fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Pútín horfir til Narva

Narva – Rússnesk borg í Eistlandi – Fá ekki ríkisborgararétt í Eistlandi, en vilja ekki þann rússneska

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 28. júlí 2016 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Borgin Narva er í Eistlandi, alveg við landamæri Rússlands. Rússneska er móðurmál meirihluta borgarbúa en samt sem áður telja þeir sig flestir vera Eista. Engu að síður eru það ekki eingöngu hlýjar hugsanir sem streyma til eistneskra stjórnvalda frá íbúunum – þeim finnst þeir vera annars flokks borgarar í landinu.
Ekkert bendir þó til að íbúarnir hafi sérstakan áhuga á að verða rússneskir ríkisborgarar en margir óttast samt sem áður að Rússar muni beita svipuðum aðferðum þar og þeir gerðu í undanfara innlimunar Krím í Rússland.

Horfa til Rússlands

Narva er við rússnesku landamærin og íbúarnir horfa yfir til Rússlands daglega. Borgin fylgdi Eistlandi þegar Sovétríkin sálugu leystust upp. Þetta er sú borg á yfirráðasvæði NATO sem er næst Rússlandi. NATO hefur töluverðar áhyggjur af hernaðarbrölti Rússa þessa dagana og er að styrkja herafla sinn í Eystrasaltsríkjunum til að geta tekist á við Rússa en einnig er verið að senda Rússum skilaboð um að þeir skuli ekki voga sér að leika sama leik og þeir gerðu á Krím og í austurhluta Úkraínu.

NATO ætti þó ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur af íbúum borgarinnar og að þeir vilji ganga Rússum á hönd. Ekkert bendir til að þeir séu að snúa sér frá Tallinn til að mynda sitt eigið ríki eins og uppreisnarmenn gerðu í austanverðri Úkraínu fyrir tveimur árum. Af 60.000 íbúum borgarinnar eru 97 prósent rússneskumælandi, en þeir hafa það einfaldlega of gott samanborið við rússneska nágranna sína til að vilja ganga Rússlandi á hönd. Laun þeirra og lífeyrir eru miklu betri en austan við landamærin eftir því sem fram kom í nýlegri umfjöllun Politiken. Um 83 prósent íbúanna eru af rússneskum uppruna en aðeins fjögur prósent eru af eistneskum uppruna. Borgin er sú þriðja fjölmennasta í Eistlandi.

En Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur samt sem áður unnið ákveðinn sigur í Narva og víðar í austurhluta Eistlands því meirihluti rússneskumælandi íbúa þar styður hann en ekki eistnesk stjórnvöld. Þetta má að hluta skýra með því að íbúunum finnst sem eistnesk stjórnvöld hafi árum saman litið á þá sem annars flokks borgara.

Meirihluti íbúa Narva styður Pútín, en kærir sig þó ekki um rússneskan ríkisborgararétt.
Vladimír Pútín Meirihluti íbúa Narva styður Pútín, en kærir sig þó ekki um rússneskan ríkisborgararétt.

Mynd: EPA

Uppfylla ekki kröfur um ríkisborgararétt

Þegar Eistland fékk sjálfstæði 1991 ákvað eistneska þingið að til að geta fengið ríkisborgararétt yrði fólk að tala eistnesku. Margir rússneskumælandi íbúa landsins tala ekki eistnesku og uppfylla því ekki þessi skilyrði og hafa því ekki eistneskan ríkisborgararétt. Þessir íbúar fá útgefið annars konar vegabréf en aðrir íbúar landsins og hafa aðeins kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum.

En það er ekki nóg að kunna eistnesku til að fá ríkisborgararétt, það þarf að kunna málið eins og móðurmál sitt og ekki er hægt að fá störf hjá því opinbera nema þessi skilyrði séu uppfyllt.

Þegar Eistland og önnur ríki Sovétríkjanna fyrrverandi fengu stóra rússneskumælandi minnihlutahópa með í kaupunum þegar Sovétríkin hrundu töldu eistnesk stjórnvöld það vera pólitískt brjálæði og það sama á við um önnur ríki Sovétríkjanna sálugu. Þessir hópar eru nú taldir vera mikil öryggisógn sem geti verið stökkpallur Rússa til að raska jafnvægi í þessum ríkjum samfara síauknum núningi þeirra við Vesturlönd.

Rússneska er nær eina tungumálið sem er talað í Narva og Rússar hafa töluverðan áhuga á borginni. Íbúum þar, sem og öðrum rússneskumælandi íbúum í Eistlandi, stendur meðal annars til boða að fá rússneskan ríkisborgararétt og eru 36 prósent íbúa borgarinnar rússneskir ríkisborgarar.

Vaxandi óánægja

Eitt af því sem fer illa í marga íbúa Narva er að öll götuskilti í borginni eru á eistnesku þrátt fyrir að aðeins fjögur prósent íbúanna telji eistnesku vera móðurmál sitt.

Margir íbúa Narva líta upp til Pútíns og telja hann vera sterkan leiðtoga. Þetta sést berlega í pólitíkinni því Miðjuflokkurinn, sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkur Eistlands, nýtur mikils stuðnings í borginni og borgarstjórinn tilheyrir flokknum. Flokkurinn á í nánu samstarfi við flokk Pútíns, Sameinað Rússland. Miðjuflokkurinn hefur lýst yfir skilningi á innlimun Rússa á Krím og stuðningi við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.
Atvinnuleysi í Narva er um níu prósent en landsmeðaltalið er 4,9 prósent. Ungt fólk flytur frá borginni og félagsleg vandamál fara vaxandi. Allt getur þetta orðið til að kynda undir óánægju íbúa með stjórnvöld í Tallinn og ýtt þeim í austurátt, í faðm Pútíns.

Margir horfa aftur til Sovéttímans þegar margar verksmiðjur voru í borginni og næga vinnu að fá. Þessum verksmiðjum var lokað í kjölfar hruns Sovétríkjanna og margir, sérstaklega eldri íbúar borgarinnar, telja að hægt væri að opna þær aftur ef borgin færi undir rússneska stjórn.
Í umfjöllun BBC um borgina kemur fram að meðallaun íbúanna séu þriðjungi lægri en meðallaun annar íbúa í Eistlandi.

Mikil rússnesk áhrif

Aðdáun margra íbúa Narva á Pútín á einnig rætur að rekja til mikilla rússneskra áhrifa í borginni. Margir eldri íbúanna fæddust og bjuggu í Sovétríkjunum sálugu þegar Eistland tilheyrði þeim. En rússnesk áhrif hurfu ekki með sjálfstæði landsins. Íbúarnir horfa á ríkisreknar rússneskar sjónvarpsstöðvar og hlusta á rússneskar útvarpsstöðvar.
Skoðanir þeirra eru því oft á tíðum litaðar af því sem fram kemur í þessum rússnesku fjölmiðlum þar sem fréttaflutningur er oft ansi bjagaður og hlutur Rússa fegraður.

Rússar telja Narva vera á áhrifasvæði sínu, Russkiy Mir (Rússneska heiminum) eins og það er nefnt í Kreml. Þegar rússneskir ríkisfjölmiðlar flytja fregnir af málum tengdum Rússlandi er markmið þeirra ekki alltaf að sannfæra stjórnmálamenn eða almenning á Vesturlöndum um ákveðin sjónarmið. Markmiðið er að koma með útgáfu sem stuðningsfólk Pútíns í Russkiy Mir getur fellt sig við.

Hér má sjá hermann dreifa eistneska fánanum og borgarfána Narva til viðstaddra.
Borgarflaggið Hér má sjá hermann dreifa eistneska fánanum og borgarfána Narva til viðstaddra.

Mynd: EPA

Fréttaútsendingarnar eru notaðar til að sannfæra rússneskumælandi íbúa Eistlands, það sama á við í Lettlandi, um að réttindi þeirra séu fótum troðin af stjórnvöldum. Því er ekki undarlegt að þetta fólk kjósi flokka hliðholla rússneskum hagsmunum, svo lituð er heimsmynd þeirra af rússneskum fréttaflutningi.
Eðli málsins samkvæmt hafa íbúar Narva átt mikil samskipti við Rússland og viðskiptabann Vesturlanda gagnvart Rússlandi hefur komið sér illa fyrir þá og viðskiptasambönd hafa farið út um þúfur.

Eistnesk stjórnvöld telja að Rússar séu að reyna að raska jafnvæginu í landinu, rússneskur fréttaflutningur sé fjandsamlegur Eistlandi. BBC hefur eftir talsmanni stjórnvalda að þetta sé augljóst ef horft er á rússneskan fréttaflutning þar sem vandamál eru ýkt og sögur beinlínis búnar til.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí