Enginn er góður í öllu en allir eru góðir í einhverju segir einhvers staðar. Ég er góð í að reka leikskóla en til þess þarf ég raunhæft rekstrarfé. Um þessar mundir eru 15 ár síðan ég varð leikskólastjóri og ég hef alltaf rekið leikskólann minn vel og er það meðal annarsvegna þess að ég hef haft við hlið mér frábæran og þéttan hóp starfsmanna sem hafa lagt á sig mikla og óeigingjarna vinnu í gegnum árin til að láta allt ganga upp. Það hefur aldrei verið góðæri í leikskólanum og alltaf hefur þurft að forgangsraða og horfa í hverja einustu krónu“

ritar Anna Margrét og bætir við:

„Fyrir rúmar 30 þúsund krónur á dag á ég að sjá 100 manns fyrir morgunmat, ávaxtastund, hádegisverði og síðdegishressingu. Bara fiskurinn kostar til dæmis um 24 þúsund og þá er allt annað eftir. Undantekningarlítið hef ég hlakkað til að fara í vinnuna á hverjum einasta degi og talið mig vera heppna að fá að vinna við það sem mér finnst skemmtilegast í heimi.“

Hún segir síðasta vetur og það sem af er þessu ári vera erfiðasta tímabil sem hún hefur átt í starfi. Það skrifar hún nánast að öllu leyti á þann meirihluta sem nú stjórnar borginni, en nú sé svo komið að ekki sé hægt að þegja lengur.

„Það er deginum ljósara að þetta ástand gengur ekki upp og verður borgin að horfast í augu við það að þjónustan við börnin mun skerðast og starfsfólk mun hverfa til annarra starfa. Veikindi starfsmanna hafa aukist á þessu ári og má eflaust rekja það a.m.k. að hluta til til aukins álags,“ ritar hún og bætir við að hún geti ekki lengur boðið sjálfri sér, starfsfólki eða börnum leikskólans upp á annan álagsvetur.

„Ég studdi þennan meirihluta til valda og hafði mikla trú á honum en það traust fer þverrandi með hverjum deginum sem líður. Ég veit að mörgum stjórnendum líður eins og mér og eru komnir með nóg. Það þarf að gera eitthvað róttækt í skólamálunum og það strax, áður en það verður of seint.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí